„Trump er gölluð vara“
„Ég er í áfalli og óttast það sem við erum búin að kjósa yfir okkur.“ Þetta segir Bandaríkjamaðurinn Stephen Patrick Bustos sem hefur verið búsettur á Íslandi af og til síðastliðin 17 ár. Eftir að niðurstöður forsetakosninganna lágu fyrir í nótt, það að Donald Trump verður næsti forseti Bandaríkjanna, ákvað Stephen að afsala sér bandarískum ríkisborgarrétti sínum. Það fyrsta sem Stephen ætlaði að gera í morgun var að gera sér ferð í bandaríska sendiráðið til að skila vegabréfinu sínu.
Það reyndist þó ekki svo einfalt en ferlið, að afsala sér ríkisborgararétt, mun taka aðeins lengri tíma og meiri skriffinsku en hann áætlaði. Stephen, sem er einnig með íslenskan ríkisborgararétt, er þó byrjaður í ferlinu. „Ég er búinn að senda bréf svo þetta er allt í vinnslu.“
Líkt og svo margir var Stephen, sem er fæddur og uppalinn í Colorado, vakandi fram undir morgun til að fylgjast með kosningatölum. Þegar hann settist fyrir framan sjónvarpið í gærkvöldi óraði hann þó ekki fyrir því að Trump gæti staðið uppi sem sigurvegari. Hann sjálfur kaus Hillary Clinton og bjóst fastlega við því að hún yrði næsti forseti Bandaríkjanna.
„Clinton gerði fullt af mistökum og er alls ekki fullkomin en Trump er gölluð vara. Og alveg fáránlegt að hann sé kominn í þessa stöðu.“
Þá telur Stephen, sem er endurskoðandi og með MBA gráðu í rekstrarhagfræði, ástæðuna að baki því að Trump náði kjöri fáfræðslu og lágt menntunarstig þjóðarinnar. Úrslitin séu gott dæmi um hversu miklu máli menntun skiptir. Hann bendir á að í þeim ríkjum Bandaríkjanna þar sem menntunarstig er hátt vann Clinton.
Stephen telur einnig að lítil kosningaþátttaka almennings hafi haft sitt að segja um niðurstöðuna. „Því miður er fólk ekki nógu duglegt að mæta á kjörstað. Mig langar ekki að segja að helmingur bandaríkjamanna séu vitlausir en að sama skapi eru 50 prósent þeirra sem kusu í forsetakosningunum í gær fávitar.“
Þá kveðst Stephen vera svo mikið niðri fyrir að hann ákvað að vinna heima í dag. „Ég er áhyggjufullur um framhaldið. Púlsinn er á fullu og ég á í erfiðleikum með að einbeita mér. Þetta er eins og vondur draumur. Ég trúi ekki að þetta hafi gerst.“
Líkt og áður segir er Stephen fæddur og uppalinn í Colorado. Hann segir það að gefa upp ríkisborgararétt sinn stóra og mikla ákvörðun en að sama skapi geti hann ekki tekið þátt í samfélagi sem kaus Trump sem næsta forseta Bandaríkjanna.
„Hann er jafn slæmur og Hitler. Þess vegna vil ég ekki taka þátt og vera tengdur þessu landi lengur.“