

Pistlar Ragnhildur Þórðardóttir sálfræðings, betur þekkt sem Ragga nagli, sem skrifaðir eru á mannamáli njóta mikilla vinsælda á Facebook-síðu hennar. Í þeim nýjasta fjallar Ragga um prótín sem er mikilvægt orkuefni fyrir líkamann og heilsusamlegt mataræði.
„Lítil eyru eru alltaf að hlusta. Lítil augu eru alltaf að horfa. Þau eru stöðugt að taka inn upplýsingar til að byggja upp líkamsímynd sína.“
Bendir Ragga á að rannsóknir sýna að hvernig mæður og systur tala um eigin líkama og líkama annarra hefur sterkustu áhrif á líkamsímynd ungra stúlkna.
„25% stúlkna á aldrinum 11-12 ára segjast logandi hræddar við að bæta á sig þyngd.
Stúlkurnar í rannsókninni skoðuðu myndir af konum í mismunandi þyngd, og 30% fannst eftirsóttur líkamsvöxtur vera konur talsvert undir kjörþyngd (BMI 16.5-18).
Rannsóknir sýna að börn allt niður í 12 ára innleiða boð og bönn í mataræði, flokka mat sem „af hinu illa” og „af hinu góða” og líkurnar á átröskun margfaldast eins og maurar á hálfétinni samloku.
Dæmi er um að börn allt niður í 7 ára séu farin að velta fyrir sér hvernig þau líta út, og gera æfingar í fegurðarskyni.
Eitt er að stunda íþróttir en það er allt annar handleggur þegar hreyfing 12 ára barna er gerð í fegrunarbætandi tilgangi og speglaæfingar stundaðar til hins ítrasta. Ein rannsókn skoðaði hversu margar ungar stúlkur upplifa hræðslu við að fitna.“
Ragga segir niðurstöðurnar sláandi, sjokkerandi og óþægilegar.
Bendir hún á að börn með neikvæða líkamsímynd eru óörugg, útsettari fyrir kvíða, depurð og einangra sig félagslega. Ef við tölum neikvætt um líkama annarra heimavið verða börn hrædd við að líkamar þeirra breytist, því þá sé talað neikvætt um þau í öðrum húsum.
„Ef við reisum níðstöng um eigin spegilmynd og gubbum út ljótum setningum á innsoginu innrætir það „ekki-nóguna“ hjá börnum því líkaminn sé ómögulegur.
„ojj sjá þessa bingóvængi“
„þetta nef er eins og Holmenkollen“
„múffutoppurinn gubbast yfir gallabuxnastrenginn“
„feitabolla“

„Að agnúast í spegilinn yfir þínum líkamspörtum innrætir hjá börnum neikvæðan fókus á þessi sömu svæði á þeirra eigin líkama, og áhyggjur að þau líti ekki nógu vel út.
Ef við heilsum alltaf öðru fólki með að hrósa útliti kennum við litlum sálum að virðið liggi í líkamlegri hollningu, og og samþykki samfélags liggi í fallegum orðum um skrokk.
Athugasemdir, jákvæðar eða neikvæðar, um þeirra eigin líkama getur gert þau ofurupptekin af útliti og líkama til að sækjast í samþykki og viðurkenningu, og forðast gagnrýni. Hræðsla hríslast um litla sál við að valda vonbrigðum ef líkaminn þeirra breytist.
Það býr oft til mjög neikvætt óheilbrigt samband við mat og æfingar til að viðhalda útliti af hræðslu við að hrósið hætti.
Veggirnir hafa eyru þegar við tölum um líkama, útlit, mataræði.
Okkar eigin og annarra.
Þessi eyru hafa minni fílsins þegar kemur að athugasemdum um þeirra eigið útlit.
Athugasemdir sem móta líkamsmyndina sem situr í sálinni næstu ár og áratugi.
Að sýna barninu þínu heilbrigt samband við mat og líkamann er mikilvægasta veganestið sem þú gefur barninu þínu.“