fbpx
Laugardagur 11.júlí 2020
Fókus

„Get ekki hugsað mér að vera svona gaur sem hangir í pólitík af gömlum vana“

Óttarr Proppé í viðtali um pönk, pólitík, bindindi, reykleysi og barnleysi

Margrét Gústavsdóttir
Föstudaginn 9. febrúar 2018 10:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óttarr Proppé er miðjubarn. Yngri sonur þeirra Ólafs J. Proppé, fyrrverandi rektors við Kennaraháskóla Íslands, og Pétrúnar Pétursdóttur, fyrrverandi forstöðumanns menningar- og listamiðstöðvarinnar Hafnarborgar. Óttarr er líka litli bróðir Jóns Proppé listheimspekings og stóri bróðir Huldu Proppé, mannfræðings og rannsóknastjóra hjá Félagsvísindasviði Háskólans.

Hann hefur staðið í eldlínunni í pólitíkinni undanfarin ár en nú finnst honum þetta komið gott enda sleit hann, ásamt öðrum flokksmönnum í Bjartri framtíð, ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn. Hann segir að eftir á að hyggja hafi hann líklega verið byrjaður að hugsa sig úr hlutverki stjórnmálamannsins enda geti hann ekki hugsað sér neitt verra en að enda sem „gaurinn sem er staðnaður í pólitík“.

Margrét H. Gústavsdóttir þáði kaffisopa hjá Óttari sem býr í menningarlegri íbúð við Garðastræti ásamt sálufélaga sínum, Svanborgu Þórdísi Sigurðardóttur.

Tuttugu eða þrjátíu prósent útlendingur

Í fasi er hann svolítið hlédrægur. Virkar næstum eins og hann sé feiminn sem stingur skemmtilega í stúf við ögrandi fatastíl hans og sviðsframkomu sem er allt annað en hlédræg. Satt að segja er Óttarr eins og umskiptingur á sviði því dagfarsprúði stjórnmálamaðurinn og fyrrverandi bóksalinn breytist í hvæsandi glamúrfjallaljón um leið og hann stígur á svið, hvort sem er með félögunum í HAM eða Dr. Spock, – enda hreint ekki einfaldur persónuleiki.

Óttarr ólst upp í tveimur löndum til skiptis, Bandaríkjunum og Íslandi, nánar tiltekið í bænum Urbana-Champaigne, í Illinois-fylki og í Hafnarfirðinum. Ólíkari staði er vart hægt að finna í þessum vestræna heimi en Óttarr segir að þessi umskipti hafi haft mjög mikil áhrif á hvernig hann sér og upplifir veröldina.

„Ég hóf skólagöngu mína í Bandaríkjunum árið 1975, fór svo aftur tíu til tólf ára og að lokum sem sextán ára skiptinemi árið 1986. Af þessu mótaðist ég mikið. Varð til dæmis tvítyngdur, sem gerði það að verkum að ég hef alltaf lesið meira á ensku en íslensku, og svo opnaðist annar heimur sem var töluvert fjölbreyttari en það sem við þekktum hér heima á þessum árum. Ég hafði til dæmis séð gos í dós, sjónvarp á daginn og fleiri en eina sjónvarpsstöð. Í bekknum mínum í Hafnarfirði voru bara örfáir krakkar sem höfðu farið til útlanda, hvað þá búið í útlöndum svo mér leið stundum eins og ég væri hálfur, eða svona tuttugu til þrjátíu prósent útlendingur,“ segir Óttarr.

„Í New York var allt í lit í samanburði við Reykjavík og maður sá flippað fólk í furðulegum fötum án þess að það væri að dimmitera og svona. Allt sem mér fannst spennandi kom þaðan. Ég uppgötvaði yfirleitt nýja tónlist af kassettum sem Jón bróðir sendi frá Bandaríkjunum meðan hann var þar í námi og þessi þrá, að komast til útlanda, burt úr grámanum og fábreytninni, varð snemma að einhvers konar heilögum kaleik hjá mér, – og reyndar mörgum af minni kynslóð.“

