„Þið heyrið það, þarna er manneskja sem er að deyja úr sársauka. Ég vil aldrei aldrei aldrei aftur á þessum stað. Aldrei,“ segir Silja Björk Björnsdóttir í mikilli geðshræringu í þættinum Bara geðveik sem stýrt er af Lóu Pind. Þættirnir hafa vakið mikla athygli en í þættinum að þessu sinni var fjallað um sjálfsvíg og tilraun Silju til sjálfsvígs.
Í þættinum var spiluð upptaka úr símtali Tinnu vinkonu Silju við Neyðarlínuna þegar Silja ætlaði að fremja sjálfsmorð. Einnig er rætt við fjölskyldu hennar. Silja segir sjálf á Facebook:
„Rætt er um þennan dag og sjúkdóminn sem ég þjáist af – sjúkdóminn sem sannfærði mig um að það væri lang gáfulegast að slútta þessu lífi.“
Silja hafði innbyrt töflur og áfengi og lá í fangi vinkonu sinnar.
„Ég grét þegar pabbi sagði mér hvernig honum hefði liðið þennan dag, grét þegar Heiða sagði frá því hvernig það er að koma að systur sinni á gjörgæslu og ég grét þegar mamma rifjaði það upp þegar ég sagði henni að mig langaði að deyja. Þetta eru tár hreinsunar.“
Hún kveðst nú þakklát Lóu fyrir að gefa sér rödd og fyrir að vera á lífi.
„Ég gæti ekki verið þakklátari fyrir fjölskylduna mína og vini, fólkið sem gafst aldrei upp á mér annað en heilbrigðis- og skólakerfið, fólkið sem stóð við bakið á mér og stendur þar enn […] Sjálfsvíg eru aldrei framin af sjálfselsku eða hroka, þau eru ekki veikleikamerki eða aumingjaskapur. Þau eru versta mögulega útkoman á sjúkdómnum þunglyndi.“
Í þættinum þakkar Silja vinkonu sinni fyrir að vera lífi. Hér fyrir neðan má sjá viðbrögð Silju þegar hún hlustar á vinkonu sína, Tinnu Haraldsdóttur ræða við Neyðarlínuna. Silja er vel gefin og félagslynd en um tvítugt missti hún lífsviljann en hefur síðan þá verið ófeimin við að ræða það sem gerðist þennan dag til að hjálpa öðrum.
Þá segir Silja:
„Ég hef aldrei verið feimin að ræða þennan dag, 18.júní 2013. Þegar ég kom út af geðdeildinni vissi ég að mér voru tveir vegir færir. Annaðhvort að láta þennan sjúkdóm eiga mig, skilgreina mig og verða sjúklingur allt mitt líf eða að hætta að vorkenna sjálfri mér og nota þessa lífsreynslu sjálfri mér og öðrum til góðs. Hjálpa fólki að skilja hversu sjúk og ósjálfselsk hugsun það er að vilja binda endi á eigið líf.“
Þá segir Lóa Pind:
„Ef ég væri foreldri sem kíkti reglulega inn í herbergi unglingsins á heimilinu með öndina í hálsinum, krosslegði fingur og vonaði að depurðin væri ekki orðin að fullvaxta þunglyndi með sjálfsvígshugsunum, þá myndi ég horfa á þáttinn.“
Þátturinn var sýndur í gær en hér fyrir neðan má sjá brot úr honum. Hér má sjá annað brot úr þættinum.