Símon Birgisson vill fá 60 þúsund krónur fyrir safngrip á bland.is
„Ég ákvað að selja plakatið þar sem ég er nýbakaður faðir tvíbura og þurfti því að taka til í geymslunni hjá mér,“ segir Símon Birgisson, dramatúrg í Þjóðleikhúsinu, aðspurður af hverju hann hafi auglýst Star Wars-kvikmyndaplakat sitt frá árinu 1977 til sölu á bland.is. Þar er plakatið falt fyrir 60 þúsund krónur og bendir Símon á að um upprunalegt eintak sé að ræða.
„Ég er búinn að eiga þetta plakat í um áratug og tók nýverið eftir því að það hefur hækkað mikið í verði vegna nýju Star Wars-myndanna,“ segir Símon í samtali við DV og bendir á að kvikmyndin Rogue One: A Star Wars Story verði frumsýnd á næstu dögum.
Plakatið var samkvæmt auglýsingu Símonar keypt af viðurkenndum söluaðila í Bretlandi. Búið er að setja það á striga sem auðveldar innrömmum. Um er að ræða plakat vegna fyrstu Star Wars-myndarinnar eða eins og hún var síðar nefnd: Star Wars: Episode IV- A New Hope. Í henni fóru þau Mark Hamill, Carrie Fisher og Harrison Ford með aðalhlutverkin. Þegar þessi frétt er skrifuð hafa tæplega 1.100 manns skoðað auglýsinguna.
„Verðmætur safngripur sem hækkar bara í verði. Tilvalin jólagjöf fyrir Star Wars aðdáendur,“ segir í auglýsingunni og bent á að sambærileg plaköt kosti á bilinu 700 til 1.500 dali á eBay eða allt að 170 þúsund krónum.