Sigurjón barðist fyrir skögultönnunum

Talandi um vinina … í næsta mánuði verða liðin þrjátíu ár frá því að félagarnir í HAM héldu sína fyrstu tónleika í Lækjartungli árið 1988. Þessi sérstaka óperuskotna og ofurdramatíska þungarokksveit er ávöxtur þeirra listbræðra, Sigurjóns Kjartanssonar og Óttars, en Óttarr er með þá kenningu að margir af þeirra kynslóð hafi verið undir gríðarlegum áhrifum frá Rokki í Reykjavík. Myndin, og ekki síst tónlistin, varð gríðarlega vinsæl á sínum tíma enda tilbreytingin sem fylgdi pönkinu og nýbylgjunni eins og ferskur andvari í einsleitt samfélagið. Hann segir að þessi kreatíva sprengja hafi örvað ungmenni af hans kynslóð til að vera skapandi og búa til tónlist, þrátt fyrir að sköpunargleðin hafi á vissan hátt náð hátindi með Rokki í Reykjavík.

„Sem krakki var ég alltaf að stússast eitthvað í tónlist. Spilaði á evfóníum með lúðrasveit og var eflaust hálf undarlegur. Ári á undan í skóla, dvergvaxinn og þrammandi um með risastóra túbu í lúðrasveit. Svo þegar maður komst á unglingsárin þá var þetta eðlilega ekki nógu töff svo ég lagði blásturshljóðfærinu, keypti leðurjakka og fór að hljómsveitast. Við Björn Blöndal og Örn Arnarsson vorum miklir músíkbræður í Flensborg en svo tók bröltið á sig alvörubrag þegar við kynntumst hópi af rugludöllum úr Kópavoginum. Þeim fylgdi þessi furðulegi maður, Sigurjón Kjartansson, sem þá var nýfluttur frá Ísafirði. Hann var náttúrulega mjög skrítinn; með svakalega stóran hárlokk sem hékk fram á ennið og skögultennur sem hann barðist fyrir því að halda upprunalegum því hann ætlaði að gerast hryllingsmyndaleikari,“ segir Óttarr glúrinn.

Álversmenguðu djöflarnir og söguleg frumraun HAM með Sálinni hans Jóns míns

Hann segir að með Sigurjóni hafi tónlistarbrölt þeirra félaganna fyrst orðið boðlegt þótt planið hafi alltaf verið að gera bíómyndir, enda báðir af VHS-kynslóðinni:

„Við horfðum báðir á b-myndir út í eitt og því lá beinast við að fyrsta samvinnuverkefni okkar yrði kvikmynd í fullri lengd. Við byrjuðum að skrifa handritið að meistaraverkinu Álversmenguðu djöflarnir sem fékk strax þýðinguna „The contaminated devils of aluminum,“ og réðumst í að mynda,“ rifjar hann upp.

Sagan, sem var mjög undarleg, fjallaði um brjálaða sígauna sem áttu heima í bílakirkjugarði við álverið í Straumsvík. Í þessu meistaraverki kom Jón Gnarr til sögunnar í aukahlutverki furðulegs Englendings sem ráfaði óvart inn á svæði hinna álversmenguðu djöfla en Jóni kynntust þeir í gegnum Hafnfirðinga sem höfðu verið í heimavist á Núpi og komu til baka með sögur af þessum skrítna rauðhærða strák.

„Við Sigurjón komumst þónokkuð fljótt að því að það var hægara sagt en gert að taka upp mynd í fullri lengd á 8 millimetra filmu og því drifum við bara í að semja tónlistina. Um leið rann það upp fyrir okkur að það væri mikið auðveldara að vera í hljómsveit en standa í þessu kvikmyndabrölti og þannig fór HAM bara sjálfkrafa í gang,“ útskýrir Óttarr um leið og hann fær sér sopa af espresso kaffi úr fallegum rósarbolla sem hann fékk að gjöf frá systur sinni Huldu.

Óttarr segir að með Sigurjóni hafi tónlistarbröltið tekið á sig alvöru mynd og því ekki eftir neinu að bíða. Næsta skref skyldi vera að sigra heiminn.

