Í þættinum segir hún frá fimm ára ofbeldissambandi sem hún var í þegar hún bjó í Berlín. Hún flutti til Íslands í fyrra og er nú í heilbrigðu og fallegu sambandi. Helena ákvað að stíga fram og segja sína sögu því andlegt ofbeldi er gjarnan falið og mikil skömm í kringum það, en hún er ákveðin að skila skömminni og vekja athygli á einkennum andlegs ofbeldis.
Í spilaranum hér að neðan ræðir Helena um augnablikið þegar hún ákvað að fara frá honum. Þáttinn í heild sinni má horfa, eða lesa nánar um, hér.Einnig er hægt að hlusta á Spotify.
Hvenær áttaðir þú þig á því að þú þyrftir að fara frá honum?
„Ég varð þrítug í fyrra og fólk talar um að það fær svona: „Vó, ég er orðin svo gömul.“ Mér fannst það ekki […] en það sem ég fann var að ég var ekki á réttum stað miðað við að ég væri orðin þrítug. Og ég var: „Ókei, hmm, ég er búin að upplifa rosa þyngsli, mér er ekki búið að líða vel í mörg ár og ég er þrítug.“ Mér leið eins og mér ætti ekki að líða svoleiðis.“
Helena ákvað að leita meira í fjölskylduna og fara oftar til Íslands.
„Ég fann að ég þurfti einhverja tengingu við Ísland. Svo kom ég heim, amma átti níræðisafmæli og ég var bara ein. Hann vildi eiginlega aldrei koma heim. En svo hringdi hann óvart í mig á FaceTime á meðan hann var að halda framhjá mér, svona pocket dial,“ segir Helena.
„Ég fann bara hvað ég var með lítil viðbrögð við þessu, því þetta hafði svo oft gerst áður. Við vorum búin að vera í pararáðgjöf svo ég myndi geta verið ókei með framhjáhald.“ Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem hún komst að því að hann hafði verið henni ótrúr. En Helena fann að í þetta skipti var eitthvað öðruvísi.
„Ég gat ekki litið framhjá þessu, þetta var bara in my face. Hann var líka orðinn kærulaus, hann var ekkert að passa sig. Þetta var svo mikil vanvirðing.“
Hann skellti á Helenu þegar hann fattaði hvað hafði gerst. „Hann gaslýsti mig svo mikið. Hann hringdi í mig aftur á FaceTime og sagðist vera heima. Og ég bara: „Ég er að horfa á skjáinn, ég sé bakgrunninn þinn, ég sé að þú ert ekki heima. Hvað meinarðu? Ég sé það, þú ert í video call.“ En hann hélt því fram að hann væri heima.“
Þarna sagði Helena honum að hún væri hætt með honum og að hún ætlaði að fljúga til Berlínar, pakka saman dótinu sínu og flytja aftur til Íslands.
„Það var eins og hulunni hafi verið lyft af mér á þessu augnabliki. Mér leið eins og ég sá allt í einu raunveruleikann öðruvísi. Ég sá hann í öðru ljósi, ég sá allt í öðru ljósi. Þetta var eiginlega of sárt í augnablikinu,“ segir hún.
Helena fór til Berlínar en þá tók við meiri gaslýsing og ofbeldi. Mamma hennar kom út til að hjálpa henni að flytja heim til Íslands.
„Hún bjargaði lífi mínu, bókstaflega,“ segir hún.
Helena ræðir þetta tímabil nánar í spilaranum hér að ofan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify.
Fylgdu Helenu á Instagram og TikTok.
Á SjúkÁst.is kemur fram: Andlegt ofbeldi felur í sér hótanir, niðurlægingu, óvelkomið og yfirþyrmandi eftirlit svo sem með endalausum skilaboðum, auðmýkingu, ógnun, einangrun og/eða ofsóknum.
Andlegt ofbeldi getur birst á til dæmis eftirfarandi máta:
Þolendur geta leitað sér hjálpar og alltaf er betra að segja einhverjum frá og fá hjálp. Ef þú vilt fá aðstoð getur þú haft samband við Bjarkarhlíð í Reykjavík eða Bjarmahlíð á Akureyri sem sérhæfa sig í stuðningi fyrir fullorðin sem hafa orðið fyrir einhvers konar ofbeldi. Það skiptir engu máli hve langt er síðan ofbeldið átti sér stað. Börn og fullorðin geta alltaf talað við einhvern hjá 1717 (hjálparsíma Rauða krossins) eða haft samband við 112 gegnum síma eða netspjall.