Hér að neðan má lesa brot úr þættinum. Til að hlusta á hann í heild sinni smelltu hér. Í þessari frétt er fjallað um sjálfsskaða og sjálfsvígshugsanir.
Köru tókst að koma sér á beinu brautina þegar hún var 21 árs, alveg að verða 22 ára. Hún rifjar upp augnablikið þegar það rann upp fyrir henni að hún þyrfti að gera eitthvað. „Ég var nýbúin að missa einn vin minn og ég var bara að hugsa hvað margir í kringum mig væru að deyja, að það væri svo mikið ofbeldi og margir búnir að deyja úr neyslu eða sjálfsvígi. Einn vinur minn var stunginn í hálsinn og drepinn. Og ég átti ekki neitt, var ekki með bílpróf, átti ekki krónu, engan sparnað og ekki heimili. Ég átti eiginlega ekki föt og ef ég myndi halda þessu áfram myndi ég deyja.“
Kara hringdi í móður sína og spurði hvort hún mætti koma heim, og þarna segir Kara að viðbrögð móður hennar hafi skipt sköpum. „Þetta er lykilatriði. Ég hringdi í mömmu og spurði hvort ég mætti koma heim og hún sagði: „Já, ég kem og sæki þig, hvar ertu?“ Hún kom og sótti mig og þegar við komum heim sagði hún: „Hérna er herbergið þitt, ég er ekkert búin að breyta því, en hérna, hvað eigum við að fá okkur í kvöldmat?““
„En þetta er rosalega mikilvægt af því á þessu augnabliki þá fattaði ég bara og ég fann það í hjartanu að þarna væri ég örugg til að ná bata.“
Fyrst byrjaði Kara á því að hætta að neyta fíkniefna og svo hætti hún að drekka.
Kara segir hnefaleikana hafa bjargað lífi hennar og sé ástæðan fyrir því að hún sé edrú. Hún hefur náð miklum árangri í íþróttinni og var meðal annars valin hnefaleikakona ársins árið 2020.
Með boxinu fann Kara sinn innri stríðsmann og kraftinn í líkama hennar.
„Ég fann að ég er nógu sterk til þess að standa með sjálfri mér og berjast. Það hjálpaði mér líka að vinna úr erfiðum tilfinningum,“ segir hún.
Hún ræðir þetta nánar í þættinum sem má hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Kara fór að læra kokkinn og náði ótrúlegum árangri í þeim bransa. Hún var einnig öflug í boxinu og virtist lífið leika við hana. En einn daginn var eins og þrumuský færðist yfir hana og gat hún ekki komið sér undan því.
„Ég man að ég var heima, og það var allt að ganga vel. Ég var nýbúin að vinna hnefaleikakona ársins og var komin með gott plan frá þjálfara, ég var í geggjuðu formi og í geggjaðri vinnu. Ég var búin að vinna fullt af verðlaunum, það var allt bara frábært. Og svo bara var ég þarna heima og var að gera eitthvað í tölvunni og svo allt í einu leggst yfir mig einhver rosaleg vanlíðan, eins og ég fékk hnút í hjartað. Ég stóð upp, fór inn í eldhús, náði mér í hníf og byrjaði að skera mig.“
Kara hafði ekki stundað sjálfskaða síðan hún var unglingur en þarna komu yfir hana mjög sterkar og miklar sjálfsvígs- og sjálfsskaðahugsanir. „Sjálfshatur og mikið þunglyndi,“ segir hún.
Kara var búin að ákveða að svipta sig lífi, hún var búin að ákveða dagsetningu og fann fyrir mikilli ró þegar hún hugsaði um það. Sem betur fer tók þjálfari hennar í boxinu eftir breyttri hegðun hennar og hvatti hana að sækja sér aðstoðar hjá Píeta samtökunum. Hún var í kjölfarið lögð inn á geðdeild. „Ég var svo hrædd, ég skildi ekki af hverju mér leið svona,“ segir Kara.
Kara var síðar greind með áfallastreituröskun og geðhvarfasýki 1. „Síðustu tvö ár hef ég samanlagt verið inni á geðdeild í ellefu mánuði,“ segir hún.
Hún segir frá veikindunum og bataferlinu betur í lok þáttarins sem má hlusta á hér.
Í þessari frétt er fjallað um þunglyndi og sjálfsvíg. Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.