Texti: Svala Magnea K. Ásdísarsdóttir
Hann sló heimsmet í líkamsbeygingum aðeins 12 ára og sá fyrir sér frama á alþjóðlegum vettvangi. Síðan dundu hörmungarnar yfir á Gaza og lífið fór að snúast um að lifa af. Æskuheimilið var sprengt, besti vinur hans lést, fjölskyldan lagðist á flótta og hefur þurft að færa sig um set oftar en einu sinni. En þrátt fyrir áföllin lifir Youssef Al-Bahtini fyrir það að hlúa að stríðshrjáðum börnum á Gaza og gefa þeim ástæðu til að halda í vonina á meðan að sprengjurnar dynja og enginn veit hver verður næsta fórnarlamb.
Ég heyrði fyrst af sögu Youssef þegar ég kynnsti eldri bróður hans, Mohammed, í Grikklandi þangað sem hann hafði flúið. Í gegnum samtöl okkar fór ég að heyra meira og meira um þennan óviðjafnanlega yngri bróður á Gaza og það var eitthvað við þessa samsuðu af afrekum, áföllum og ótrúlegri seiglu sem hreyfði við mér.
Sem sjálfstætt starfandi blaðamaður ákvað ég að kynnast sögunni og rannsaka hana nánar, og tók beint viðtal við Youssef. Hann hefur deilt með mér ótal ljósmyndum, myndskeiðum og hljóðbrotum sem sýna hvernig líf hans hefur breyst og hvernig hann heldur áfram að taka þátt í uppbyggilegu starfi með börnum, þrátt fyrir ógnina í kringum hann.
Youssef fæddist í mars 2005 á Gazaströndinni og ólst upp í líflegri og samheldinni palestínskri fjölskyldu. Frá unga aldri segist hann hafa tekið þátt í að hugsa vel um aðra í fjölskyldunni og að þessi eiginleiki hafi mótað viðbrögðin við grimmilegu stríði sem hefur verið viðloðandi á Gaza frá því að hann man eftir sér. Hann leyfði sér engu síður að eiga stórhugaða drauma á uppvaxtarárunum; að verða íþróttamaður á heimsmælikvarða og að byggja upp eigið skapandi fyrirtæki í skemmtigeiranum til að geta stutt fjölskylduna sína enn betur.
Eldri bróðir Youssef, Mohammed, var lengi vinsæll skemmtikraftur og söngvari á Gaza. Hann hvatti Youssef til að láta drauminn rætast um að keppa í líkamsbeygingum og varð á endanum umboðsmaðurinn hans. Saman æfðu þeir atriðin og skemmtu öðrum í leiðinni.
„Lífið mitt var æðislegt fyrir stríðið,“ segir hann. „Ég elskaði námið mitt, vini mína og tilfinninguna að ég væri að byggja upp eitthvað alvöru. Ég átti mér stóran draum sem var að útskrifast, stofna eigin rekstur og gera fjölskylduna mína stolta af mér.“
Youssef er með óvenjulega hæfileika, hann er með framúrskarandi líkamsstjórn og liðleika. Með þessa færni í farteskinu komst hann langt út fyrir landamæri Gaza og fyrir augu áhorfenda í bæði Líbanon og Egyptalandi í þekktum sjónvarpsþáttum á borð við „Arab got talent“. Hann varð meðal annars þekktur fyrir afburðahæfni í parkour – grein sem krefst mikillar hreyfigetu og fimleika.
Hér má sjá viðtal AFP-fréttastofunnar við Youssef þegar hann var 12 ára gamall.
Hann sló svo í gegn sjónvarpsþættinum Young Stars á MBC-stöðinni í Egyptalandi, þar sem hann framkvæmdi kollhnísahlaup, í erfiðri líkamsstellingu, yfir 20 metra á aðeins 13 sekúndum. Um var að ræða heimsmet sem Heimsmetabók Guinness staðfesti að lokum.
Afrekið færði honum bæði frægð og boð í afar vinsæla sjónvarpsþáttaröð í Miðausturlöndum, Arabs Got Talent, þar sem hann vakti hrifningu bæði dómnefndar og áhorfenda með framlaginu sínu. Youssef man ennþá eftir fögnuði áhorfenda.
