„Viðvörun: umfjöllun um ofbeldi,“ segir á Facebook-síðu Stígamóta
„Ég var 11 ára gamall og það var póstburðarmaður í Kópavoginum sem ginnti mig inn til sín. Við krakkarnir hjálpuðum honum að bera út póstinn. Eitt skiptið var ég einn og hann var ekki með lakkrís á sér og hann bauð mér að koma heim til sín. Og þar sem að þetta gerist. Og hef ég í raun og veru aldrei borið þess bætur síðan,“ segir Karl Ómar Guðbjörnsson í myndskeiði sem Stígamót birta á Facebook-síðu sinni. Er það hluti af herferðinni, „Styttum svartnættið“. Með því eru þolendur kynferðisbrota hvattir til að leita sér aðstoðar sem fyrst.
„Hann hótaði mér að ef ég einhver tímann segði frá þessu þá myndi hann drekkja mér,“ segir Karl Ómar og bætir við að nokkrum mánuðum eftir misnotkunina hafi unglingspiltur fundist látinn í sundlaug Kópavogs. Segir Karl Ómar að póstburðarmaðurinn hafi verið bendlaður við andlátið.
„Eftir þetta var ég alltaf smeykur um að svona myndi fara fyrir mér. Ég bara lokaðist og mikið óöryggi sem greip um sig,“ segir Karl Ómar sem í kjölfarið varð utanveltu og átti erfitt með að kynnast skólafélögum sínum.
„Það eru alveg 40 ár sem líða þarna,“ segir Karl Ómar sem leitaði þá til Stígamóta. Við það breyttist líf hans mikið. Honum fór að líða betur. Árlega leita 330 nýir einstaklingar til Stígamóta. „Svo varð öruggari með sjálfan mig að létta á þessari skömm. Ég var fyrir kynferðisofbeldi og leitaði til Stígamóta 40 árum seinna. Mín tala er 40.“