Matreiðslumeistarinn og sjónvarpsstjarnan Gordon Ramsay greindi frá því á Instagram fyrr í dag að hann hefði þurft að undirgangast skurðaðgerð vegna húðkrabbameins. Hann hvetur fólk til að passa að setja á sig sólarvörn.
Ramsay birtir mynd af örinu eftir aðgerðina en það er rétt undir öðru eyranum og meinið því greinilega myndast þar. Hann segir í færslunni að hann sé þakklátur teyminu sem gerði aðgerðina en hún var framkvæmd hjá einkafyrirtækinu The Skin Associates. Ramsay segist hafa verið greindur með þá gerð húðkrabbameins sem á ensku kallast Basal Cell Carcinoma en á íslensku kallast það grunnfrumukrabbamein og er algengasta gerð húðkrabbameins.
Sólarljós mun vera einn helsti áhættuþátturinn en um grunnfrumukrabbamein segir meðal annars á Vísindavef Háskóla Íslands að æxli myndist í dýpsta lagi yfirhúðarinnar (grunnfrumulaginu). Þetta séu æxli sem séu lítið illkynja því þau dreifi sér mjög sjaldan um líkamann og myndi þar með mjög sjaldan meinvörp og séu því á mörkum þess að uppfylla skilgreiningu illkynja æxlis.
Það virðist því sem að Ramsay hafi fengið vægustu gerð húðkrabbameins og ætti því að vera óhultur eftir aðgerðina. Hann minnir fólk að lokum á að nota sólarvörn og lofar að hann hafi ekki farið í andlitslyftingu enda myndi hann þá krefjast endurgreiðslu.
Í athugasemdum við færsluna eru Ramsay sendar batakveðjur og þakkað fyrir að greina frá þessu opinberlega og minna þannig á mikilvægi þess að passa sig á að setja sólarvörn á húðina og gera aðrar ráðstafanir til að verja hana fyrir útfjólubláum geislum sólarinnar.
Færslu Ramsay má sjá hér fyrir neðan en sjáist hún ekki er ráð að endurhlaða síðuna.
View this post on Instagram