Sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálum og fjölskyldum þeirra er létt yfir niðurstöðu Hæstaréttar í dag. Erla Bolladóttir, sem var dæmd í 3 ára fangelsi árið 1980, var sú eina sem var sakfelld í málinu en fékk það ekki endurupptekið. „Þetta hefði átt að klárast í dag. En endurupptökunefnd kaus að skila mjög vafasamri niðurstöðu sem ég neyðist til að kæra til að klára þetta,“ sagði Erla í samtali við RÚV eftir að sýkna hinna sakborninganna lá fyrir.
Sjá einnig: SÝKNUÐ
Hún sagðist vera glöð yfir sýknunni en sagði að á sama tíma fyndi hún fyrir mikilli hryggð. Málið hennar var ekki endurupptekið þar sem hún var ekki dæmd fyrir morð á Guðmundi Einarssyni og Geirfinni Einarssyni, heldur fyrir meinsæri. Hún ætlar að halda málinu áfram og hefur fengið Ragnar Aðalsteinsson til að reka það fyrir sig.
Erla segir að eftir allt sem á undan hafi gengið treysti hún engu en dagurinn í dag sé gleðidagur: „Að því leyti er þetta mikið gleðiefni í dag, eitthvað gott gerðist hér í dag. Stórkostlegt í rauninni. Ég gerði þá vitleysu að vænta réttrar niðurstöðu hjá endurupptökunefnd og það var ansi mikið áfall þegar hún kom. Eftir það hef ég ekki gefið mér neitt.“
Ragnar sagði eftir dóminn að hann væri ánægður með niðurstöðuna sjálfa en lögfræðilega sé hann óánægður með forsendur dómsins þar sem Hæstiréttur hafi eingöngu byggt niðurstöðu sína á kröfum saksóknara. „Þannig að dómurinn lagði ekki í það að gera hinar nauðsynlegu athugasemdir við meðferð þessa máls allt frá 1976 til 1980. Þar auðvitað er mjög líklegt að hafi áhrif að dómararnir eigi erfitt með að gagnrýna sína eigin stofnun fyrir það sem gerðist 1980. Til þess þarf auðvitað mikinn kjark og mikið áræðni og mikla einbeitingu. Það gerðist ekki því miður. Ég er ánægður með niðurstöðuna en ekki forsenduna.“