fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Spákona í Breiðholti er dópsali: „Hvað margar?“ – Sjáðu myndbandið

Tugir dáið úr eitrun – Alma var 15 ára þegar hún lést – Spádómar og dóp í boði

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 20. febrúar 2018 10:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sölumaður dauðans var hvorki lifaður, leðurklæddur maður í dimmu húsasundi né ungur drengur með vöðvana fulla af sterum klæddur í græna Adidas-peysu. Fíkniefnasalinn var spákona á sjötugsaldri sem selur dauðadópið contalgin og býður einnig upp á rítalín. Blaðamenn DV hringdu í spákonuna sem bauð öðrum þeirra að hún myndi rýna í framtíð hans og þá gat hann einnig keypt bæði contalgin og rítalín af spákonunni. Hefur DV bæði hljóð og myndbandsupptökur þar sem dópið var keypt í Breiðholti undir höndum.

Tók blaðamenn DV nokkrar mínútur að fá að læknadópið. Lyfið er keypt á Spáni fyrir 1.000 krónur hver tafla.
Ein tafla kostar 8.000 Tók blaðamenn DV nokkrar mínútur að fá að læknadópið. Lyfið er keypt á Spáni fyrir 1.000 krónur hver tafla.

Dauðadópið contalgin hefur verið vinsælt á íslenskum fíkniefnamarkaði og hefur verið kallað hið íslenska heróín. Contalgin er morfín og skylt heróíni og ætlað til að lina þjáningar krabbameinssjúklinga.

Contalgin hefur tekið tugi íslenskra fíkla. Í nóvember síðastliðnum opnaði Hildur Hólmfríður Pálsdóttir sig um dauða dóttur sinnar. Almu Maureen Vinson lést í október 2014 aðeins 15 ára gömul af of stórum skammti af contalgin.

„Aldrei í lífinu hélt ég að ég ætti eftir að gera þetta, að sitja heima með tárin í augunum að skrifa minningargrein um dóttur mína. Elsku litli fallegi engill, það eru engin orð sem fá því lýst hversu mikið við söknum þín. Núna er allt svo hljótt, enginn söngur úr herberginu þínu, enginn gítarleikur, og ekkert verið að kalla á mömmu sína til að biðja hana um að koma með eitthvað,“ skrifaði Hildur í minningargrein um dóttur sína.

Í umfjöllun RÚV í lok árs 2017 kom fram að árið á undan hefðu 25 látist vegna lyfja eða fíkniefna. 17 dauðsföll voru vegna ópíóða og höfðu þá aldrei verið fleiri. Ári 2007 og 2008 voru dauðsföll 32 og 34. Hlutfall þeirra sem látast úr lyfjanotkun er hér næsthæst í heimi á eftir Bandaríkjunum.

DV hefur öruggar heimildir fyrir því að karlmaður sem hefur áður gerst sekur um refsiverða háttsemi sé nokkuð einráður þegar kemur að innflutningi af dauðadópinu til landsins. Dópið er keypt á Spáni og kostar um þúsund krónur taflan og er svo selt á átta þúsund krónur hér á landi. Contalgin er mest notað af langt leiddum fíklum og tekur eins og áður segir mörg líf á ári.

Dauðadópið

„Aldrei í lífinu hélt ég að ég ætti eftir að gera þetta, að sitja heima með tárin í augunum að skrifa minningargrein um dóttur mína“

Contalgin hefur verið eitt það vinsælasta á íslenskum læknadópsmarkaði lengi og greindi Kompás frá því árið 2005 að sex manns létu lífið á hverju ári vegna ofneyslu morfínlyfja.

Eftir að þátturinn var sýndur hvarf lyfið af götunum um nokkurn tíma og sagt var að margir fíklar hafi liðið vítiskvalir á þeim tíma. En þegar storminn lægði byrjaði contalgin aftur að flæða inn á markaðinn og er enn mikið vandamál í dag þrátt fyrir að önnur lyf, samanber fentanýl og oxycontin séu einnig útbreidd.

Í nóvember síðastliðnum ræddi Rás 1 við Hildi, móður Ölmu Maureen sem lést eins og áður segir 15 ára gömul úr of stórum skammti af contalgin. Þar greindi Hildur frá því að dóttir hennar, sem hóf 12 ára gömul að neyta fíkniefna, hefði sagst vita hversu mikið af lyfinu hún þyldi.

„Ég sagði við hana að þetta virkaði ekki svoleiðis. Þetta er bara rússnesk rúlletta. Þú tapar alltaf.“ Í Kastljósi sagði Hildur: „Þeim er örugglega talin trú um að þetta sé allt hættulaust og þetta sé bara gott. Þegar þau byrja að reykja gras og eitthvað svoleiðis, að þetta sé bara náttúrulegt lyf og þetta geri bara gott, þau trúa þessu, dílerinn er náttúrulega besti vinur þeirra og þau trúa öllu sem hann segir, en þetta er bara kjaftæði. Þetta er bara eitur og leiðir í eitthvað meira og sterkara og endar yfirleitt bara á einn veg … Að koma að barninu sínu látnu í rúminu sínu er ekki það sem nokkur getur hugsað sér að eiga von á, við stóðum hérna agndofa, ég og bróðir hennar, skelfingin var svakaleg.“

Ólaf­ur B. Ein­ars­son, verkefnisstjóri lyfja­mála hjá Land­lækn­i sagði í samtali við Morgunblaðið í ágúst 2017.

