Einhverjar öflugustu öfgarokksveitir Reykjavíkur spila á Húrra Grapvine
Svartmálmssveitin Misþyrming og harðkjarnagruggbandið Muck munu koma fram á tónleikum á skemmtistaðnum Húrra í kvöld, föstudaginn 18. mars. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröð á vegum Húrra og götublaðsins Reykjavík Grapevine.
Muck hefur verið ein mest áberandi sveitin í íslenska þungarokksenunni undanfarin ár og hefur sérstaklega vakið athygli fyrir kröftugan tónleikaflutning á gruggugu gítardrifnu harðkjarnarokki. Sveitin gaf frá sér breiðskífuna Your Joyous Future í fyrra.
Misþyrming hefur vakið nokkra athygli fyrir utan landssteinana og var plata þeirra Söngvar elds og óreiðu meðal annars á topp 10 lista tónlistarvefritsins Noisey yfir bestu plötur síðasta árs. Sveitin var ennfremur tilnefnd til Menningarverðlauna DV 2015 fyrir plötuna.
Í tónleikarýni DV um tónleika Misþyrmingar á Iceland Airwaves í fyrra sagði meðal annars: „Andrúmsloftið var myrkt án þess þó að vera tilgerðarlegt. Með grófum hraðabreytingum breytist tónlistin úr dáleiðandi drunga yfir í alltumvefjandi nístandi blindöskubyl, en undir dynjandi nið tvöföldu bassatrommunnar og djöfullegum barkasöng og ópum söngvarans D.G. er tónlistin ómstríð, melódísk og uppfull af grípandi gítarlínum.“
Tónleikar Misþyrningar og Muck á Húrra hefjast klukkan 21.00 og kostar 2000 krónur inn.