Jón „bóndi“ ræðir æskuárin í sveitinni, skilnað og ófrjósemi
„Þetta tekur sinn toll en ég er alheill og það þykir gott að vera enn að lyfta svona miklu orðinn 57 ára,“ segir kraftlyftingamaðurinn og einkaþjálfarinn Jón „bóndi“ Gunnarsson í viðtali við Akureyri vikublað. Jón er nýkominn heim frá Las Vegas þar sem hann vann til margra verðlauna. Hann setti fimm heimsmet í aldursflokknum 55-59 ára.
„Þegar maður er orðinn svona gamall nennir maður varla að segja frá þessu. Ég keppti lengi við þá bestu, menn á aldrinum 20–40 ára, en þegar ég varð fimmtugur færði ég mig yfir í minn flokk. Maður er aðeins farinn að dala.“
Hann leggur þó mikið upp úr því að halda sér í formi. „Ég er sterkastur í gymminu og þannig vil ég hafa það.“
Í viðtalinu ræðir Jón kraftlyftingar, æskuárin í einangraðri sveit, ófrjósemi og skilnað, svo eitthvað sé nefnt. Fram kemur að Jón eigi 22 ára son af fyrra hjónabandi. Hann vildi eignast fleiri börn en að örlögin hafi ætlað honum annað. „Strákurinn er glasabarn en það tók okkur tíu ár að fá hann í hendurnar. Eftir að hann fæddist vildi mamma hans reyna aftur en ég var ekki til í það strax. Mér fannst hann svo fullkominn og vildi ekki taka sénsinn,“ segir hann við Akureyri vikublað.
Hann er ekki feiminn við að ræða þessa hluti. „Ég skammast mín ekkert fyrir þetta og segi öllum sem vilja heyra að við höfum farið í glasaaðgerð. Á þessum tíma var þetta ekki hægt hér heima svo við fórum til Englands. Eftir nokkrar meðferðir höfðum við misst alla von um að þetta myndi ganga og ætluðum að reyna ættleiðingu en þá kom hann undir. Það hefði verið best að fá tvö þrjú þarna strax en ég er alsæll.“