fbpx
Laugardagur 01.október 2022
FókusKynning

Þetta eru tíu bestu veitingastaðirnir í Reykjavík

Nýliðarnir tróna á toppinum – Notendur Tripadvisor kveða upp sinn dóm

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 16. mars 2018 16:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Icelandic Street Food, nýr veitingastaður við Lækjargötu, er vinsælasti veitingastaður höfuðborgarinnar samkvæmt notendum Tripadvisor, sem flestir eru erlendir ferðamenn. Í öðru sæti er annar nýr veitingastaður, Nostra Restaurant við Laugaveg. Veitingamenn eru á einu máli um að gríðarlega mikilvægt sé að vera ofarlega á blaði á Tripadvisor því fjölmargir ferðamenn styðjast við vefsíðuna þegar þeir reyna að velja sér einn af tæplega 400 veitingastöðum borgarinnar til að heimsækja.

Lausleg athugun bendir til þess að ferðamenn kunni best að meta góðan mat, fallegt umhverfi, notalegt andrúmsloft, hlýlega þjónustu og hóflegt verð. Það eru byltingarkenndar niðurstöður.

Athygli vekur að eini veitingastaður landsins sem skartar Michelin-stjörnu, Dill, er aðeins í 81. sæti listans. Hefur blaðamaður orðið var við að mataráhugamenn taki það sem dæmi um að Tripadvisor-listinn sé fullkomlega ómarktækur. Miðað við umsagnir á Tripadvisor virðist Dill vera fórnarlamb gríðarlegra væntinga gesta sem haldast ekki í hendur við endanlega upplifun og reikninginn.

Þá er rétt að taka fram að listinn getur breyst hratt en þessi grein miðast við hver staðan er að morgni 14. mars 2018. DV hefur tekið saman þennan lista á svipuðum tíma ár hvert. Sjö veitingastaðir voru einnig á listanum í fyrra en tveir nýliðar skutu hinum ref fyrir rass, eins og áður segir. Þó lifir lengi í gömlum glæðum og því verða eflaust margir ánægðir að sjá að Grillið á Hótel Sögu hefur flogið upp listann undanfarið ár og kemst inn á listann í 10. sæti. Veitingastaðurinn Restó hefur tvívegis verið í efsta sæti listans, árið 2015 og 2017 en er nú fallinn niður í sjöunda sæti.

1. sæti: Icelandic Street Food, Lækjargötu 8, 101 Reykjavík

Veitingastaðurinn var opnaður á síðasta ári í litlu rými við Lækjargötu 8. Eigendur staðarins eru ekki að flækja málið með viðamiklum matseðli heldur halda sig við fáa og einfalda rétti en gera þá vel. Miðað við viðbrögð notenda Tripadvisor þá njóta súpur staðarins, sem eru bornar fram í brauðskálum, mestra vinsælda. Tvær tegundir eru iðulega í boði, kjöt- og sjávarréttarsúpa. Geta gestir meira að segja smakkað báðar gerðir af súpum ef út í það er farið og það þykir ferðamönnum frábært, ef marka má umsagnir.

Ef umsagnir gesta við Icelandic Street Food eru skoðaðar þá sést að það er einkum fernt sem virðist falla í kramið. Það er hagstætt verðlag, frábærar súpur með ókeypis áfyllingu, skemmtilegt andrúmsloft og afar vinalegt starfsfólk staðarins. Miðaldra ensk hjúkrunarkona (hún tekur það sérstaklega fram) skrifar hjartnæma umsögn um staðinn og segir að unga fólkið sem reki Icelandic Street Food sé að gera hlutina rétt og það sé henni mikið hjartans mál að koma því á framfæri.

Þá er greinilegt að þjónustulund starfsmanna hefur slegið í gegn. Þannig segir einn gestur frá því að ferðafélagi hans sé grænmetisæta og hafi því fengið að koma með grænmetissúpu með sér af öðrum stað. Það hafi ekki verið neitt mál og eigandi staðarins hafi meira að segja komið með brauðskál undir súpuna honum að kostnaðarlausu.

2. sæti: Nostra Restaurant, Laugavegi 59, 101 Reykjavík

Nostra Restaurant var opnað á síðari hluta ársins 2017 og er því enn ein viðbótin við glæsilega flóru íslenskra veitingastaða. Á Nostra er „áherslan lögð á íslenskt hráefni að skandinavískum sið í bland við það besta úr franskri matargerð“ svo vitnað sé beint í frétt veitingageirans.is af opnun staðarins. Mikið er lagt í útlitshönnun veitingastaðarins sem er í nýuppgerðu rými á 2. hæð Kjörgarðs við Laugaveg.

