„Fyrir ári stóð ég fyrir framan hrúgu af pillum og ætlaði að enda þetta. Fyrirætlun sem var ekki ný af nálinni. Ég skrifaði bréf til mömmu og var sátt við ákvörðun mína.“ Á þessum orðum hefst einlægur pistill, sem birtist fyrst á Austurglugganum, eftir Emmu Björk Hjálmarsdóttur en hugarástand hennar stjórnaðist algjörlega af áfallastreituröskun í kjölfar nauðgunar.
„Ég hafði tekið þann pól í hæðinni að harka af mér og fá ekki hjálp, mér fannst þetta nefnilega „ekki nógu mikil nauðgun” og að þetta hefði verið mér að kenna.“
Emma, sem er búsett á Austurlandi, hefur árum saman verið þjökuð af þunglyndi og kvíða.
Emmu fannst hún sömuleiðis hafa stjórn andlegri líðan sinni. Fannst hún ekki þurfa neina hjálp.
„Ég vildi ekki byrja aftur á lyfjum, þau gerðu mig svo sljóa og að annarri manneskju. Svona er ég bara — sagði ég sjálfri mér.“
Það sem Emma er hinsvegar búin að komast að í dag er að maður harkar ekki af sér andleg veikindi.
„Það er einfaldlega ekki hægt að bíta á jaxlinn og reyna að þrauka. Þú myndir ekki gera það ef um væri að ræða annan sjúkdóm. Þú harkar ekki af þér krabbamein og það sama á við um sálarmein.“
Þá minnir Emma á, í pistlinum, að maður veit aldrei nákvæmelga hvernig næstu manneskju líður. „Gríman sem ég hafði sett upp varð allt í einu of þung til að burðast með og ég gat ekki meira. Því er mikilvægt að létta af sér og fá hjálp.“
Emma fékk viðeigandi aðstoð hjá Kvíðameðferðarstöðinni, á höfuðborgarsvæðinu. Þar gat hún valið úr sálfræðingum og fór til nokkurra áður en hún fann þann sem hentaði henni best.
„Við búum ekki við þann lúxus fyrir austan og ef einstaklingur með vanda kýs að fara suður bætist við mikill auka kostnaður,“ segir Emma og bætir við:
„Þetta veldur því að fólki af landsbyggðinni er hætt við að fresta því og leitar sér jafnvel aldrei hjálpar. Dæmi eru um að fólk beri oft harm sinn í hljóði í mörg ár án þess að leita sér viðeigandi aðstoð.“
Hún segir staðreyndina þá að sálfræðiþjónustu er ábótavant á landsbyggðinni. Þeir sem búa á landsbyggðinni þurfa þó jafn mikið á henni að halda og þeir sem búa í höfuðborginni.
„Það gefur auga leið að það gerir engum gott að bera harm sinn í hljóði og geðheilbrigðisþjónusta á ekki að vera lúxus sem einungis sumir leyfa sér eða þjónusta sem fer eftir fjárhag hvers og eins, nú eða búsetu. Það þarf að anna eftirspurn og veita sómasamlega þjónustu, því það eru líf að veði.“