fbpx
Þriðjudagur 16.desember 2025
Fókus

„Ég er oft spurður að því hvernig ég fari að því að láta hestana elta mig“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 15. desember 2025 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjá bókaútgáfunni Hólum er komin út bókin Með frelsi í faxins hvin – Riðið í strauminn með Hermanni Árnasyni .

Bókin segir frá Hermanni Árnasyni frá Vík og Hvolsvelli sem hefur stundað hestamennsku  frá blautu barnsbeini. Tamning hrossa og hestaferðir hafa verið hugsjón hans alla tíð og með ólíkindum eru sum viðfangsefni hans á því sviði eins og Vatnareiðin 2009. Þá reið Hermann ásamt félögum sínum yfir allar ár sem á vegi þeirra urðu frá Höfn í Hornafirði og vestur fyrir Hvítá. Fjallað er um Stjörnureiðina svokölluðu sem Hermann skipti í tvo 40 daga leiðangra árin 2016 og 2018 þvers og kruss yfir landið.

Þá segir frá Flosareiðinni árið 2016 þegar Hermann ásamt tveimur félögum sínum riðu í spor Flosa og brennumanna frá Svínafelli í Öræfum að Þríhyrningshálsum í því skyni að sannreyna frásögn Njálssögu.

Hermann hefur ekki vílað fyrir sér að ferðast einn um langan veg með 30-40 hross í halarófu á eftir sér.

Í bókinni er jafnframt fjallað um þá hlið á hestamennsku Hermanns er lýtur að uppeldi og þjálfun hrossanna, umgengni hans við þau og hvers konar meðhöndlun.

Um 230 mannanöfn  koma fyrir í bókinni og birtar eru yfir 300 myndir auk korta af helstu leiðum sem sagt er frá.

Höfundur bókarinnar, Hjalti Jón Sveinsson, var ritstjóri tímaritanna Hestsins okkar og Eiðfaxa um árabil og hefur skrifað nokkrar bækur um hesta og hestamennsku, þar á meðal verkið Íslenski hesturinn ásamt Gísla B. Björnssyni.

Hér er birtur stuttur útdráttur úr kaflanum Hestafræði Hermanns þar sem hann fjallar um ferðahestinn.

Ferðahesturinn

Til þess að geta stundað ferðalög á hrossum um fjöll og firnindi sumarlangt hundruð kílómetra, jafnvel þúsundir og oft á krefjandi dagleiðum, þarf að vanda vel til hestakosts, þjálfunar hans og atlætis. Stundum eru allt að 40 hross með í för.

Hrossin gangi vel undir knapanum

Ég hef þurft að eiga mörg hross sjálfur til þess að geta sinnt þeim verkefnum sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Þegar ég starfaði með Eldhestum útvegaði ég hross fyrir stórar ferðir hjá þeim.  Ég var því með um 40 – 60 hross á tímabili en núna eru þau orðin umtalsvert færri. Ég geri miklar kröfur til hrossanna, sem þurfa að vera öflug.

Mér finnst mikilvægt að hrossin séu spök og góð í umgengni, meðfærileg og ganggóð. Ég ríð ekki mikið brokk á ferðalögum, hrossin eiga bara að brokka undir sjálfum sér. Ég vil að þau gangi vel á tölti undir knapanum. Ég hef haldið því fram lengi að það fari ekki endilega vel með hrossin að þeim sé riðið mikið á brokki, einkum ekki fyrir bakið. Ég tel það fara miklu betur með þau að tölta ef þau eru eðlisgeng. Það er auðvitað gott að breyta aðeins til og leyfa þeim að grípa brokk öðru hverju.

Bestu hestarnir eru að mínum dómi eðlisgengir og  sjálfberandi gæðingar sem maður gengur að úti í haganum. Þú ferð á bak og hesturinn er bara þarna, eða þar sem þú skildir við hann síðast. Þannig er Árdís, uppáhaldshryssan okkar. Ég hef notað hana mikið í ferðum mínum og hef því ekki tímt að halda henni síðustu árin vegna þess hversu góð hún er.

Fljót að komast í þjálfun

Íslenski hrossastofninn er orðinn svo þaulræktaður. Hreinum  klárhrossum hefur fækkað og ekki síður skeiðlullurum eins og þeir voru kallaðir. Þegar ég fæ hópa til mín af fólki á eigin hestum, er það gegnumgangandi orðið vel ríðandi. Þetta hefur breyst á tiltölulega fáum árum. Ég tel reyndar að flest hross geti orðið góð ferðahross með réttri þjálfun. Svo eru alltaf einhverjir gripir sem bera af og  geta hreinlega verið tveggja til þriggja hesta makar. Þú uppgötvar þetta ekki fyrr en þú ert farinn að láta reyna verulega á hrossin. Þau virðast aldrei þreytast og eru alltaf jafngóð og batna bara þegar líður á ferðina. En svona verða hross ekki nema þau séu býsna mikið brúkuð og þjálfuð.

