Meðal þeirra sem saka Jón Baldvin Hannibalsson um kynferðislega áreitni eru fyrrverandi nemendur hans í Hagaskóla en atvikin eiga að hafa gerst árið 1967. Þetta eru þær Matthildur Kristmannsdótir og María Alexander. Matthildur lýsti áreitninni m.a. svo í viðtali við Stundina í vetur:
„Hann fór að segja mér að ég lærði ekki nógu vel heima, sem er mjög líklega alveg rétt, og vildi að ég sæti eftir. Það var ekki í sömu kennslustofu heldur í herbergi hinum megin á ganginum. Þar fór hann með mig inn og læsti. Þar var einn stóll og borð og hann gekk svona fram og til baka og lét mig skrifa. Hann var alltaf að beygja sig yfir mig til þess að vita hvernig ég skrifaði. Um leið og hann beygði sig yfir mig fann ég að hann var að strjúka mér. Og hann gerðist alltaf nærgöngulli.“
„Hann hélt áfram að strjúka mér og fór að troða sér aftan á stólinn hjá mér. Þetta var svona gamall skólastóll með algjörlega beinu baki og beinu sæti. Honum tókst að troða sér fyrir aftan mig á milli mín og stólbaksins. Ég sat alveg á nippinu á stólnum. Hann var mjög grannur á þessum árum og ég líka og þetta tókst honum að gera. Hann byrjaði að káfa á mér allri og sleikti á mér hálsinn og eyrað og kinnina. Ég var algjörlega frosin. Ég gat ekki staðið upp. Ég gat ekki sagt neitt. Ég bara sat. Ég man eftir hvað ég skammaðist mín fyrir hvað væri að gerast.“
Í viðtali í Silfrinu á RÚV í vetur sagði Jón Baldvin að engin gögn væru til um það að hann hefði kennt þessum konum. Borgarskjalasafn fann síðan gögn að beiðni Stundarinnar og DV sem sýndu fram á að hann hefði kennt bekknum sem stúlkurnar voru í íslensku þennan vetur.
Í samtali við Stundina í dag segir Jón Baldvin að hann vilji hitta þessar konur. Jón segir við Stundina:
„Ef að nærvera mín sem forfallakennara í 2. bekk Hagaskóla þótti um of, þá get ég ekkert sagt um það. Þeir sem upplifðu þá nærveru á einhvern annarlegan hátt, þurfa að díla við það sjálfir – og mér finnst það bara undarlegt að slíkt sé tekið marktækt. Það er ekkert sem ég get sagt um það. Ég myndi gjarnan vilja fá að hitta þessar tvær, ef þær vilja það. Þá getum við rætt málin.“