Miðað við umsagnir erlendra ferðamanna þá er greinilegt að Nostra er að gera eitthvað rétt, jafnvel hárrétt. Af umsögnum að dæma er þjónusta staðarins í „heimsklassa“ og mikil ánægja virðist ríkja með sex rétta matseðilinn sem margir virðast skella sér á. Þá minnast margir á kokteila staðarins sem eru framreiddir á sérstökum kokteilbar staðarins, sem ber heitið Artson. Sumir ferðalangar taka það fram að Nostra sé sérstaklega fínn staður og verðið sé eftir því en upplifunin sé hverrar krónu virði.

 

3. Forréttabarinn, Nýlendugötu 14, 101 Reykjavík

Undanfarin þrjú ár hefur Forréttbarinn ætíð átt sæti á topp 10 listanum en verið að lúra í 6.–8. sæti. Matreiðslumeistarinn og eigandi staðarins, Róbert Ólafsson, hefur greinilega verið að gera góða hluti því dómar erlendra ferðamanna eru lofsamlegir í meira lagi. Eins og nafnið gefur til kynna leggur Forréttabarinn áherslu á forrétti í tveimur stærðum en að auki er sérstakur matseðill afar vinsæll meðal gesta. Gestir halda vart vatni yfir matnum sem er í boði en einnig er ítrekað minnst á sanngjarnt verð. Þá virðist „Happy hour“ staðarins njóta mikilla vinsælda enda er sopinn dýr hér á landi.

 

4. Messinn, Lækjargötu 6b og Grandagarði 8, 101 Reykjavík

Messinn var opnaður með pomp og prakt í júní 2016 og slógu fiskréttir staðarins umsvifalaust í gegn, jafnt hjá Íslendingum og erlendum ferðamönnum. Eigandi staðarins, Jón Mýrdal, sagði að markmiðið væri að fanga anda Tjöruhússins, hins rómaða veitingastaðar á Ísafirði. Það hefur tekist og gott betur. Messinn var í fjórða sæti listans í fyrra og heldur velli þrátt fyrir áhlaup nýliða. Þá var nýlega opnað annað útibú staðarins í glæsilegum sal við Grandagarð 8.

Eins og gefur að skilja er það sjávarfangið sem heillar erlenda ferðamenn en einnig er oft minnst á skammtastærðirnar sem séu ríflegar og verðið sanngjarnt. Þá mæla fjölmargir með staðnum í hádeginu enda er verðið enn hagstæðara þá.

 

5. Ostabúðin, Skólavörðustíg 8, 101 Reykjavík

Fyrir tæpum þremur árum var opnaður nýr og endurbættur veitingastaður Ostabúðarinnar auk þess sem staðurinn sótti loks um vínveitingaleyfi. Nánast umsvifalaust flaug staðurinn upp vinsældalista Tripadvisor og hefur síðan átt fast sæti á efri helmingi þessa árlega lista. Erlendir gestir mæla með Ostabúðinni í hádeginu og á kvöldin. Maturinn er lofaður í hástert og þá sérstaklega sjávarfangið. Þá þykir þjónustan góð og gestir minnast á afslappað og þægilegt andrúmsloft.

6. Fiskmarkaðurinn, Aðalstræti 12, 101 Reykjavík

Drottning íslenska veitingageirans, Hrefna Sætran, á að sjálfsögðu sinn fulltrúa á listanum og það verður að segjast eins og er að það vekur nánast undrun að Grillmarkaðurinn sé ekki líka ofarlega á blaði. Sá ágæti staður lúrir í 16. sæti listans. Fiskmarkaðurinn var stofnaður á því herrans ári 2007 og hefur frá upphafi notið mikilla vinsælda. Þannig hefur staðurinn ár hvert átt sæti á þessum lista.

Það þarf engum að koma á óvart að á Fiskmarkaðinum er lögð áhersla á fisk og matreiðslan fellur vel í kramið hjá gestum. Maturinn er sagður bragðgóður, frumlegur og fallega borinn fram. Tekið er fram að staðurinn sé ekki ódýr en verðið sé þessi virði.

