Kristján rokkstjóri reynir að lokka rapparann til Íslands með loforði um plokkfisk
Tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður barst á dögunum tilboð um að bóka hinn heimsfræga rappara Busta Rhymes á hátíðina sem fram fer á Ísafirði næstu páska. Rokkstjórinn Kristján Freyr Halldórsson, sem stýrir Aldrei, er bjartsýnn á að honum takist að næla í rapparann þekkta með tilboði um plokkfisk og bjórmiða en viðurkennir þó að líklega fái Busta oftast meira greitt en vaninn er að greiða listamönnum sem troða upp á hátíðinni.
„Okkur barst á dögunum póstur á póstfang Aldrei fór ég suður hátíðarinnar, aldrei.is. Þetta er nú kannski póstur sem fer víða en það barst sem sagt póstur frá frá bókunarstofu Busta Rhymes þar sem fram kom að dagskrá Busta væri opin og hægt væri að bóka hann á tónleika í Evrópu. Mér þótti þetta ansi fyndið en ég get reyndar ímyndað mér að það hafi margar fleiri tónlistarhátíðir fengið sama póst. Hann var sem sagt ekki beinlínis stílaður á okkur, hann hófst ekki á orðunum: Hei Aldrei, Busta er tilbúinn að spila,“ segir Kristján í samtali við DV.
Kristján segist að sjálfsögðu ætla að senda svarpóst. „Ég er að hugsa um að senda mynd af plokkfiski og svona og athuga hvort hann er ekki í stuði.“
Kristján segir að fyrir nokkrum árum hafi Aldrei fór ég suður byrjað að greiða tónlistarmönnunm sem fram koma þar fyrir spilamennskuna en í upphafi var lítil greiðsla önnur en bjór, plokkfiskur og gisting í boði. „Það eru ekki stórkostlegar upphæðir og ég held að Busta Rhymes fái kannski almennt fleiri bjórmiða en við getum boðið upp á. Engu að síður myndum við fagna því að fá hann til að troða upp. Við höfum þá sérstöðu, Aldrei fór ég suður, að við getum leyft okkur mikla fjölbreytni í tónlistaratriðum. Ég held að það sé engin önnur hátíð sem hefur boðið upp á Strigaskó nr. 42, Glowie og Ladda sama kvöldið. Busta Rhymes passar því alveg inn í okkar plön. Ég ætla því að spila öllum trompunum út í svarpóstinum, ég mun tala um Tjöruhúsið, ég mun tala um hafið og fjöllin og ábyggilega mun ég nefna Gamla bakaríið. Ég get því alveg vel trúað því að þetta verði,“ segir Kristján hlæjandi.