„Sigurjón er náttúrulega bara einhvers konar séní og með hans liðsauka vildum við gera meiri alvöru úr þessu enda mjög innblásnir af Einari Erni sem átti þau fleygu orð í Rokki í Reykjavík að málið væri ekki hvað maður gæti heldur hvað maður gerði. Okkur var eiginlega sama hvað það var, við vildum bara gera eitthvað.“

Þann 10. mars árið 1988 hélt HAM sína fyrstu tónleika á Lækjartungli þar sem sveitin hitaði upp fyrir Bleiku Bastana.

„Þetta sama kvöld hélt reyndar önnur hljómsveit sína fyrstu tónleika í kjallara hússins, en það var Sálin hans Jóns míns,“ segir Óttarr og dregur annað augað í pung. „Svona leynast nú þræðirnir í íslensku tónlistarlífi.“

Langar að vera með puttana úti um allt

„Strax um páskana tókum við upp smáskífuna Hold sem kom út um sumarið og um haustið vorum við búnir að væla okkur inn á að fá að hita upp fyrir Sykurmolana á tónleikaferðalagi um Þýskaland. Okkur fannst þetta alls ekkert of hratt enda strax byrjaðir að taka upp næstu plötu. Okkur lá mikið á enda alltaf að bíða eftir einhverju kjarnorkustríði og enginn tími í hangs. Sú pæling að fara að eyða einhverjum árum í að klára nám áður en maður færi að gera eitthvað af viti var gersamlega óhugsandi, – og ég er eiginlega ennþá þar … er enn ekki búinn að ákveða hvaða fag mig langar að læra í háskóla þótt ég velti því stundum fyrir mér. Mér finnst líka eitthvað skrítið að velja bara eitt fag til að einbeita mér að það sem eftir er ævinnar. Mann langar einhvern veginn að vera með puttana úti um allt.“

Skuldar átta einingar í Flensborg

Þótt þú viljir vera með puttana úti um allt varstu lengi mjög reglusamur í vinnu. Stóðst vaktina í bókabúð Máls og menningar árum saman?

„Já, ég skulda enn átta einingar í Flensborg af því að ég hætti í skóla og fór að vinna sem afgreiðslumaður hjá Almenna bókafélaginu. Ég sá auglýsingu í Mogganum, hringdi og blaðraði mig í starfið sem ég held að hafi tekist af því ég var tvítyngdur. Þetta er reyndar eina atvinnuviðtalið sem ég hef farið í á ævinni,“ segir Óttarr sem starfaði í bókabransanum frá því hann var nítján ára eða frá árinu 1987 til ársins 2010, eða í rúmlega tuttugu ár. Lengst sem innkaupastjóri í erlendu bókadeildinni hjá Máli og menningu við Laugaveg.

„Á árabilinu 1990 til 2000 var mikið fjör í bókabransanum, lífleg útgáfa og alls konar skemmtileg tilraunastarfsemi. Verslunin stækkaði og varð fljótlega að líflegu menningarsetri. Maður hitti alla sem voru menningarlega þenkjandi í þessari borg og alltaf var nóg að gerast. Næstu tíu ár á eftir, eða frá aldamótum til 2010 breyttist stemningin hins vegar og ég var þarna á tíu kennitölum án þess að færast úr stað. Maður var ýmist seldur, yfirtekinn eða færður en samt alltaf á sama stað,“ rifjar hann upp.

Reiknuðu ekki með að vera allt í einu kosin

Eftir hið margfræga hrun breyttist margt í lífi Óttars sem annarra Íslendinga. Hann upplifði, líkt og fleiri, að það hefði verið ákveðið ábyrgðarleysi að skipta sér ekki meira af stjórnmálum. Við hefðum á margan hátt látið okkur fljóta sofandi að pólitískum feigðarósi og að í hans eigin lífi væri einnig kominn tími á róttækar breytingar enda búinn að vera í sama starfinu í rúm tuttugu ár.

„Þegar ég uppgötvaði allt í einu að ég vissi nákvæmlega hvernig væri best að bregðast við þessari rosalegu niðursveiflu sem fylgdi hruninu, af því að ég var búinn að gera það svo oft áður, fannst mér kominn tími til að skipta um starfsvettvang,“ útskýrir Óttarr en það var einmitt á þessum krossgötum sem rauðhærði strákurinn frá Núpi pikkaði í hann og viðraði hugmyndina um að stofna Besta flokkinn.