„Á Íslandi má rekja ein­hver dauðsföll til eitr­ana af völd­um fentanýl en al­geng­ara er að oxýkódón finn­ist í sýn­um. Okk­ar til­finn­ing er sú að þeir sem mis­nota þessi efni geri sér ekki grein fyr­ir því hversu hættu­leg þau eru eða eru ekki í ástandi til þess. Það sama á sér stað hér á landi og í Banda­ríkj­un­um, að þeir sem eru verst stadd­ir í fíkn sinni fái ekki mikið ávísað sjálf­ir held­ur fái lyf sem lækn­ar ávísa á aðra.“

Contalgin og rítalin í boði

Ertu með eitthvað, þú veist?

DV hafði spurnir af því að spákonan væri að selja sitthvað fleira en upplýsingar um framtíðina. Hún væri að dreifa lyfseðilsskyldum lyfjum, það er læknadópi. Blaðamaður sló á þráðinn til konunnar og maður svaraði. Síðan tók spákonan við tólinu.

Blaðamaður DV þóttist heita Trausti, fíkill sem var á leiðinni inn á Vog en þyrfti smá skammt sem átti að duga fram að því. Trausti fór hins vegar varfærnislega í símtalið og athugaði hvort spákonan ætti lausan tíma til að spá fyrir honum. Spákonan sagði að það væri hægt og hún ætti lausan tíma klukkan tvö á heimili hennar í Breiðholtinu. Þá bar Trausti upp spurninguna:

Ertu með eitthvað, þú veist?

„Með eitthvað?“

„Konta“ eða eitthvað svoleiðis?

„Já,já … ég á konta.“

Hvað kostar hann?

„Átta þúsund.“

Var þá um eina 100 milligramma töflu af contalgin að ræða. Meirihlutinn af contalgin sem selt er á svörtum markaði á Íslandi er ekki komið frá innlendum lyfseðilshöfum heldur eru töflurnar keyptar inn erlendis frá. Kosta þær þá yfirleitt um þúsund krónur stykkið. Samkvæmt heimildum DV er spákonan dreifingaraðili fyrir einstakling sem fer reglulega til Alicante á Spáni og kaupir þar lyfin.

Spákonan sagðist eiga nóg af „konta“ og rítalíni. Rítalín er örvandi lyf, skylt amfetamíni, sem ávísað er til barna með athyglisbrest og ofvirkni. Auðveldar lyfið börnunum að halda einbeitingu og eiga samskipti við aðra. En rítalín er einnig eitt af algengustu lyfseðilsskyldu lyfjunum sem eru misnotuð á Íslandi. Er lyfið þá leyst upp og því sprautað í æð líkt og gert er við contalgin-töflurnar. Sjúkratryggingar Íslands létu gera úttekt á sölu rítalíns og skyldra lyfja á árunum 2006 til 2009 var aukningin þá um 20 prósent. Árið 2011 var hafði um helmingur þeirra sem leituðu inn á meðferðarheimilið Vog misnotað rítalín og skyld lyf.

Trausti spurði konuna hvort hún væri að selja „eitthvað annað, svipað og kontann“ og var þá að athuga hvort hún væri einnig að selja önnur morfínskyld lyf en svo reyndist ekki vera.

Keyptu töflu af contalgin

„Nei, þetta er spænskt. Hér er ekkert gamalt“

Næsta dag hringdi Trausti aftur í spákonuna og sagðist ekki ætla að láta spá fyrir um framtíð sína heldur vildi hann aðeins fá skammtinn. Það reyndist ekkert mál og hún sagðist ætla að vera heima þá um eftirmiðdaginn.

Fóru þá tveir blaðamenn DV á heimili hennar með upptökubúnað, bæði myndbandsupptökutæki og hljóðupptökutæki, til að ganga frá viðskiptunum. Konan hleypti þeim inn í íbúðina og við blöstu ýmiss konar skreytingar, lituð ljós og nornadúkkur. Kynnti annar blaðamanna þá sig sem frænda Trausta. Viðskiptin fóru svo fram í eldhúsinu hjá spákonunni en engir aðrir voru sjáanlegir á heimilinu.

„Hvað margar?“ spurði spákonan og Trausti sagðist aðeins vilja eina. Spurði hún þá hvort þeir væru Pólverjar, því henni fannst þeir líta út fyrir að vera pólskir. Hrósaði hún happi að þeir væru Íslendingar.

Upp úr hægri buxnavasa sínum dró spákonan þá lítinn plastpoka sem innihélt fjölmargar töflur af contalgin, úr niðurklipptu lyfjaspjaldi.

*Er þetta nokkuð gamalt?“ spurði Trausti

„Nei, þetta er spænskt. Hér er ekkert gamalt.“

Trausti rétti henni þá átta þúsund krónur í reiðufé.

„Gjörðu svo vel. Þið eruð ekkert í löggunni?“ spurði spákonan þá, og neituðu Trausti og frændi hans því. Því næst þökkuðu þeir fyrir sig og héldu sína leið með töfluna í farteskinu.

Spákonan vildi ekki tjá sig málið við DV þegar eftir því var leitað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar