Voru á leið í óvænta heimsókn til Siglufjarðar
„Þetta fór aðeins öðruvísi en við ætluðum okkur.“ Þetta sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem ásamt eiginkonu sinni ætlaði að koma fjölskyldumeðlimum, sem eru búsettir á Siglufirði, á óvart með því að mæta óvænt í heimsókn á jóladag.
Þegar hjónin voru að keyra Siglufjarðarveginn missti Jón stjórn á bifreiðinni í einni beygjunni með þeim afleiðingum að hann valt. Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun en óvænta heimsóknin varð enn óvæntari fyrir vikið þegar börnin þeirra fengu símtal þess efnis að sækja þau á slysstað.
Í viðtalinu segir Jón að færðin hafi verið ágæt á veginum og jeppinn vel útbúinn og á splunkunýjum vetrardekkjum. Slysin geri hinsvegar aldrei boð á undan sér.
„Ég tel mig vanann ökumann og vorum sannarlega ekki í neinum hraðaakstri. Vegurinn er hinsvegar varasamur líkt og þetta slys sannar enn og aftur. Við kennum okkur þó einskis mein og erum mjög þakklát fyrir það.“