Sækir innblástur til Houston og sest að skrifum – Verður í nokkra mánuði
Jón Gnarr, leikari, rithöfundur og fyrrverandi borgarstjóri, hyggst flytja á nýjan leik út til Houston í Texas í Bandaríkjunum á nýju ári. Þetta staðfestir hann í samtali við DV og segir að til standi að setjast að skriftum.
„Já, ég er að fara út í nokkra mánuði að vinna. Ég er að skrifa og vinna nokkur verkefni í Houston,“ segir Jón sem þekkir vel til þar úti enda dvaldi hann þar um nokkurra mánaða skeið í fyrra. Jón segir að dvöl hans og vinna þar nú verði áframhald á þeirri vinnu sem hann var að sinna þá.
Jóni líkaði dvölin í Houston vel og gekk meira að segja svo langt að fá sér húðflúr af Texasríki, næststærsta ríki Bandaríkjanna, á upphandlegg sinn áí fyrra. Jón sagði þá að Texas hefði gefið honum nafn sitt, með vísan í að eftir margra ára baráttu fyrir því að fá Gnarr nafnið löglega skráð hérlendis reyndist það minna mál vestanhafs. Jón segir að honum líði vel á þessum slóðum.
„Það er mjög gott að vera í Texas og það fyllir mann innblæstri finnst mér. Það er mjög gott.“
Aðspurður hvort hann fari einn eða með fjölskylduna segir Jón:
„Flest börnin mín eru nú orðin fullorðin og komin á aldur við mig. En yngsta barnið kemur með okkur.“ Hann segir mjög spennandi tíma framundan en aðspurður kveðst hann að svo stöddu ekki geta gefið upp að hverju hann sé að vinna.