Gunnar Alexander Ólafsson, hagfræðingur hjá ÖBÍ réttindasamtökum, er lesandi DV. Gunnar hefur um langt skeið deilt með vinum sínum á Facebook bókunum sem hann les og gefið þeim einkunn.
Í starfi sínu hjá ÖBÍ sér Gunnar um hagfræðilegar greiningar og vinnur eftir hagfræðilegri nálgun á viðfangsefni sem falla undir áherslur bandalagsins. Til dæmis hvað viðkemur kjara- og húsnæðismálum. Gunnar hefur B.A.-gráðu í stjórnmálafræði og mastersgráður í opinberri stjórnsýslu og heilsuhagfræði. Gunnar hefur áður starfað hjá RÚV, heilbrigðisráðuneytinu, Háskólanum á Bifröst, Umhverfisstofnun og Lyfjastofnun.
Gunnar er giftur Ingibjörgu Lilju Ómarsdóttur, fagstjóra endurreisnar hjá Almannavörnum og eiga þau þrjú börn.
Hvaða bók/bækur ertu að lesa núna?
Löngu horfin spor eftir Guðjón Jensson. Áhugaverð bók með fullt af hliðarsögum.
Hvaða bók/bækur laukstu við síðast og hvernig fannst þér hún/þær?
Þegar fennir í sporin eftir Steindór Ívarsson. Þetta var fyrsta bókin sem ég las eftir Steindór og bókin er í einu orði frábær. Fantavel skrifuð og ég mæli með henni.
Hefurðu nýlega gefist upp á að lesa einhverja bók eða hefurðu lesið einhverja bók nýlega sem stóðst ekki væntingar?
Já ég get nefnt tvær bækur. Önnur er Sæluríkið eftir Arnald Indriðason sem olli mér gífurlegum vonbrigðum enda tengdi ég ekkert við sögupersónuna Konráð. Hin bókin heitir Djúpið eftir Benný Sif Ísleifsdóttur en söguþráðurinn og atburðarásin var mjög ruglandi.
Hvar finnst þér best að lesa og er einhver tími dags betri en annar?
Kvöldin upp í rúmi og á eftirmiðdögum um helgar upp í sofa.
Manstu eftir hvaða bók var lesin fyrst fyrir þig sem barn og/eða sem þú last sjálf/ur sem barn?
Í minningunni minnist ég þegar ég og móðir mín lásum saman bókina Bróðir minn Ljónshjarta. Frábær bók sem ég las aftur síðar.
Er einhver bók/bækur sem þú getur ekki beðið eftir að lesa?
Ég er spenntur eftir bókum eftir ákveðna höfunda eins og Einar Kárason, Hallgrím Helgason og Ragnar Jónasson.
Áttu þér uppáhaldsbók/bækur sem þú jafnvel lest aftur og aftur?
Það eru nokkrar bækur sem ég les aftur og aftur, til dæmis Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson, Oddaflug eftir Guðrúnu Helgadóttur og Þar sem djöflaeyjan rís, Gulleyjan og Opið haf eftir Einar Kárason. Tríólógia Stieg Larssons um Lisu Salander les ég reglulega aftur.
Áttu þér uppáhalds höfund/a?
Já, ég held upp á marga höfunda og hef nefnt nokkra þeirra eins og Einar Kárason, Hallgrím Helgason og Ragnar Jónasson. Til viðbótar held ég upp á Stieg Larsson, Guðrúnu Helgadóttur, Ólaf Jóhann Ólafsson, Sigríði Hagalín Björnsdóttur, Gunnar Þór Bjarnason, Tryggva Emilsson, Vilhjálm S. Vilhjálmsson og svo klassíkera eins og Halldór Kiljan Laxness og Gunnar Gunnarsson.
Hvaðabók/bækur hafa haft mest áhrif á þig og hvers vegna?
Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson í ljósi þess hve stutt er síðan sagan gerðist.
Hvaða bók/bækur ættu allir að lesa (bók/bækur sem þú mælir alltaf með)?
Það eru nokkrar bækur, til dæmis Sjálfstætt fólk og Íslandsklukkan eftir Halldór Kiljan Laxness. Saga Borgarættarinnar eftir Gunnar Gunnarsson. Oddaflug eftir Guðrúnu Helgadóttur.