Voru á leiðinni í sund þegar þau festu bílinn og læstu sig úti á peysunum og strigaskóm
„Við sátum og vorum að spjalla saman þegar tvær stúlkur, ansi léttklæddar miðað við árstíma, bönkuðu upp á.“ Þetta segir Sigurður Svavarsson, bókaútgefandi, sem lenti heldur betur í óvæntri uppákomu þar sem hann var staddur í sumarbústað nærri Flúðum ásamt fjölskyldunni sinni á jóladag.
Fyrir utan bústaðinn stóðu tvær ungar konur frá Singapore, á peysunum og í strigaskóm, og óskuðu eftir aðstoð. Konurnar höfðu ætlað í sund á Flúðum en villtust upp í sumarhúsalandið þar sem þær festu bílinn í snjóskafli.
Þegar þær ásamt tveimur öðrum farþegum í bílnum voru komin út að reyna að losa bílinn úr skaflinum tókst þeim að læsa sig úti. Léttklædd og símalaus.
Á meðan konurnar leituðu í örvæntingu eftir aðstoð í nærliggjandi sumarhúsum spólaði bíllinn, mannlaus og með jólatónlist í botni.
Í samtali við RÚV segir Sigurður fólkið hafa verið í brúðkaupi í Grímsnesi og ætlað í gömlu laugina á Flúðum en GPS-tækið hafi vísað þeim upp í sumarbústaðabyggðina.
Að sjálfsögðu komu Sigurður og fjölskylda ferðamönnunum til bjargar. Sonur Sigurðar skutlaði fólkinu í sundlaugina á Flúðum, þar sem þau hittu vini og vandamenn, á meðan Sigurður kallað eftir aðstoð.
Í samtali við DV segir Sigurður að fólkið hafi verið mjög þakklátt fyrir aðstoðina og allir geti lent í óheppilegum aðstæðum sem þessum.
„Ég sjálfur hef læst mig úti þar sem ég var í heitum potti í sumarbústað,“ segir hann sposkur og bætir við að fólkið muni hafa skemmtilega sögu að segja eftir að ferðalaginu líkur.