Steffý er gestur vikunnar í Fókus, viðtalsþætti DV.
Það var þó ekkert beint á planinu hjá þeim að flytja erlendis og mætti segja að þetta hafi verið frekar hvatvís ákvörðun, en vinur Ronna var að kaupa hús á Ítalíu með fjölskyldu sinni og komust þau þannig í samband við fasteignasala.
„Síðan fór hann allt í einu til Ítalíu, bara yfir helgi til að skoða eignina og skrifa undir,“ segir Steffý brosandi.
Þau eru í miðju ferli og viðurkennir Steffý að þetta er alveg bras og mikill leyndur kostnaður sem fylgir þessu. Eignin sjálf var ódýr, sérstaklega miðað við fasteignaverð á Íslandi. Húsið, sem var nýlega endurbyggt, kostaði nokkrar milljónir.
„Af því að þetta er jarðskjálftasvæði og húsið var búið að hrynja og það er mjög svona… fólk vill ekkert kaupa á jarðskjálftasvæði. En ég er úr Grindavík,“ segir Steffý og hlær.
„Evrópusambandið tók sig saman og endurbyggðu helling af húsum. Og húsið sem við vorum að kaupa er eitt af því.“
@steffythorolfs♬ original sound – steffythorolfs
Planið er að flytja þangað næsta sumar og vita þau ekki hversu lengi, eitt til tvö ár, eða jafnvel lengur, það mun allt koma í ljós með tímanum.
Steffý hefur verið dugleg að deila frá ferlinu á TikTok, @steffythorolfs, og geta áhugasamir séð myndir af húsinu þar ásamt öðru skemmtilegu varðandi ferlið.
Hún ræðir kaupferlið og flutningana nánar í þættinum sem má hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Umræðan um Ítalíu hefst sirka á mínútu 52.