fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Sigmundur Davíð tekur af öll tvímæli: Þeir reyndu að múta mér

Engar skjalatöskur eða skrifleg tilboð – „Umtalsverð upphæð“ til að liðka fyrir samningum – Eltur á röndum erlendis

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 28. mars 2017 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Orðalagið var með ýmsum hætti en ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að miðað við þá hagsmuni sem þarna væru undir þá gætu menn vel hugsað sér að sjá af örlítilli prósentu til að liðka fyrir samningum og sú litla prósenta væri umtalsverð upphæð,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, sem í samtali við DV tekur af öll tvímæli um að einstaklingar á vegum vogunarsjóða hafi boðið honum mútur fyrir hagfellda niðurstöðu í viðræðum við íslensk stjórnvöld. Það sé ekki svo að menn hafi komið upp að honum með skjalatöskur fullar fjár eða skriflegt tilboð, hins vegar hafi ekki farið á milli mála hvað um var að ræða.

Það var í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudag sem Sigmundur Davíð kom inn á það að honum hefði verið boðnar mútur sem forsætisráðherra af fulltrúum vogunarsjóðanna. Ummælin vöktu athygli en Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sagði þó í Bítinu á mánudag að hann teldi ummæli Sigmundar óljós og að hann yrði að segja það hreint út ef menn hefðu reynt að bera á hann fé sem forsætisráðherra.

Sigmundur kveðst hafa komið inn á þessi mál áður, meðal annars í þinginu, svo Brynjar hafi hugsanlega ekki fylgst nógu vel með undanfarin ár.

Engar skjalatöskur eða skrifleg tilboð

„Reyndar finnst mér sérkennilegt að menn ímyndi sér að svona hlutir gerist með því að send séu inn skrifleg tilboð um mútur, eða byrjað á því að nefna einhver tiltekin verð og sagt að maður geti fengið tösku í skáp á umferðarmiðstöðinni. Þetta gerist ekki þannig, en nokkrum sinnum voru menn sendir til að ræða við mig og gera mér það ljóst að þeir væru tilbúnir að leysa málin þannig að stjórnvöld á Íslandi gætu ekki kvartað en ég gæti jafnframt orðið mjög sáttur sjálfur og hætt að hafa áhyggjur af þessu stjórnmálavafstri,“ segir Sigmundur í samtali við DV. Bætir hann við að sem fyrr segir að ekki hafi verið hægt að skilja þessi tilboð öðruvísi en að hans biði skerfur af þeim hagsmunum sem þarna var um að tefla.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, taldi Sigmund ekki hafa talað nógu hreint út um mútutilboð vogunarsjóðanna.
Óljós Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, taldi Sigmund ekki hafa talað nógu hreint út um mútutilboð vogunarsjóðanna.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þótt tilboð þessi hafi verið undir rós segir Sigmundur sem fyrr að skilaboðin hafi verið mun skýrari á seinni stigum málsins.

„Þegar menn fóru hina leiðina og sendu menn til að hóta mér og sögðu mér að ég hlyti að gera mér grein fyrir því sem upplýstur maður að þegar svona miklir hagsmunir væru undir þá væri ekki hægt að leyfa okkur Íslendingum að búa til það fordæmi sem ég var að reyna að búa til. Öðruvísi en að mönnum yrði á einhvern hátt refsað fyrir það. Sem sagt, að ég skyldi ekki láta mér detta í hug að ég kæmist upp með þetta. Þannig að það var allt saman mjög skýrt, en þegar menn reyna að opna á að gefa einhverjum hlutdeild í einhverjum ávinningi þá ímynda ég mér nú að það sé alltaf gert á þann hátt að hægt sé að neita því síðar. Og iðulega í gegnum einhverja milliliði.“

Boðið upp á hótelherbergi í London

Sigmundur Davíð hafði í viðtalinu á Sprengisandi sagt vogunarsjóðina stóru hafa verið komna með allar helstu PR-stofur og lögfræðistofur landsins í vinnu. Blaðamaður spyr því hvort ekki hafi verið hægt að bregðast við þessum tilboðum og/eða hótunum með einhverjum hætti og rekja þær og tilkynna.

