Hinn bandaríski Howard Stern er einn frægasti útvarpsmaður heims. Nú virðist margt stefna í að hann láti af störfum í lok ársins og setjist í helgan stein en það er þó ekki öruggt ennþá.
Stern hefur starfað í útvarpi síðan 1976 en hann er orðinn 71 árs gamall. Hann öðlaðist mikla frægð í Bandaríkjunum á níunda áratug síðustu aldar fyrir afar óhefluð efnistök en hann hikaði ekki við að meðal annars blóta og framkvæma ýmislegt djarflegt í þáttum sínum. Hann varð því afar umdeildur. Stern hefur stóran hluta ferils síns haft meðstjórnanda en það er kona að nafni Robin Quivers.
Frægð Stern barst síðan víðar um heiminn með tilkomu internetsins en ekki síður sjálfsævisögulegu kvikmyndinni Private Parts sem frumsýnd var 1997 en í henni lék Stern sjálfan sig.
Stern starfaði fram til 2005 á hefðbundum útvarpsstöðum sem sendu út í gegnum loftnet en þá flutti hann sig yfir til útvarpsrisans SiriusXM sem sendir út í gegnum gervihnetti og selur aðgang að stöðvum sínum í gegnum áskriftir en treystir ekki á auglýsingatekjur eins og fyrri vinnuveitendur Stern. Áhugasamir hlustendur í öðrum löndum hafa einnig getað hlustað og séð hluta úr þætti Stern á Youtube.
Á síðari árum hafa efnistök Stern mildast töluvert en hann er að mestu hættur djarflegum uppátækjum og orðaval hans er ekki eins óheflað og það var.
Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að útlit sé fyrir að SiriusXM muni ekki endurnýja samning sinn við Stern þegar hann rennur út í lok þessa árs.
Ljóst er að hlustendur Stern eru mun færri en þegar mest var á sínum tíma hlustuðu að meðaltali 20 milljón manna á þátt hans daglega en í dag eru daglegir hlustendur að meðaltali um 125.000.
New York Post ræðir við nokkra starfsmenn Stern sem segja að það liggi fyrir í hvað stefni. Starfslið Stern sé því að taka því nokkuð rólega á vinnutíma og sé margt farið að leita sér að nýjum verkefnum. Þeir segja handritshöfunda þáttarins hafa marga hverja ákveðið að geyma bestu brandarana sem þeim detti í hug til eigin nota eftir að útsendingu á þættinum verði hætt.
Starfsmennirnir segja að þeir viti að Stern muni setjast í helgan stein í árslok annað hvort að eigin frumkvæði eða þá að honum verði ýtt út af stjórnendum SiriusXM. Stern hafi sjálfur gefið það sterklega í skyn en það sé þó ekkert 100 prósent öruggt í þessum efnum enn sem komið er. Þeir segja að Stern hafi glatað eldmóði sínum og sé ekki nærri því jafn harðskeyttur og hann var. Hann taki t.d. á gestum sem komi í viðtöl til hans með silkihönskum. Hlustendur séu einfaldlega að missa áhugann og mörgum þeirra þyki hann vera farinn að halla sér of mikið til vinstri í stjórnmálum.
Það er ekki þó talið útilokað að Stern muni halda áfram í fjölmiðlum en snúa sér frá útvarpinu og að streymisveitum fyrir sjónvarp eins og t.d. Netflix eða HBO Max. Það er því ekki útilokað að þessi risi útvarpsins muni syngja sinn svanasöng á öðrum vettvangi.