fbpx
Fimmtudagur 09.júlí 2020
Fréttir

Búið spil: Plain Vanilla lokar og öllum sagt upp

NBC hættir við sjónvarpsþættina – Höfnuðu 12 milljarða tilboði fyrir þremur árum

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 31. ágúst 2016 12:02

NBC hættir við sjónvarpsþættina - Höfnuðu 12 milljarða tilboði fyrir þremur árum

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Plain Vanilla, sem framleiðir spurningaleikinn QuizUp, mun loka skrifstofu sinni á Íslandi. Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC hefur hætt við að framleiða sjónvarpsþáttaröð undir merkjum QuizUp. Öllum 36 starfsmönnum fyrirtækisins hefur verið sagt upp störfum. Þetta kemur fram í langri tilkynningu frá félaginu.

Skemmst er að minnast þess að haustið 2013 höfuðnu hluthafar Plain Vanilla 100 milljóna dollara tilboði í allt hlutafé fyrirtækisins. Það eru um 12 milljarðar króna.

QuizUp mun áfram verða til en ekki liggur fyrir hver muni sjá um þróun hans eða halda utan um eignarhaldið. RÚV hefur eftir Þorsteini að þetta sé mikill skellur. Plain Vanilla verði lokað en hann segir að starfsmenn fái greiddan uppsagnarfrest að fullu. Hann muni sjálfur hætta afskiptum af QuizUp.

Starfsfólk Plain Vanilla.
Þegar allt lék í lyndi Starfsfólk Plain Vanilla.

Tilkynning Plain Vanilla í heild sinni:

Starfsfólki var sagt frá fyrirhugaðri lokun fyrirtækisins í morgun
Sköpuðu tæplega 100 tæknistörf á Íslandi þegar mest var og hafa komið með 5 milljarða inn í íslenskt hagkerfi
80 milljónir hafa hlaðið niður QuizUp og enn bætast við 20.000 nýir notendur á dag
„Settum of mörg egg í eina körfu”

Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Plain Vanilla, sem framleiðir spurningaleikinn QuizUp, mun loka skrifstofu sinni á Íslandi. Starfsfólki var sagt frá fyrirhugaðri lokun fyrirtækisins í morgun og fengu allir 36 starfsmenn uppsagnarbréf. Frá áramótum hefur mikill viðsnúningur orðið á rekstri Plain Vanilla og tekjur aukist mikið en enn var þó halli á rekstrinum því kostnaðurinn við að viðhalda samfélagi notenda innan leiksins var mikill.

Vonir stóðu til að reksturinn yrði sjálfbær þegar notendum fjölgaði samhliða áætlaðri frumsýningu sjónvarpsþáttaraðar undir merkjum QuizUp á bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC næsta vor en þegar ljóst var að ekki yrði af framleiðslu þáttarins brustu rekstrarforsendur til frekari fjármögnunar og þróunar á QuizUp hér á landi.

Plain Vanilla mun halda QuizUp gangandi áfram og leitað verður leiða til að þróun leiksins geti haldið áfram þrátt fyrir að ekki verði af sjónvarpsþættinum og þrátt fyrir lokun skrifstofunnar hér á landi.

Tilkynnt var um það síðasta haust að Plain Vanilla og NBC hefðu náð samkomulagi um framleiðslu spurningaþáttar að nafni QuizUp og átti þátturinn að hefja göngu sína á NBC þann 5. mars nk. Búið var að panta 13 þætti sem áttu að vera á dagskrá á sunnudagskvöldum kl. 19:00 vestanhafs og hafði starfsfólk frá Plain Vanilla unnið að þróun þáttarins, bæði hér heima og í stúdíói sjónvarpsrisans í Hollywood, síðustu mánuði. Að auki var búið að selja sýningarrétt þáttarins til helstu markaðssvæða eins og Bretlands, Frakklands, Chile, Argentínu og Nýja-Sjálands.

80 milljónir hafa hlaðið niður QuizUp og enn bætast 20.000 nýir notendur við leikinn á dag. Í tengslum við þróun leiksins sköpuðust tæplega 100 tæknistörf á Íslandi þegar mest var og hafa stofnendurnir komið með 5 milljarða króna frá erlendum fjárfestum inn í íslenskt hagkerfi.

Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og forstjóri Plain Vanilla:
„Við höfum alltaf lagt mikið undir og uppskorið eftir því. Í þetta skiptið þá veðjuðum við á viðamikið samstarf við sjónvarpsrisann NBC. Segja má að við höfum sett of mörg egg í þessa NBC körfu en við höfum eytt miklum tíma og orku í þróun sjónvarpsþáttarins. Þegar ég fékk skilaboðin frá NBC um að hætt yrði við framleiðslu þáttarins þá varð um leið ljóst að forsendur fyrir frekari rekstri, án umfangsmikilla breytinga, væru brostnar. Eftir stendur að síðustu ár hafa verið ótrúlegt ævintýri fyrir mig og alla þá sem komu að Plain Vanilla. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna með ótrúlega hæfileikaríku fólki á þessari vegferð. Ég er spenntur að sjá hvað starfsfólk Plain Vanilla tekur sér fyrir hendur í framtíðinni og er handviss um að fjöldi nýrra fyrirtækja verður stofnaður af þessum hóp sem hefur fengið frábæra reynslu hjá okkur undanfarin ár.”

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Ágrip af sögu QuizUp:

Plain Vanilla byrjaði með aðeins þrjá starfsmenn árið 2010 og þegar QuizUp appinu var hleypt af stokkunum í nóvember 2013 voru starfsmennirnir ekki nema 16. Fjárfestum þótti leikurinn lofa afar góðu því skömmu áður en QuizUp var gefinn út fjárfesti bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Sequoia Capital í Plain Vanilla fyrir 2 milljónir dala, eða um 240 milljónir íslenskra króna. Sequoia Capital sérhæfir sig í því að finna áhugaverð tæknifyrirtæki á frumstigi og var sjóðurinn einn af fyrstu fjárfestunum í Apple, Google, Oracle, Cisco, Dropbox, Instagram, PayPal, Yahoo, Linkedin, Youtube og Airbnb. Alls lögðu áhættufjárfestar 5,6 milljónir dala í Plain Vanilla áður en QuizUp kom út. Plain Vanilla er fyrsta íslenska fyrirtækið sem fær fjármagn úr Sílíkondalnum.

Leikurinn átti strax mikilli velgengni að fagna og nokkrum dögum eftir útgáfu hans var hann kominn í efsta sæti vinsældalista App Store. Er hann sá leikur í App Store sem hefur vaxið hvað hraðast. QuizUp var kominn með milljón notendur eftir 6 daga en mörg af vinsælustu öppum og vefsíðum dagsins í dag voru margfalt lengur að ná einni milljón notenda. Það tók t.d. Twitter tæp tvö ár, Foursquare rúmt ár, Facebook tíu mánuði, Dropbox sjö mánuði, Spotify fimm mánuði og Instagram hálfan þriðja mánuð. Í kjölfarið fékk bauðst stofnendum að selja fyrirtækið fyrir um 12 milljarða króna en þeir völdu frekar að taka inn nýtt áhættufjármagn upp á um 3 milljarða króna frá sumum stærstu tæknifyrirtækjum og tæknifjárfestum heims.

Vorið 2014 voru starfsmenn Plain Vanilla orðnir 40 og flutti fyrirtækið í stærra húsnæði við Laugaveg 77. Á sama tíma, örfáum mánuðum eftir útgáfu QuizUp, valdi vefsíðan Fast Company Plain Vanilla sem eitt af tíu fyrirtækjum sem sýndu hvað mesta nýsköpun í samfélagmiðlum. Önnur fyrirtæki á lista síðunnar voru m.a. Twitter, Whatsapp, Snapchat, Foursquare og bandaríska geimferðastofnunin (NASA). Þá var Plain Vanilla valið frumkvöðlafyrirtæki ársins á Nordic Startup Awards og hlaut Webby-verðlaun fyrir besta fjölspilunarleikinn. Fyrirtækið fór í samstarf við Coca-Cola í tengslum við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu í Brasilíu og var notendum QuizUp boðið upp á að keppa í sérstökum spurningarflokkum tengdum keppninni. Þetta var ekki eina stórfyrirtækið sem Plain Vanilla starfaði með því tæknirisinn Google styrkti einnig spurningaflokk í QuizUp þar sem notendur fengu að sjá myndir sem hægt var að finna í Google Earth forritinu og áttu þeir að giska á hvar í heiminum myndirnar voru teknar. Ári síðar hlutu QuizUp og Google Webby-verðlaunin í flokknum auglýsingar og miðlun fyrir auglýsingaherferðina. Þá fékk herferðin sérstök People’s Choice verðlaun.