Sigmundur segir að í tilviki Íslendinga hér á Íslandi hafi það ekki verið þannig að það hafi mætt lögmaður á hans fund í formlegum erindagjörðum.

„Heldur voru heldur einhverjir „freelance“ menn sendir með skilaboð. Hins vegar gerðist það frekar í útlöndum að þar mættu einhverjir starfsmenn þessara aðila og gripu mann, líkt og ég hef nefnt sem dæmi þegar ég var í London að halda erindi á ráðstefnu þar, þá eltu þeir mig uppi á hótelinu og tóku mig tali fyrir, í kaffinu og eftir. Búnir að taka frá hótelherbergi og vildu fá mig með sér upp að ræða málin á hótelherberginu. Síðan var maður eltur á röndum meira að segja til Norður-Dakóta þegar ég fór að hitta Vestur-Íslendinga. Reyndar komu þeir ekki með en þeir voru búnir að segjast vera með aðstöðu þar til að hitta mig ef ég vildi hitta þá á afviknum stað þar sem enginn myndi nokkurn tímann vita af fundi okkar.“

Viðbrögð fældu frá

Aðspurður hvort það hafi einhvern tímann komið til greina af hans hálfu, sem forsætisráðherra, að upplýsa eða tilkynna um starfshætti þessara sjóða þá og þegar. Ljóst megi vera að þarna voru menn reiðubúnir til að fremja lögbrot með því að reyna að bera fé á forsætisráðherra, þótt það hafi verið undir rós. Kom það til greina?

„Maður ræddi þessi mál fyrst og fremst við samstarfsmennina sem voru að fást við þetta með manni en jú, ég velti hinu fyrir mér. En þegar maður sá viðbrögðin við því þegar ég fór að tjá mig um þetta, til að mynda á flokksþingi Framsóknarmanna 2015, þá voru það bara útúrsnúningar og grín gert að því. Þá hugsaði ég bara að menn skildu þetta ekki, menn væru ekkert að kveikja á því hversu umfangsmikið og stórt þetta allt saman er. Hvernig kaupin gerast á eyrinni og hvernig menn haga sér í þessum heimi.“

Sigmundur segir að það sé þó að skýrast núna. Fólk sé að átta sig á þessu. Heimildamyndir á borð við Ransacked og síðan atburðir að undanförnu, meðal annars salan á hlutnum í Arion banka geri það að verkum að menn séu meira farnir að spá í hvernig þessir aðilar starfi.

„Þannig að mér finnst nú eins og það sé að renna upp ljós fyrir mönnum, þótt Brynjar blessaður vilji hafa varann á.“

Bók í farvatninu?

Sigmundur ítrekar að ekki hafi farið á milli mála að þarna hafi verið annars vegar um að ræða tilboð sem fólu í sér mútur og hins vegar hótanir í hans garð. En hvers eðlis voru þessar hótanir? spyr blaðamaður.

„Þetta var ekki hótun um líkamlegar meiðingar en ég hef skrifað margt af þessu hjá mér, held þessu til haga og mun einhvern tímann fara yfir þessa sögu alla. Ég kom aðeins inn á þetta á miðstjórnarfundi hjá okkur á Akureyri en þar fyrir utan þá held ég þessu öllu til haga og fer einhvern tímann vel yfir þessa sögu alla.“

Ertu að boða bók?

„Við sjáum til hvaða vettvangur hentar best í það. Þetta er mögnuð saga og margt ótrúlegt sem Íslendingar eru búnir að upplifa að undanförnu en við höfum með þessu kynnst heimi sem hefur verið býsna fjarri Íslandi þar til bara fyrir nokkrum árum. Og það verður að segjast að hann er ekki mjög geðslegur að mörgu leyti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”