fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Ísland, Grænland, Vínland

Landnám á víkingaöld, séð með augum Jared Diamond, höfundar bókarinnar Collapse

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 10. júní 2016 10:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á síðasta ári fjallaði ég á þessum vettvangi í tveimur greinum um ráðgátur víkingatímans sem snerta landafundi og búsetu hér fyrir vestan Ísland; Vínlandsferðirnar, meðal annars út frá kenningum Páls Bergþórssonar og bókar hans Vínlandsgátan, og hins vegar leyndardóminn um endalok byggðar norrænna manna í Grænlandi, ekki síst með hliðsjón af skrifum og rannsóknum Guðmundar J. Guðmundssonar sagnfræðings. Þetta eru málefni sem halda áfram að vekja áhuga fólks og enn berast um þau nýjar fréttir, en fyrir aðeins fáeinum vikum fundu rannsóknarmenn merki sem þeir telja óyggjandi um annan bústað norrænna manna á Nýfundnalandi, og mun sunnar en svokallaðar Leifsbúðir í L‘Anse aux Meadows sem fundust fyrir rúmri hálfri öld. Hinar nýju uppgötvanir eru í góðu samræmi við frásagnir fornra íslenskra bóka og kenningar Páls Bergþórssonar, enda í rauninni fráleitt að gera ráð fyrir öðru en að slíkir landkönnuðir sem siglingakappar víkingatímans voru hafi rannsakað og ferðast um eins mikið og þeir komust yfir af austurströnd þessa nýja lands sem þeir höfðu fundið.

Collapse

Því nefni ég þetta hér á ný að ég hef verið að lesa stórmerkilega bók eftir bandarískan fræðimann og rithöfund, Jared Diamond að nafni. Hann er bæði menntaður í læknavísindum, og að auki með doktorspróf í landafræði – hann er höfundur fleiri frægra bóka og talinn einn áhrifamesti hugsuður okkar samtíma. Verkið sem hér um ræðir kom fyrst út fyrir um áratug og hefur verið metsölubók víða um heim og heitir Collapse, eða hrun, og segir frá ýmsum samfélögum manna í heimssögunni sem hafa hrunið, horfið eða lagst af; má þar nefna byggðir á ýmsum eyjum í Pólinesíu, þar á meðal Páskaeyjunni með sín risastóru steinandlit; hann skoðar líka örlög indjánasamfélaga bæði þar sem nú eru Bandaríkin og sömuleiðis milljónasamfélag Mæjana þar sem nú er Mexíkó, og hann fjallar enn fremur um norrænu byggðirnar í Grænlandi og landnámstilraunirnar í Vínlandi; um allt þetta er skrifað af leiftrandi greind, þekkingu og stílgáfu.

Frá austri til vesturs, lengra og lengra

Jared Diamond skoðar að sjálfsögðu víkingatímann í samhengi og fjallar um alla þá útrás sem talin er hefjast með árásinni á Lindisfarne 793. Hann fer meðal annars yfir landnám víkinga á norðurslóðaeyjum og eyjaklösum og samfélög þeirra þar: Orkneyjum, Hjaltlandseyjum, Færeyjum, Íslandi, Grænlandi og Vínlandi og rekur eiginlega þannig frá austri til vesturs hversu erfiðleikar samfélaganna jukust eftir því sem vestar var farið og þar með lengra frá heimalöndunum. Eins og við vitum varð ekkert úr landnámstilraunum á Vínlandi, og byggðin dó sömuleiðis út á Grænlandi eftir að hafa þrifist þar í nokkrar aldir, þannig að Ísland var vestasti og fjarlægasti staðurinn sem landnámið lánaðist, þótt því hafi fylgt miklu meiri erfiðleikar er til að myndi byggðin á Orkneyjum gekk í gegnum. Kaflinn um Ísland í bókinni Collapse er í rauninni stórmerkilegur. Þar segir meðal annars nokkurn veginn á þessa leið:
„Þegar fyrstu víkingalandnemarnir komu til Íslands voru eldfjöll þess og heitu hverirnir framandi sýn, og ólík öllu sem þeir þekktu frá Noregi og Bretlandseyjum, en að öðru leyti var landslagið kunnuglegt og uppörvandi. Næstum allar plönturnar og fuglarnir tilheyrðu þekktum evrópskum tegundum. Láglendið var að mestu þakið birki og víðiskógum sem var auðvelt að ryðja fyrir haga. Á þannig hreinsuðum svæðum, og á trjálausum láglendissvæðum eins og mýrum fundu landnámsmenn safaríkt hagagras, mosa og annan gróður sem var kjörinn fyrir þann búfénað sem þeir höfðu áður haldið í Noregi og á Bretlandseyjum. Jarðvegurinn var næringarríkur og sums staðar allt að fimmtíu feta djúpur. Þrátt fyrir jökultinda og staðsetningu rétt sunnan við heimskautsbaug olli Golfstraumurinn því að loft á láglendi var nógu milt til að rækta mætti bygg sunnan fjalla. Í vötnum, ám og sjónum í kring var krökkt af fiski og öndum og sjófugli sem aldrei hafði áður verið veiddur og var því óhræddur, og sama gilti um sel og rostunga í fjöruborðinu.“ (Collapse bls. 198)