QuizUp var fljótlega þýddur yfir á erlend tungumál, á borð við frönsku, þýsku og spænsku, og naut mikilla vinsælda í löndunum þar sem málinu voru töluð. Fyrri hluta árs 2015 gaf Plain Vanilla út QuizUp í Kína í samvinnu við leikjarisann Tencent, sem rekur vinsælasta samfélagsmiðilinn þar í landi, WeChat. Nokkrum klukkustundum eftir að leikurinn kom út var hann orðinn vinsælasti ókeypis leikurinn í kínversku App Store. Alls komst QuizUp í efsta sæti í App Store í 132 löndum. Það er árangur sem aðeins örfáir aðrir hafa náð.

Í maí sama ár kynnti Plain Vanilla til sögunnar nýja útgáfu af QuizUp þar sem fyrri útgáfan, sem hafði verið óbreytt frá því leikurinn kom fyrst út árið 2013, var tekin í gegn. Í nýju útgáfunni var lögð meiri áhersla á samskipti og að tengja fólk með svipuð áhugamál saman. Eins konar samfélagsmiðill í kringum áhugamál. Auk þess var QuizUp.com breytt á þann veg að notendur í borð- og fartölvum gátu loks spilað leikinn beint í gegnum vafra.

Plain Vanilla hélt áfram að þróa leikinn og færa út kvíarnar. Íslandsbanki, Google og fleiri fyrirtæki keyptu nýja vöru fyrirtækisins, appið “QuizUp at Work”, sem var tól til að fræða, þjálfa og skapa góðan starfsanda. Nokkru síðar tilkynnti Plain Vanilla um nýjan möguleika í leiknum sem kallaðist My QuizUp. Með honum gátu notendur búið til spurningar um allt á milli himins og jarðar og deilt þeim með vinum, ættingjum og öðrum leikmönnum í QuizUp. Á þessum tíma voru starfsmennirnir orðnir 86 talsins – sjötíu fleiri en þegar QuizUp var gefinn út tveimur árum áður enda QuizUp orðinn vinsælasti stafræni spurningaleikur í heimi með rúmlega 75 milljónir notenda.

Í janúar 2016 var tilkynnt um að tölvuleikjaframleiðandinn Glu Mobile Inc, sem sérhæfir sig í að framleiða leiki fyrir snjallsíma og spjaldtölvur, ætlaði að fjárfesta í Plain Vanilla fyrir 7,5 milljónir bandaríkjadala og að fyrirtækin myndu sameinast innan 15 mánaða. Í kjölfarið þurfti Plain Vanilla að ráðast í endurskipulagningu og var stöðugildum fækkað um fjórtán. Síðasta vor hugðist fyrirtækið auka umsvif sín í Los Angeles í Bandaríkjunum í tengslum við QuizUp spurningaþáttinn, sem til stóð að frumsýna vorið 2017 og í tengslum við það var starfsemin endurskipulögð á ný og stöðugildum fækkað um 27. Í ágústmánuði störfuðu tæplega 40 manns hjá Plain Vanilla og hefur QuizUp leiknum verið hlaðið niður 80 milljón sinnum. Þá bætast enn við um 20.000 notendur QuizUp á dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Katrín svarar Kára

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Bæjarstjórn Akureyrar mótmælir lokun fangelsins

Bæjarstjórn Akureyrar mótmælir lokun fangelsins
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Mörg dæmi um að Íslendingar sem fengið hafa COVID-19 myndi ekki mótefni – Geta sýkst aftur

Mörg dæmi um að Íslendingar sem fengið hafa COVID-19 myndi ekki mótefni – Geta sýkst aftur
Fréttir
Í gær

Sexmenningarnir í Hvalfjarðargangamálinu: Samtals 22 ára fangelsi – Jara í Goldfinger fékk 3 ár

Sexmenningarnir í Hvalfjarðargangamálinu: Samtals 22 ára fangelsi – Jara í Goldfinger fékk 3 ár
Fréttir
Í gær

Segir karlmenn með lítið sjálfstraust uppnefna Kára

Segir karlmenn með lítið sjálfstraust uppnefna Kára
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Trump sparkar erlendum nemendum í fjarnámi úr landi

Trump sparkar erlendum nemendum í fjarnámi úr landi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Veðurvaktin: Áfram hlýtt og stillt veður – Bongó framundan.

Veðurvaktin: Áfram hlýtt og stillt veður – Bongó framundan.