

Grein Nönnu hefur vakið talsverða athygli en í henni segist hún óska þess heitt og innilega að árið 2026 verði árið þar sem við jörðum útlitsdýrkun, megrunartal, fitufordóma og þá hugmynd að nota hreyfingu sem refsingu eða útlitsmótunartól.
„Staðan er sú að í dag lifum við í heimi samfélagsmiðla þar sem við erum stöðugt mötuð af alls kyns upplýsingum — mörgum jákvæðum, en allt of mörgum neikvæðum og beinlínis heilsuskaðandi. Börnin okkar eru einnig á góðri leið með að alast upp við síendurtekin neikvæð skilaboð, og við sem erum fullorðin berum ábyrgð,“ segir hún í grein sinni.
Hún bætir við að ákveðin afturför hafi orðið hvað þetta varðar og þess vegna sé þörfin fyrir brýningu meiri nú en nokkru sinni áður. Hún lætur síðan nokkra punkta fylgja með:
Nanna segir að það sem við þurfum á að halda – og helst börnin okkar – sé sú sýn að hreyfing sé heilsueflandi. Markmið hennar sé að byggja upp styrk, líða vel, hafa meiri orku, byggja upp traust á eigin líkama og geta gert þá hluti sem okkur langar til að gera alla ævi.
„Við borðum næringarríkan og góðan mat til að efla heilsuna, styðja við líkamann, hafa orku, sofa vel og geta lifað lífinu með úrvals orku á tankinum. Við gerum okkur grein fyrir því að fólk er mismunandi og á að vera ólíkt. Útlit fólks, breytingar á líkamsþyngd eða líkamsformi koma okkur ekki við og eru ekki okkar að gera athugasemdir við. Getum við gert þetta saman?“