Paradís sem blekkti augað

Með öðrum orðum: paradís. En allt þetta mikla og græna land blekkti augað. Þótt flest minnti á heimahagana þá var ýmislegt erfiðara á Íslandi, meðal annars styttri sumur og þar með ræktartími en á suðlægari slóðum. En aðalógæfan tengdist samt samsetningu jarðvegarins; hann var ekki þéttur og harðger og leirkenndur eins og landnámsmenn höfðu átt að venjast austan hafs, heldur laus í sér og léttur, aðallega vegna blöndunar við eldfjallaösku sem reglulega féll á landið. Og eins og bókarhöfundur segir: Úr því að þessi aska barst um allt land með vindum, var hún nógu létt til að geta tekist á loft að nýju. Landnámsmenn ruddu og brenndu skóga, plægðu jarðveginn og beittu á hann búfénaði, með þeim árangri að strax á fyrstu áratugum tók gróðurlendið að fjúka upp í stórum stíl, svo að frá umhverfissjónarmiði er ekkert Evrópuland jafn hart leikið af mannavöldum og Ísland; eftir fáar aldir voru þrír fjórðu af öllu gróðurlendi horfnir, og nær allir skógar sömuleiðis.

Örlög Íslendinga – fjórir afgerandi þættir

Þetta er ógæfa Íslendinga og því megum við ekki gleyma. Það er ekki hægt að áfellast fyrstu kynslóðirnar í landinu fyrir það sem gerðist því að þeim voru með öllu framandi þau öfl sem hér voru að verki; smám saman fór þjóðin að reyna að laga sig að aðstæðum og landsháttum, enda ekki annað í boði ef menn vildu á annað borð lifa af, en það var samt að mestu leyti of seint; landspjöllin hafa enn ekki verið bætt nema að litlum hluta. Og í ljósi þess þá getur oft furðað mann af hve miklu skeytingarleysi menn gjarnan fjalla um íslensk umhverfismál; stjórnmálamenn og iðnaðarforkólfar tala um það sumir að það sé ekkert mál að spæna upp eða drekkja gróðurlendi, ef hafa má upp úr þeirri iðju einhverja peninga. Og jafnvel sumir bændur vilja þráast við að reka fé í bithaga sem vitað er að þola ekki ágang, og allra síst ef á að vera von til að gróður sem eitt sinn þakti þá snúi til baka. Auðvitað ætti að setja um það ströng lög og reglur að allir bithagar sem ekki væri talið öruggt að þyldu ágang búfénaðar yrðu með öllu friðaðir fyrir slíku. Að vísu er talið að kjöt sé vænna af lambfé sem hefur nagað gróður á fjöllum en því sem lifir á graslendi í heimahögum, en þá verður bara svo að vera; landið er okkur allt of dýrmætt, og við eigum því svo mikla skuld að gjalda.

Jared Diamond telur fjóra þætti hafa ráðið mestu um viðgang nýlendna skandinavísku víkinganna: Hversu löng siglingaleiðin var frá Evrópu, andstaða og árekstrar við íbúa frá því fyrir víkingatímann, hversu vel land hentaði til landbúnaðar, og hversu viðkvæmt land var fyrir umhverfisáhrifum. Í tveimur af þessum atriðum var Ísland hagfellt: Hingað var mun styttri sigling en til Grænlands og Vínlands, og hér voru ekki innfæddir „skrælingjar“ að kljást við. En það var semsé hitt sem var lakara.

Framfarir eða hnignun

Í stórum dráttum þá voru fyrstu þúsund árin eftir landnám Íslands framfaratímabil í okkar heimshluta. Í Evrópu og seinna í Nýja heiminum voru byggðar borgir og lagðir vegir, það varð iðnbylting og gerðar voru merkar uppgötvanir á sviði alls kyns vísinda og tækni. En um þessi sömu þúsund ár má jafnframt segja að flestu hafi farið aftur á Íslandi. Ég hef stundum hugsað til þess að þegar afi minn og nafni fæddist á fátækum bæ innst í Ísafjarðardjúpi árið 1891, að þá höfðu á þeim slóðum engar framfarir orðið frá því á landnámsöld. Engar framfarir, heldur eiginlega þvert á móti: Húsin höfðu minnkað og orðið kaldari, landshagir voru mun verri og erfiðara með aðdrætti, fólkið hafði minnkað og verkfærin orðið lélegri, og veðrið snarversnað. Á þessum slóðum á æskuárum afa míns voru enn engin merki um þær framfarir sem í vændum voru, með vélvæðingu, rafvæðingu, þéttbýlismyndun, samgöngu- og fjarskiptabyltingu, svo að eitthvað sé nefnt. Þetta er rétt að hafa í huga til að minnast þess hversu miklu grettistaki síðustu kynslóðir hafa lyft, enda má lesa í bókinni sem hér hefur verið gerð að umtalsefni undrun yfir því velmegandi samfélagi sem nú er á Íslandi. Og það ætti jafnframt að minna okkur sem nú lifum á að við ættum ekki að þakka fyrir okkur með því að skemma landið meira en gert hefur verið; fyrir því höfum við enga afsökun.

Við vorum að tala um Collapse eftir Jared Diamond. Lýsingar hans á endalokum samfélaga eru ákaflega áhrifaríkar, byggðar sumpart á vísbendingum og kryddaðar miklu innsæi. Þetta er bók sem allir ættu að lesa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð
Fréttir
Í gær

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“