fbpx
Miðvikudagur 30.apríl 2025
Fókus

Ritdómur um Heimsendi eftir Guðmund Steingrímsson: Skrautleg og kreddulaus feigðarför

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 14. september 2018 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Steingrímsson: Heimsendir

168 bls.

Bjartur

Erum við öll að leita að ást og vináttu í þessu lífi eða er okkur ofar í huga að koma ár okkar vel fyrir borð – jafnvel á kostnað annarra? Er rangt að stunda kynlíf með öðrum en maka sínum? Er rangt að framleiða klámmyndir eða taka inn fíkniefni á djamminu?

Skáldsaga Guðmundar Steingrímssonar, Heimsendir, vekur upp siðferðisspurningar í huga lesenda og fær þá til að draga í efa viðteknar hugmyndir um hvað sé rétt og rangt. Það gerir hún með því að sýna hve breitt bil getur verið á milli athafna okkar og yfirlýstra skoðana. Aðalpersóna bókarinnar predikar jafnaðarmennsku á öldurhúsum en gerist í rauninni þræll kapítalismans með þeim afleiðingum að hann stendur eftir slyppur og snauður. Honum til varnar má segja að það er ekki fégræðgi sem drífur hann áfram heldur taumlaus sókn eftir frelsi og ofnæmi fyrir hversdagslegum leiðindum.

Það er óþolandi þegar gagnrýnendur segja of mikið frá efni skáldsagna sem þeir fjalla um og sérstaklega er það viðkvæmt mál þegar um er að ræða jafnstutta og snarpa skáldsögu og hér um ræðir. En ég ætla að láta þess getið að viðbrögð sögupersónu við framhjáhaldi snemma í sögunni slá tóninn fyrir það sem koma skal: Hér kynnumst við fólki sem fylgir ekki hefðbundnu siðferðismati. Kannski gerum við það ekki eins oft og teljum okkur gera.

Sagan er snjöll, ófyrirsjáanleg, fyndin og skemmtilega óforskömmuð. Um leið dregur hún upp mynd af samtíma sem er vægðarlaus og harður. Hið taumlausa frelsi fer með okkur á kalda og hrjúfa staði.

Kredduleysi höfundar er mikill kostur á þessari sögu þar sem margra hefði freistað að setjast í predikunarstólinn eða í það minnsta sletta dálítilli fordæmingu, þó ekki væri nema háði, í textann. En það er ekki gert. Þetta er bara eins og það er. Persónan valdi þessa leið, situr uppi með afleiðingarnar en lífið heldur áfram og það er hægt að byrja upp á nýtt.

Heimsendir hefur margt til að bera sem prýða má góða skáldsögu, stíllinn er lifandi og málfarið prýðilegt. En snjöll uppbygging sögunnar og mikill ófyrirsjáanleiki þar sem lesandanum er sífellt komið á óvart gera hana að miklum skemmtilestri. Siðferðisspurningarnar sem hún vekur eru síðan efni í rökræður í bókaklúbbum landsins. Þar fer bókmenntaumræða samfélagsins nú fram eftir að bókmenntunum hefur smám saman verið ýtt út á jaðarinn í fjölmiðlum.

Ég mæli sterklega með þessari hárbeittu, þaulhugsuðu og skemmtilegu sögu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Jón Gnarr birtir mynd úr bílnum sínum: „Mitt ADHD í hnotskurn“

Jón Gnarr birtir mynd úr bílnum sínum: „Mitt ADHD í hnotskurn“
Fókus
Í gær

Birgitta Líf er á Spáni: „Staðan í einu búðinni sem var opin nálægt var eins og fyrir dómsdag“

Birgitta Líf er á Spáni: „Staðan í einu búðinni sem var opin nálægt var eins og fyrir dómsdag“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Daniel náði ótrúlegum árangri og umbreytti lífi sínu – „Ég sé tvo menn. Og mig langar að kveðja annan þeirra. Fyrir fullt og allt“ – Myndir

Daniel náði ótrúlegum árangri og umbreytti lífi sínu – „Ég sé tvo menn. Og mig langar að kveðja annan þeirra. Fyrir fullt og allt“ – Myndir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gaman að geta haldið uppi stuðinu með gítarleik

Gaman að geta haldið uppi stuðinu með gítarleik
Fókus
Fyrir 4 dögum

Birgitta Líf og Enok hætt saman

Birgitta Líf og Enok hætt saman
Fókus
Fyrir 5 dögum

Birti nektarmynd eftir að rifrildi við tengdamömmuna virðist hafa blossað upp á ný

Birti nektarmynd eftir að rifrildi við tengdamömmuna virðist hafa blossað upp á ný