„Fólk ætti að taka svona ákvörðun út frá hjartanu,“ segir Óðinn Svan Óðinsson blaðamaður í samtali við DV.is. Óðinn og kona hans, Heiðdís Rósa Sigurjónsdóttir gengu í gegnum mikla rússíbanareið tilfinninga þegar þau þurftu að taka ákvörðun um hvort þau ættu að láta framkvæma fóstureyðingu eftir að í ljós kom að ófætt barn þeirra væri að öllum líkindum með alvarlegan litningagalla. Til þess fengu þau aðeins fjóra daga. Þau ákváðu að fylgja innsæinu þrátt fyrir þrýsting frá heilbrigðisstarfsfólki og segir Óðinn þá ákvörðun vera eina af þeim bestu sem þau hjónin hafi tekið.
„Mig hefur lengi langað að koma þessu frá mér og svo opnaði ég minn eigin fjölmiðil núna í haust og þótti tilvalið nota hann,“ segir Óðinn í samtali við blaðamann en hann ritaði einlægan pistil á Kaffid.is á dögunum þar sem hann lýsti upplifun af erfiðu ferli- frá sjónarhóli verðandi föðurs.
Aðspurður kveðst hann óneitanlega leiða hugann að því hvernig lífið hefði orðið ef að þau hjónin hefðu farið eftir ráðlegginum lækna sem töldu ráðlegast að eyða fóstrinu vegna möguleika á fötlun.
„Vissulega pælir maður stundum í því og fólkið i kringum mann hefur nefnt það,“ segir hann og bætir við að á engan hátt sé hann á móti fóstureyðingum, enda hvert og eitt tilfelli einstakt. „Þetta var svona í okkar tilfelli en ég veit svosem ekkert hvort að þetta sé endilega tilfellið.“
Það var í byrjun árs 2013 sem að Óðinn og kona hans komust að því að von væri á barni, en á 22. viku meðgöngunnar kom í ljós við ómskoðun að hugsanlega væri ekki allt með felldu; barnið væri mögulega með líffæragalla, nánar tiltekið nýrnagalla og einnig með stutta útlimi. Við tóku frekari rannsóknir á Landsspítalanum og segir Óðinn lækna og hjúkrunarfólk hafa tekið langan tíma í að reikna út meðgöngulengd.
„Við vorum orðin þreytt á því að bíða og það skipti okkur ekki höfuð máli hver væntanlegur fæðingardagur yrði. Það breyttist fljótt þegar að við heyrðum samtal milli lækna og hjúkrunarfræðinga þar sem að þau töluðu um að við værum í kappi við tímann. Þau töldu að konan mín væri líklegast komin um 21 – 22 vikur og það er bannað að binda endi á meðgöngu vegna fósturgalla eftir viku 22. Þetta samtal þeirra var eins og hnefahögg í andlitið. Það var enginn sem að hafði sagt okkur hvað væri virkilega í gangi né hversu alvarlegt það gæti verið.“
Hinum verðandi foreldrum var tjáð að í langflestum tilvikum þegar um væri að ræða líffæragalla og stutta útlimi þá væri um alvarlegan litningargalla að ræða. Voru þau send heim með þær upplýsingar að bráðabirgðaniðurstöður úr legvatnsástungu myndu liggja fyrir nokkrum dögum síðar.
„Við höfðum 4 daga til þess að ákveða hvort við vildum binda enda á lífið sem var inni í maganum á konunni minni“
Óðinn segir heilbrigðisstarfsfólk hafa nefnt dæmi um það gæti beðið foreldranna ef þau tækju þá ákvörðun að eiga barnið, svosem tíðar sjúkrahúsheimsóknir og mikið álag. „Frá því fólki sem við töluðum við kom það allavegana skýrt fram í hvora áttina það var verið að ýta okkur,“ ritar hann.
Í ljós kom að barnið var ekki með litningagalla en mögulega fatlað. Segir Óðinn ákvörðun þeirra hjóna að halda meðgöngunni áfram meðal annars vera byggða á því að engar niðurstöður sýndu skýrt fram að barnið yrði fatlað, heldur voru einungis getgátur á ferð. Þau ákváðu því að fylgja innsæinu. Í dag er dóttir þeirra, Karítas Alda þriggja ára. Þó svo hún glími við viss veikindi, nýrnagalla, eru hún fullkomin að sögn Óðins en pistil hans má lesa í heild sinni hér.