Vinnuskylda flugliða helmingi minni en lögreglumanna
Birgir Örn Guðjónsson, lögreglumaður og samfélagsrýnir, hefur nýlokið námskeiði Icelandair fyrir flugliða og mun starfa sem flugliði fyrir flugfélagið í sumar. Þetta kemur fram á Bleikt.is.
Ástæðan fyrir því að Birgir eða Biggi lögga, líkt og hann er yfirleitt kallaður, ætlar að færa sig um set er vinnuálag og léleg laun hjá lögreglunni. Þá er vinnuskylda flugliða helmingi minni en lögreglumanna.
„Lögreglustarfið er því miður þannig að maður er alltaf með augun opin fyrir nýjum tækifærum,“ segir Biggi í samtali við Bleikt en telur þó að hann eigi eftir að verða ljómandi flugliði.
„Kjörin í löggunni hafa líka orðið til þess að ég hef nánast ekkert náð að ferðast síðan ég byrjaði þar. Ég hef ekki farið með frúnni til útlanda síðan 2005. Það er frekar leiðinlegt, sérstaklega þegar maður elskar að ferðast. En svona er þetta. Nú fæ ég allavega að ferðast eitthvað sjálfur og vonandi líka með fjölskyldunni í náinni framtíð.“
Eins og staðan er í dag ætlar Biggi að taka sér launalaust leyfi úr löggunni í sumar til að fljúga. Hann kveðst þó vera opinn fyrir öllu.
„Þó svo að ég elski löggustarfið þá er ekki hægt að bjóða fólki hvað sem er. Ef ég fíla flugið í botn og Icelandair vill mig áfram þá er aldrei að vita.“