

Sögufræg perla Guðjóns Samúelssonar arkitekts og fyrrverandi húsameistara ríkisins á Skólavörðustíg er komin á sölu.
Húsið sem er byggt árið 1923 er áberandi kennileiti á Skólavörðuholtinu og er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð. Húsið er 275,2 fm, þar af bílskúr 19,2 fm, og er í nýbarokksstíl, með sveigðum gaflbrúnum og barokkgluggum með smárúðum sem setja svip sinn á húsið.

Guðjón hannaði margar af fallegri byggingum landsins, þeirra á meðal Hallgrímskirkju, Reykjavíkurapótek, Akureyrarkirkju, Landakotskirkju, Hótel Borg, aðalbyggingu Landspítalans, Þjóðleikhúsið, Sundhöllina og aðalbyggingu Háskóla Íslands, svo nokkrar séu nefndar.
Húsið skiptist í forstofu/hol, fjögur svefnherbergi þar af þrjú með sér baðherbergi, og baðherbergi á aðalhæð. Á efri hæð/risi er eldhús, þrjú svefnherbergi öll með sér baðherbergi og aukabaðherbergi. Á rislofti eru tvö svefnherbergi og snyrting.

Í kjallara hússins eru tvö svefnherbergi bæði með sér baðherbergi og annað einnig með sérinngang, og þvottahús. Í kjallara er einnig stúdíóíbúð með sérinngangi og baðherbergi. Í sérstæðum bílskúr innan lóðar er einnig aukaíbúð sem skiptist í eldhús/stofu, svefnherbergi og baðherbergi. Fallegur steyptur veggur umlykur eignina við götu. Sér bílastæði er fyrir framan bílskúr.

Húsið við Skólavörðustíg 30 er upphaflega byggt sem íbúðarhús en hefur í gegnum tíðina ýmist verið nýtt sem íbúðarhúsnæði eða nýtt undir blandaða atvinnustarfssemi. Þar hefur verið rekin lögmannsstofa, ljósmyndastofa og fasteignasala svo eitthvað sé nefnt. Undanfarin ár hefur þar verið rekið gistiheimili og heimagisting.
Nánari upplýsingar um eignina má finna hér.

Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur og rithöfundur, er einn sá fróðasti um sögu Reykjavíkur hefur lengi tíðkað það að birta færslu á Facebook um hús dagsins, þar sem hann birtir mynd af einu húsi í borginni og rekur sögu þess. Nýlega endurbirti hann sögu Skólavörðustígs 30:
„Hús dagsins (269). Áður birt 22. mars 2023. Skólavörðustígur 30. Eitt af glæsihúsum Guðjóns Samúelssonar, höfuðarkitekts Íslendinga á fyrri hluta síðustu aldar. Voldugir barokkgaflar og margrúðugluggar setja mestan svip á húsið sem Guðjón teiknaði fyrir hjónin Helga Bergs, forstjóra Sláturfélags Suðurlands, og Elínu Jónsdóttur. Þau og fjölskylda þeirra bjuggu síðan þarna um áraraðir.
Þegar húsið var selt 1965 eða 1966 keypti það félagsskapur manna og var einn af þeim Sverrir Hermannsson alþingismaður. Húsinu var þá breytt í skrifstofuhús. Þar fékk inni Landsamband íslenskra verslunarmanna þar sem Sverrir var formaður. Ennfremur var lögfræðiskrifstofa og fasteignasala í húsinu. Í kjallara var lengi vel ljósmyndastofa Sigurðar Guðmundssonar.
Árið 1970 keyptu hjónin séra Guðmundur Óskar Ólafsson og Ingibjörg Hannesdóttir húsið. Þau settu hið volduga steinhandrið með blómakerjum í kringum það og var það í stíl við arkitektúrinn. Einnig létu þau setja hlera við glugga sem fóru því ekki eins vel. Þeir hafa verið fjarlægðir. Steinlistaverk í bakgarði, sem enn eru, eru eftir Ingibjörgu.
Séra Guðmundur og Ingibjörg seldu húsið árið 1993 og voru kaupendur hjónin Ólafur Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og Helga kona hans. Breyttu þau húsinu í gistiheimili. Eftir 2002 hefur það gengið kaupum og sölum. Það heitir nú Villa Guesthouse og hefur nafnið Villa verið málað yfir útidyr.“