„Þetta var mín stoltasta stund,“ segir hann. „Mér fannst eins og ég gæti loksins fengið að skína og að ég gæti borið fánann okkar og sýnt heiminum hvað við Palestínumenn getum gert.“
En aðeins nokkrum mánuðum síðar sló kínverskur fimleikamaður metið naumlega. Youssef var staðráðinn í að endurheimta metið’ en stríðið kom í veg fyrir það.
„Mér var boðið á Guinness-viðburðinn,“ segir hann. „En ég gat ekki farið. Vegna stríðsins og vegna lokaðra landamæra. Það eru alltaf einhverjar hindranir þegar maður kemur frá Gaza.“
Youssef segist vanur stríðinu á Gaza. Það hafi alltaf verið stríð frá því að hann man eftir sér og sérstaklega árið 2014 þegar rúmlega 2.200 íbúar á Gaza létust, af þeim voru um 900 fórnalambanna konur og börn samkvæmt opinberum tölum.
Þegar það var orðið ljóst að Youssef hafði takmarkað ferðafrelsi, sem meinaði honum að sækja viðburði erlendis, ákvað hann að snúa sér betur að náminu í University College of Applied Sciences á Gaza. Þó hélt hann áfram að æfa parkour og kenna krökkum þá list auk þess að bjóða upp á skemmtatriði á götum Gaza til að létta lund íbúanna.
Hinn örlagaríka dag, þann 7. október, var hann 18 ára og þurfti að flýja heimilið þegar árásir Ísraelsmanna hófst. Fjölskyldan var búsett á norðurhluta Gasa þar sem árásirnar dundu á óbreyttum borgurum af fullum þunga strax í upphafi. Ísraelsher varpaði samtals 6.000 sprengjum fyrstu vikuna eftir ódæðin þann 7. október og alls létust um 2.700 íbúar, af þeim voru að minnsta kosti 1.000 fórnarlambanna konur og börn, samkvæmt samantekt Sameinuðu þjóðanna og Amnesty International.
Háskólinn hans var sprengdur og fjölskylduheimilið eyðilagt. Hann sýnir myndbönd af íbúð á fyrstu hæð sem er í rúst og ekkert eftir nema sprengdir veggir. Framveggir byggingarinnar eru farnir. Fjölskyldan lagði á flótta og varð tilneydd að flýja ítrekað og færa sig sífellt um set, þangað til þau þurftu að lokum að hreiðra um sig í tjaldi í flóttamannabúðum, án hreins vatns og án öryggis, eða verndar gegn áföllunum.
„Allt er eyðilagt,“ segir Youssef. „Það er engin vinna. Enginn skóli. Það eina sem við getum gert er að reyna að lifa af.“
Í stað þess að loka hjartanu sínu fyrir áföllunum ákvað Youssef að beita sér að uppbyggilegu starfi með börnunum á Gaza. Eitt mesta áfallið varð þegar grunnskóli fyrir stúlkur á vegum Sameinuðu Þjóðanna var sprengdur og 40 manns létust. Hann sýnir mér ljósmynd af sjálfum sér ásamt nemendum skólans eftir vel heppnaða sýningu og segir að helmingur barnanna á myndinni séu ekki lengur á lífi. Þau hafi verið myrt í sprengjuódæðinu. Það var mikið áfall fyrir hann en hann varð hrærður af ótta og sorg barnanna, eftirlifendum loftárásanna, og mörg þeirra orðin munaðarlaus. Hann ákvað því ásamt nokkrum félögum sínum að stofna skemmtihóp fyrir börnin. Með því að skemmta börnunum með dansi og söng vildu þeir leggja sitt að mörkum til að létta þeim stundir á erfiðum tímum.
Hápunkturinn samkvæmt Youssef er þegar allir taka þátt í að dansa hefðbundinn palestínskan Dabke-þjóðdans, sem er partur af menningarlegri sjálfsmynd Gaza-búa.