Var þessi flokkur ekki aðallega grínádeila á stjórnmálin eins og þau höfðu verið fram að þessu? Eitthvert djók?

„Kannski ekki alveg djók en allavega gjörningur. Að einhverju leyti var þetta satíra en undir niðri lá mikil alvara og við vorum með sterkar skoðanir þó fæst hefðum við gert ráð fyrir því að vera allt í einu kosin. Síðustu vikurnar fyrir kosningarnar, þegar sá raunveruleiki byrjaði að renna upp fyrir okkur, þá lá auðvitað beinast við að taka fulla ábyrgð á þessum verkefnum sem okkur var treyst fyrir,“ segir hann og bætir við að stór þáttur í framboði Besta flokksins, og síðan stefnu Bjartrar framtíðar, hafi snúist um að alls konar fólk ætti að hafa aðgengi að stjórnmálum og samfélaginu almennt. Að mönnun ráðherra- og borgarstjórastóla hafi fram að því verið mjög einsleit, áratugum saman, og löngu kominn tími á meiri fjölbreytileika. Með þessu má segja að þarna hafi þau unnið stóran sigur því á síðustu tíu árum hefur umburðarlyndi landsmanna fyrir því sem er öðruvísi, eða sker sig úr, aukist mjög, og andstaða við misrétti og ofbeldi fengið sífellt hærri rödd: „Þetta var löngu tímabært enda algjörlega nauðsynlegt fyrir samfélagið.“

„Ekki erfiðara að stýra fundi í pólitísku ráði en æfingu hjá pönkhljómsveit“

Það var fleira sem rann upp fyrir meðlimum Besta flokksins þegar fram liðu stundir. Viku fyrir kosningar varð þeim til að mynda ljóst að þau þurftu að fylla upp í svona áttatíu til hundrað og tuttugu stöður en Óttarr starfaði meðal annars sem borgarfulltrúi, formaður í hverfisráði miðborgar, varaformaður borgarráðs, varaformaður skóla- og frístundaráðs og eins konar utanríkisráðherra flokksins í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og erlendum samskiptum ásamt fleiru.
„Þegar dyrnar lokuðust á eftir okkur þarna inn í ráðhúsið þá þurftum við bara að bretta upp ermar og setja okkur inn í málin. Í mínum huga var þetta alltaf eins konar þegnskylduvinna enda eiga stjórnmálamenn alltaf að starfa sem fulltrúar almennings, líkt og þegar menn eru valdir af handahófi í kviðdóm í Bandaríkjunum. Mér fannst gaman að koma svona inn í nýjar aðstæður og þurfa að læra á þær. Aftur held ég að það sé þessi bakgrunnur í pönkinu og þessum „do it yourself“-kúltúr Íslendinga sem ég kann svo vel við. Að læra hlutina með því að ráðast í verkið. Þetta var algjörlega þannig en svo vorum við líka góður, vel mannaður og samstilltur hópur sem Jón hafði smalað saman. Allt fólk með reynslu af því að þurfa að sjá fyrir sér sjálft á eigin forsendum. Seinna áttaði ég mig á að það er ekkert erfiðara að stýra fundi í pólitísku ráði en æfingu hjá pönkhljómsveit enda sama dýnamík að mörgu leyti.“

Getur ekki hugsað sér að vera gaur sem hangir í pólitík af gömlum vana

Undanfarin átta ár hefur Óttarr haft það að aðalstarfi að vera atvinnupólitíkus eins og hann kallar það. Þótt hann hafi aldrei stefnt á þá braut í lífinu segist hann flokka þetta undir tilraunagleði sína, sem hefur meðal annars fengið útrás í fatastíl hans, tónlist og annarri sköpun. Óttarr elskar nefnilega að ögra sjálfum sér og fara út fyrir eigin þægindamörk.

