Metnaðarfullir, en ekki skörpustu hnífarnir í skúffunni
Það er ekki á hverjum degi sem fíkniefnasalar eru nógu heimskir til að hjálpa lögreglunni að hafa samband við sig af sjálfsdáðum, en það gerist nú endrum og eins og er alltaf jafnfyndið fyrir okkur hin.
Í einni af lokuðu fíkniefnasölusíðunum sem starfræktar eru á facebook má sjá eftirfarandi auglýsingu sem einhverjir metnaðarfullir dópsalar hafa sjoppað til að auka söluna. Einhver snillingurinn tók skjáskot af auglýsingunni og birti á samskiptamiðlinum Twitter þar sem blaðamaður rakst á hana.
Í auglýsingunni segir: „Hjá okkur færðu alltaf gæða vörur fyrir partý helgina…“ og er ekki erfitt að giska á hvað punktur punktur punktur þýðir í þessu samhengi. Svo heldur auglýsingin áfram og tekið er fram að þessa helgina sé til á lager: gulur og bleikur femmi og Pink Floyd kúlur. Bleiki femminn er femmi með persónuleika og hinn er dæmigerður með engan persónuleika. Táknmálið er ekki flókið á þessu plaggati og auðséð um hvað ræðir. Hér er verið að selja ýmisleg afbrigði af amfetamíni (femma) og e-töflur (kúlur) á rýmingarútsölu.
Salarnir segjast alltaf vera á ferðinni og birta símanúmer, sem blaðamaður hefur þó tekið af myndinni fyrir velsæmissakir, þar sem hægt er að ná í þá „til að byrja kvöldið“. Nú er spurning hvort þessi metnaður borgi sig fyrir dópsalana eða hvort þeir verði hirtir við fyrsta tækifæri af lögreglunni. Ætli þessi bleiki femmi hafi veitt sölunum of mikinn persónuleika?