7. Restó, Rauðarárstíg 27–29, 101 Reykjavík

Allt frá opnun Restó fyrir rúmum þremur árum hefur staðurinn trónað á toppi Tripadvisor-listans. Staðurinn var efstur á listum DV árið 2015 og 2017 en varð að gera sér annað sætið að góðu árið 2016. Í stuttu viðtali við DV í fyrra sagði eigandi staðarins, matreiðslumaðurinn Jóhann Helgi Jóhannsson, að efsta sætið væri tvíeggja sverð. Það skilaði sér í fleiri viðskiptavinum en ella en að sama skapi væru væntingarnar mjög miklar, jafnvel óraunhæfar. Restó má þó vel við una í sjöunda sæti og sé mið tekið af skriflegum umsögnum gesta þá eru þeir ánægðir með heimsóknina. Fiskréttir staðarins virðast njóta mestra vinsælda en látlaust yfirbragð staðarins og hlýleg þjónusta og andrúmsloft fellur greinilega vel í kramið.

8. Old Iceland Restaurant, Laugavegi 72, 101 Reykjavík.

Hér er á ferðinni annar fastagestur listans en allt frá opnun Old Iceland, í desember 2014, hefur staðurinn notið mikilla vinsælda hjá ferðamönnum. Um fjölskyldustað er að ræða sem er í eigu þriggja bræðra en aðeins einn af þeim sér um daglegan rekstur, yfirkokkurinn Þorsteinn Guðmundsson. Ferskt íslenskt hráefni leikur lykilhlutverk á matseðlinum og er höfuðáherslan lögð á ýmsa fiskrétti.

DV hefur áður minnst á að forsvarsmenn staðarins reyna að svara flestum umsögnum á Tripadvisor, bæði jákvæðum og neikvæðum, og það er til mikillar fyrirmyndar.

9. Matarkjallarinn – The Food Cellar, Aðalstræti 2, 101 Reykjavík

Matarkjallarinn var opnaður um miðjan maí 2016 í húsnæði sem hýst hefur allnokkra veitingastaði í gegnum árin. Strax frá opnun rauk staðurinn upp vinsældalistann og var í öðru sæti þessa lista í fyrra. „Brasserie matargerð ræður ríkjum í eldamennskunni þar sem áherslan er á íslenskt hráefni,“ segir á heimasíðu Matarkjallarans en á meðan gestir njóta matarins þá hlýða þeir á lifandi tónlist frá Bösendorf-flygli sem var smíðaður árið 1880 í Vínarborg.

10. Grillið, Hagatorg, 107 Reykjavík

Lengi lifir í gömlum glæðum. Það hefur verið rauður þráður á þessum listum að nýir veitingastaðir eiga auðveldara með að rjúka upp vinsældalistann. Það er því ánægjulegt að sjá Grillið koma inn á topp 10 listann enda hefur staðurinn í áratugi verið einn sá allra besti á höfuðborgarsvæðinu. Gestir halda ekki vatni yfir matnum og þjónustunni en þá er útsýnið af efstu hæð Hótel Sögu eitthvað sem allir minnast á. Þá hefur veitingastaðurinn greinilega sett aukinn kraft í markaðssetningu sína því öllum umsögnum um staðinn á Tripadvisor er samviskusamlega svarað. Það virðist skila árangri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Gjaldþrota dyrasímar

Nýlegt

Kynning
05.05.2022

Bauhaus fagnar 10 ára afmæli í dag!

Bauhaus fagnar 10 ára afmæli í dag!
Kynning
13.04.2022

Loksins loksins dúnamjúkir og dísætir snúðar frá Pizzunni

Loksins loksins dúnamjúkir og dísætir snúðar frá Pizzunni
Kynning
01.01.2022

Það var enginn tilbúinn fyrir okkur í fyrstu

Það var enginn tilbúinn fyrir okkur í fyrstu
Kynning
21.12.2021

Gefa 10 manna skötuveislu á Þorláksmessu til heppins lesanda – Keyrt heim að dyrum

Gefa 10 manna skötuveislu á Þorláksmessu til heppins lesanda – Keyrt heim að dyrum
Kynning
05.11.2021

Fann mun á sér eftir fjóra daga á CBD

Fann mun á sér eftir fjóra daga á CBD
Kynning
29.10.2021

Öflug þarmaflóra er grunnur að sterku ónæmiskerfi

Öflug þarmaflóra er grunnur að sterku ónæmiskerfi