„Þegar ég lít um öxl þá grunar mig að þetta hafi verið hluti af bæði tilraunagleði og fífldirfsku en ég sé ekki eftir því. Á sama tíma er ég mjög ánægður með að hafa aldrei orðið atvinnupólitíkus í þeim skilningi að gera allt til að reyna að verja mína stöðu heldur velja frekar að leggja allt undir og keyra áfram. Það var ekki fyrr en alveg undir lokin að ég lærði hvernig maður ætti að passa sig, velja slagina og svo framvegis, sem er lógískt í þessu vinnuumhverfi, en getur í raun verið alveg banvænt í því sem ég kalla ábyrgð á pólitísku starfi. Pólitík er einhvers konar leikur, eða aðferðafræði, en vettvangurinn snýst um að sýsla með almannahagsmuni og það er mikill ábyrgðarhluti. Þegar pólitíski leikurinn fer að skipta meira máli en ábyrgðin sem fylgir starfinu þá er maður kominn á hálan ís,“ segir hann og vísar meðal annars til ástandsins í borgarpólitíkinni árið 2010. Þá höfðu fjórir borgarstjórar starfað á einu kjörtímabili og alls konar vitleysa fékk að viðgangast sem bæði meðlimir Besta flokksins, og aðrir borgarbúar, upplifðu að hefði verið á kostnað almannahagsmuna.

„Þegar maður sjálfur er svo orðinn þingmaður, eða ráðherra, þá kemur í ljós hvað það getur verið auðvelt að byrja að spila pólitík; maður lærir að vanda sig við að velja orðin til þess fá vinnufrið svo maður geti komið einhverju góðu til leiðar, nú eða til að komast hjá rifrildi og svo framvegis. Nú, þegar ég hef haft einhverjar vikur til að velta þessu fyrir mér, þá sé ég að ég var kannski aðeins orðinn þreyttur og ómeðvitað byrjaður að hugsa mig út úr þessum hlutverkum. Ég get ekki hugsað mér að vera svona gaur sem hangir í pólitík af gömlum vana. Hvað þá fyrrverandi pólitíkus sem er síröflandi um hvernig hann myndi gera hlutina. Það er það hallærislegasta sem ég veit. Eiginlega eins og gamall pönkari sem vælir yfir því hvað rapp sé ömurleg tónlist!“

Ætlarðu alfarið að stimpla þig út úr stjórnmálum eða langar þig að snúa til baka?

„Nei, ég upplifi að nú sé rétti tíminn til að láta gott heita enda er ég búinn að vera vakinn og sofinn yfir pólitík í fleiri ár. Undir það síðasta upplifði ég að persóna mín og gulu fötin væru byrjuð að taka athyglina frá hugsjónum Bjartrar framtíðar og það þótti mér miður. Ég hef alltaf litið á starf stjórnmálamannsins sem þjónustustarf og persóna viðkomandi ætti ekki að fá meiri athygli en þau verkefni sem hann eða hún eru að sinna. Það er líka gaman að sjá framtíðina fyrir sér sem óskrifað blað og vita ekki hvað tekur við næst,“ segir hann en eftir að hann lét af störfum sem heilbrigðisráðherra hefur helsta verkefni Óttars verið að taka upp nýja plötu með hljómsveitinni Dr. Spock.
„Hún kemur út eftir nokkra daga og við ætlum að halda svakalega útgáfutónleika á Húrra á föstudaginn eftir viku,“ segir hann spenntur. Greinilega feginn að vera aftur kominn á fullt í tónlistarbransann.

Barnlaus, reyklaus og án áfengis

Við vendum kvæði okkar í kross og ræðum aðeins einkalíf og lífsstíl Óttars sem líkt og annað í hans tilveru er ekki sérlega hefðbundið. Hann er bæði hættur að reykja og drekka og reynir að forðast sykur en elskar hins vegar kaffi.
„Ég hef í mér hið alræmda fíknigen og reyni því að losa mig við einn löst í einu. Hætti að drekka um aldamótin og það er orðið nokkuð normalt ástand núna. Þetta var auðvitað löngu hætt að vera partí og byrjað að trufla annað sem ég hefði átt að vera að gera,“ segir Óttarr sem hætti drykkjunni á eigin forsendum, án þess að fara í áfengismeðferð.
„Eftir því sem maður verður eldri og sköllóttari þá finnur maður meira fyrir neikvæðum afleiðingum lastanna. Mér fannst ekki erfitt að hætta að drekka og ég sakna hvorki bragðsins né áhrifanna en þó kemur það fyrir, þegar maður sér einhvern drekka viskí á mjög töff hátt í bíómynd að maður hugsi: Djöfull er þetta töff. Ég segi það sama með reykingar. Mig langar aldrei í sígarettu, en þegar ég sé einhverja töffara reykja þá kemur stundum þessi gamla tilfinning yfir mig. Það erfiðasta við að láta af löstum er kannski að sætta sig við að maður ætli ekki að taka þátt í þessu partíi lengur.“

