Sara Heimisdóttir varð þekkt hér á landi þegar greint var frá sambandi hennar og vaxtarræktarkappans Rich Piana. Þau giftu sig í september árið 2015 í Bandaríkjunum. Rich Piana er vel þekktur innan vaxtarræktarheimsins og hefur talað á opinskáan hátt um steraneyslu sína sem hefur varað í 25 ár.
Innan vaxtarræktargeirans höfðu margir áhyggjur og tóku nokkrir einstaklingar sig saman og birtu myndskeið á Youtube þar sem þeir báðu Piana að hætta að mæla sterum bót. Nú hefur Sara játað að hafa tekið stera til að ná betri árangri, en hún hefur látið að sér kveða í fitness.
Sara var rúmlega tvítug þegar hún flutti til móður sinnar í Bandaríkjunum. Þar lagði hún stund á sálfræði og lögfræði. Eftir að hún kynntist vaxtarræktartröllinu ákvað hún að taka pásu frá námi. DV greindi frá lúxuslífi þeirra hjóna en Sara og Rich bjuggu í tæplega fimm hundruð fermetra glæsivillu í Los Angeles. Þá gaf Piana Söru bleikan Benz í afmælisgjöf.
Stefndu þau á að stofna fjölskyldu og allt virtist leika í lyndi. Í júlí ákvað parið að skilja og í færslu sem Rich birti á Instagram sagði hann að sambandið hefði verið ævintýri líkast og tók fram að þau væru góðir vinir.
Sara er á Facebook enn skráð í sambandi með Rich Piana og notar nafn hans. Hún hefur alla tíð verið virk í íþróttum, spilað knattspyrnu og lagt stund á fitness. Á Snapchat ákvað Sara að svara spurningum aðdáenda sinna. Þar var hún spurð hvort hún hefði einhver tímann á ævi sinni neytt fíkniefna og þá hvort hún hefði notað stera til að ná betri árangri á fitnessmótum.
„Í fullri hreinskilni, þá hef ég ekkert að fela. Líkt og flestir sem keppa í faginu í dag, þá tók ég stera í töfluformi. Ég tók Anavar, Primo tabs og Minitaps,“ svaraði Sara.
Sterar eru teknir inn annaðhvort í töflu eða vökvaformi. Aukaverkanir geta verið miklar og lýsa sér meðal annars í dýpkun raddar, auknum hárvexti í andliti og neyslan einnig sögð geta valdið árásarhneigð.
„Ég gekk alltaf úr skugga um að ég væri að taka litla skammta svo ég myndi ekki finna fyrir neinum aukaverkunum. Guði sé lof fyrir það, því þetta getur farið illa með þig.“