„Allt í einu var öllu sem ég hafði byggt líf mitt á kippt undan mér. Svo lengi hafði mér verið sagt hvernig ég ætti að lifa, hvað ég mætti og hvað ekki, hvað ég ætti að gera og hvað ekki og mér fannst ég í frjálsu falli,“ segir fjölmiðlakonan Sigríður Lund Hermannsdóttir, betur þekkt sem Sigga Lund. Hún flækist á sínum inn í sértrúarsöfnuðinn Frelsið sem átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir hana en hún var meðlimur safnaðarins frá upphafi og allt til loka en Sigga er í einlægu viðtali við Akureyri Vikublað sem kemur út í dag.
Sigga steig fram í helgarviðtali við DV árið 2012 og tjáði sig um reynslu sína af söfnuðinum. Frelsið, kristileg miðstöð, var starfrækt á árunum 1995 til 2001 og voru hjónin Hilmar Kristinsson og Linda Björk Magnúsdóttir í forsvari fyrir söfnuðinn en endalok safnaðarins má rekja til bresta í hjónabandi þeirra. Safnaðarmeðlimir Frelsisins voru á bilinu 100 til 150 þegar mest lét og snerist starfið snerist fyrst og fremst um að boða fagnaðarerindið á nýstárlegan hátt og var sjónum sérstaklega beint að ungu fólki.
„Þegar maður horfir til baka þá er alveg ljóst að þarna átti sér stað andlegt ofbeldi. Safnaðarmeðlimir voru heilaþvegnir af leiðtogunum. Stjórnunin var mikil að mínu mati og hófst heilaþvotturinn strax í fyrstu skrefunum. Þegar ég skoða gamlar glósubækur þá er lögð á það rík áhersla frá upphafi að maður eigi að þjóna leiðtogunum eins og Guði. Maður óttaðist þau, leit upp til þeirra í senn og hlýddi þeim í einu og öllu,“
sagði Sigga einnig í samtali við DV í september síðastliðnum en þá var greint frá því að Linda Björk hefði aftur hafist handa við að sinna kristilegu útbreiðslustarfi. Voru margir fyrrverandi meðlimir Frelsisins uggandi yfir því, enda fjölmargir einstaklingar sem sátu eftir með sárt ennið eftir að Frelsið leið undir lok.
Í samtali við Akureyri Vikublað segist Sigga ekki bera kala til forstöðumanna safnaðarins en hún hyggst á næsta ári gefa út bók þar sem hún gerir upp tíma sinn í Frelsinu.
„Ég hef fyrirgefið þeim og el ekki á biturleika í garð þeirra eða þess sem gerðist. Það væri auðvelt að festast í eftirsjá eftir þessum árum en ég vel að gera það ekki. Ástæðan fyrir bókinni er að mig langar að loka þessum kafla því þótt það séu 15 ár síðan söfnuðurinn splundraðist loðir þetta einhvern veginn alltaf við mann.“
Þá lýsir Sigga því þannig að það hafi verið gífurleg viðbrigði þegar hún sagði skilið við söfnuðinn og að það hafi ekki gengið átakalaust að losa við þau áhrif sem söfnuðurinn hafði á líf hennar.
„Allt í einu var öllu sem ég hafði byggt líf mitt á kippt undan mér. Svo lengi hafði mér verið sagt hvernig ég ætti að lifa, hvað ég mætti og hvað ekki, hvað ég ætti að gera og hvað ekki og mér fannst ég í frjálsu falli.
Mér fannst erfitt að þurfa allt í einu að taka ákvarðanir sjálf, hvort ég ætlaði til hægri eða vinstri. Það var átak að læra að treysta sjálfri mér og mér finnst það á köflum erfitt ennþá.“