„Það verður mikilvægt í þessum aðstæðum að halda arfleifðinni lifandi þegar allt er að eyðileggjast í kringum okkur og verið er að þurka menninguna út,“ segir hann.
En jafnvel þessar fallegu stundir eru ekki hættulausar.
„Það varð sprenging rétt við hliðina á okkur á einni af sýningum okkar,“ rifjar hann upp. „Óttinn í augum barnanna… ég reyndi að róa þau, að brosa. Jafnvel þegar við erum sjálf skelfingu lostin, reynum við að bregðast við af yfirvegun og reyna að veita þeim öryggistilfinningu.“
Launin hans eru táknræn og duga varla fyrir einni máltíð. En það sem hann gefur er dýrmætara en matur að hans mati. „Að uppskera hlátur, minningar og tilfinningu fyrir eðlilegu lífi“.
Til minningar um Abdel Moneim: Ljós sem lifir áfram
Að baki brosi Youssefs er þögul sorg og þungur hugur sem hann er lítið fyrir að vekja athygli á en hann opnar sig aðeins um vini sína sem hann er enn að syrgja.
„Ég missti marga af vinum mínum sem stóðu við hlið mér,“ segir hann. „Við vorum vanir að lina sársaukann saman.“
Einn þeirra var Abdel Moneim Suleiman sem Youssef lýsir sem sínum nánasta vin og sálufélaga. Youssef brotnar niður þegar hann minnist ljósmyndarinnar sem staðfesti dauða Abdels í ísraelskri loftárás.
„Hann var einn sá allra ljúfusti maður sem ég hef kynnst,“ segir Youssef. „Hann bar sársaukann minn með mér. Og nú… er hann farinn. Ég er mjög leiður yfir því að hann sé ekki lengur hér. En hann er kominn á mun betri stað núna“, segir hann þreytulegur.
Frá listamanni til boðbera
Í gegnum samfélagsmiðla hefur Youssef byrjað að segja sögu venjlegs fólks á Gaza og leyfir fylgjendum að fylgjast með daglegu lífi. Ekki með pólitískum aktivisma, heldur í gegnum hinn hráa veruleika um baráttu fólks fyrir lífinu á Gaza.
„Ég vil að heimurinn standi með okkur,“ segir hann. „Ekki bara með fjárveitingum heldur með hjörtum sínum. Deilið sögu okkar. Stöðvið þjóðarmorðin. Friður er ekki bara orð, friður er líka hreinn matur. Friður er hreint vatn. Friður er að þurfa ekki að vera hræddur við að deyja á hverri sekúndu.“
Draumarnir hans um íþróttamennsku og heimsmet eru víðs fjarri eins og stendur þótt hann æfi sig fyrir sýningarnar á ströndinni með sirkushópnum. Stundum geta þau ekki æft þegar hungursneyðin er of mikil og enginn borðað almennilega í marga daga. Hann segist fyrir löngu vera búinn að venjast sprengjunum hrista nærumhverfið og sætta sig við það að hans tími gæti komið hvenær sem er. Nýlega var hann staddur á kaffihúsi þegar sprengju sló skyndilega niður skammt frá. Hann segist varla hafa kippt sér upp við það.
Í dag starfar hann sem sjálfboðaliði fyrir hjálparsamtökin Human Appeal Australia, þar sem hann aðstoðar við matarúthlutanir til sveltandi fólks á norðurhluta Gaza og jafnvel eldar matinn sjálfur þegar. Myndskeið á Instagram-síðunni hans sýnir hann útbúa súpu frá grunni í fjórum risastórum pottum.
„Fimleikamaðurinn er ennþá einhversstaðar inni í mér,“ segir Youssef. „En nú er draumur minn einfaldur: að tryggja það að fjölskylda mín hafi stað til að sofa á með einhverskonar þaki yfir höfuðið, eitthvað að borða. Að fá börnin til að brosa. Og að lifa af.“
Síðustu orðin hans mannleg og hafin yfir ádeiluna sem ríkir á svæðinu.
„Við biðjum ykkur einlæglega að líta á okkur með miskunn.“