Barnleysið aldrei truflað

Fyrir tæpum þrjátíu árum kynntist Óttarr sambýliskonu sinni, Svanborgu. Hann segir hvorugt þeirra muna hvar eða hvernig leiðir þeirra lágu saman en líklegast hafi það verið einhvers staðar á tónleikum. Þau eiga engin börn en heimili þeirra er stútfullt af heilbrigðum og fallegum plöntum og svo eru þau með fínasta fiskabúr. Hann segir sameiginleg áhugamál og svipaðan smekk binda þau sterkum böndum og hann er þakklátur fyrir þá gæfu að þau hafi fengið að uppgötva hlutina saman. Hvað barneignir varðar segir Óttarr þau eiginlega ekki hafa pælt sérstaklega í því:

„Við höfum aldrei sest niður og ákveðið að eignast ekki börn og við höfum heldur ekki sest niður og talað um hvað það sé ömurlegt að hafa aldrei eignast þau og að við þyrftum að gera eitthvað í því. Við höfum bara notið þess afskaplega vel að vera frænka og frændi barnanna í fjölskyldum okkar og barnleysið hefur aldrei truflað okkur. Kannski er það uppreisnargjarna genið í okkur sem hefur ekki viljað gera neitt eins og allir hinir? Eitthvað ómeðvitað? Á pönktímanum gekk ég til dæmis alltaf með bindi en um leið og ég varð stjórnmálamaður tók ég það af mér og vildi vera fulltrúi þeirra sem ganga aldrei með bindi. Við Svanborg fengum bæði borgaralegt úthverfauppeldi en það er eitthvað í okkur báðum sem streitist á móti straumnum. Þegar ég segi það þá hljómar þetta kannski svolítið mótsagnakennt. Við búum jú í steinhúsi við Garðastræti, söfnum myndlist og eigum fallegan sófa. Samt er alltaf þessi litli pönkari inni í mér sem sem steytir hnefa móti norminu og æpir: Eigi skal bogna!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Katrín svarar Kára

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 4 dögum

Illverk vekja áhuga fólks – „Jeffrey Dahmer er uppáhalds morðinginn minn“

Illverk vekja áhuga fólks – „Jeffrey Dahmer er uppáhalds morðinginn minn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sorgmæddur köttur tekur Internetið með trompi

Sorgmæddur köttur tekur Internetið með trompi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram : „Hvað er skemmtilegra en að djamma með öllum sem þú dýrkar?“

Vikan á Instagram : „Hvað er skemmtilegra en að djamma með öllum sem þú dýrkar?“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hinar raunverulegu húsfreyjur Íslands

Hinar raunverulegu húsfreyjur Íslands
Fókus
Fyrir 5 dögum

Valgeir bjargaði lífi föður síns en tókst ekki að bjarga bróður sínum

Valgeir bjargaði lífi föður síns en tókst ekki að bjarga bróður sínum
Fókus
Fyrir 1 viku

Drepfyndinn hrekkur fer eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum

Drepfyndinn hrekkur fer eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum
Fókus
Fyrir 1 viku

Svafar var 17 ára sannfærður um að samfélaginu væri að öllu leyti sama um sig

Svafar var 17 ára sannfærður um að samfélaginu væri að öllu leyti sama um sig
Fókus
Fyrir 1 viku

Stjörnuparið setur „snubbuíbúð“ á sölu – Fallegt útsýni yfir miðbæ Reykjavíkur

Stjörnuparið setur „snubbuíbúð“ á sölu – Fallegt útsýni yfir miðbæ Reykjavíkur
Fókus
Fyrir 1 viku

Ósammála um kynningarmyndband KSÍ – „Hjartað í mér sökk“- „Landsliðið í hneysklun“

Ósammála um kynningarmyndband KSÍ – „Hjartað í mér sökk“- „Landsliðið í hneysklun“