Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, fjallar í sínum nýjasta pistli á Facebook um gaslýsingu og áhrif hennar á þolendur. Hún tekur einnig dæmi um frasa sem gerendur nota til að gaslýsa aðra.
„Gaslýsing er mest skemmandi útgáfa af tilfinningalegu ofbeldi. Þolandi gaslýsingar verður ruglaður í ríminu, efast um eigin upplifanir, tilfinningar og minningar, jafnvel eigin geðheilsu. Markmiðið er að stýra, stjórna og smætta þolandann.
Gaslýsendur nota ákveðna frasa til að búa til sínar eigin söguskýringar,“ segir Ragga og gefur dæmi:
„Það gerðist aldrei.“
„Allir eru sammála mér.“
„Þú ert að misskilja.“
„Þú ert alltaf svo dramatísk.“
„Þú ert svo viðkvæmur. Díses, reyndu að komast yfir þetta.“
„Ég var bara að djóka… má bara ekkert segja við þig.“
„Nú ertu að bregðast alltof harkalega við enn og aftur.“
„Þú ert greinilega ekki í jafnvægi, ættir að leita þér hjálpar.”
„Að skýla sér bak við brandara eins og ferðamaður í norðanátt í strætóskýli er normalísering á gaslýsingu.
Að planta fræjum um efasemdir um eigin geðheilsu er stjórnunartæki ofbeldis.
Að telja þér trú um að annað hafi verið sagt eða gert er sögufölsun í hag gaslýsandans.
Gaslýsing telur þér trú um að þínar tilfinningar og viðbrögð séu vandamálið, en ekki hegðun og framkoma gaslýsandans.”
Segir Ragga að besta ráðið sé að standa fast á sínu og treysta á að fyrstu viðbrögð séu eðlileg og rétt.
„Ég er ekki að hlægja, því mér finnst þetta ekki fyndið.”
„Ég hef rétt á að bregðast svona við þegar mér finnst að mér vegið.”
„Ég vil að þú virðir mín viðbrögð, þau eru ekki dramatísk að mínu mati.”
„Ég vil ekki að þú grínist á þennan hátt við mig aftur.”
„Ég vil eiga samskipti sem byggjast á gagnkvæmri virðingu.”
„Ég man þetta öðruvísi en þú.”
„Við erum greinilega ósammála um hvað gerðist.”
„Þó allir séu sammála þér, þýðir ekki að mín skoðun eigi ekki rétt á sér.”
„Ekki segja mér hvernig mér á að líða með þetta.”
Ragga bendir á að gaslýsingar geta gerst í öllum samböndum, ekki bara ástarsamböndum.
„Foreldrar geta gaslýst þig.
Vinir geta gaslýst þig.
Systkini þín geta gaslýst þig.
Yfirmaður getur gaslýst þig.
Samstarfsfélagi getur gaslýst þig.
Hefur þú lent í gaslýsingu?”