Þegar maður er með hópa af fólki í hestaferðum ríðum við stundum talsvert lengri áfanga en það á að venjast. Þá kemur það eigendunum oft á óvart hvernig sum hrossin þróast og eflast í ferðinni. Sumir verða alveg steinhissa þegar þeir finna að hesturinn sækir æ meira í sig veðrið með hverjum deginum sem líður. Fyrir kemur að sumir hestar séu ekki nægilega vel búnir undir ferðir af þessu tagi og kemur það kannski í ljós á öðrum eða þriðja degi. Ég er yfirleitt það vel hestaður að ég get þá hlaupið undir bagga og skotið öðrum hesti undir viðkomandi knapa. En hross, sem hefur verið riðið þokkalega mikið yfir veturinn, eru fljót að komast í þjálfun þegar á hólminn er komið; það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart.

Mikið hágeng hross eru ekki endilega hentug til ferðalaga. Þau þurfa mörg sérstaka þjálfun bara til þess að halda jafnvægi. Svo þarf að gæta þess að þau ofgeri sér ekki. Ég legg því ekki mikið upp úr háum fótaburði.

Skipta oft um hest

Ég tel mig aldrei brýna það um of fyrir samferðafólki mínu hversu mikilvægt það er að stoppa nógu oft og skipta um hest þó svo að okkur finnist hesturinn, sem við sitjum á í það og það skiptið, eiga mikið inni. Ef einhver finnur að hesturinn er farinn að linast og virðist þreyttur er ekkert mál að æja smástund og taka annan hest í staðinn.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að svona karlar eins og ég, hávaxnir og svolítið þungir, þurfum að ætla okkur fleiri hesta og duglegri en þeir reiðmenn sem eru léttari.  Þegar fólk í áningu metur aðstæður þannig að óhætt sé að ríða hestinum einn áfanga til viðbótar, leyfi ég mér stundum að skipta mér af. Betra sé að skipta og leyfa hrossinu að eiga eitthvað inni, kannski síðar um daginn eða þann næsta.

Við erum oftast með laus hross í rekstri og það er ekki vandamál þegar við æjum. Hrossin venjast því að lína sé dregin utan um þau. Eftir að skotlínurnar komu til sögunnar er þetta enn þá minna mál, fólk er bara með þær í vasanum. Hver og einn knapi tekur sér stöðu og á andartaki eru hrossin komin í aðhald.

Gamli skólinn hefur virkað vel

Gamli skólinn hefur virkað vel. Ég brýni það fyrir fólki, áður en við leggjum af stað í ferðalag, að ég kjósi að æja mjög fljótt til þess að gefa hestunum kost á að míga og taka aðeins niður. Þetta var grundvallarregla hjá Bergi í Steinum og ég hef líka lært þetta af reynslunni.  Melting hestsins er viðkvæm en með þessu móti minnkar hættan á hrossasótt og öðrum  meltingarkvillum. Það getur því komið sér vel að leggja snemma af stað á morgnana til þess að hafa gott svigrúm yfir daginn og vera ekki að flýta sér í náttstað.

Fljót að læra að vera fyrir aftan

Ég tem og þjálfa hrossin mín þannig á veturna að ég kappkosta að fara í góða túra með þau þó að ég ríði þeim líka við hús. Ég bæði teymi ungu hrossin og teymi á þeim. Ég er þá kannski með fimm eða sex og teymi kippuna af stað. Svo fer ég að sleppa kannski einu og einu og áður en ég veit af eru þau öll orðin laus og elta mig bara. Ég reyni að halda aga á þeim og leyfi þeim ekki að fara fram úr, þau læra það fljótt. Ég er alltaf með hvíta prikið mitt sem þau hafa lært að bera virðingu fyrir.

Vilja að ég sé á undan

Ég er oft spurður að því hvernig ég fari að því að láta hestana elta mig. Ég áttaði mig ekki alveg á því strax en það sem skiptir máli er umbunin og að hestarnir hafi gaman af þessu. Maður þarf að gæta þess að ofgera þeim ekki og vera duglegur að stoppa eða æja á stöðum þar sem gott gras er að finna og hrossin hafa gaman af því að grípa niður. Þetta getur líka komið í veg fyrir hrossasótt. Þau launa manni slíkt og eru fljót að bregðast við og halda áfram þegar þau sjá að fararsnið er komið á mig.

Á vorin byrja ég að þjálfa hrossin síðast í maí eða byrjun júní. Þá er ég búinn að koma þeim á járn og farinn að þvælast með þau í snarpa og stutta túra fyrst.  Núna er ég með þau í  Hlíð undir Steinafjalli. Þá ríð ég þeim á tveimur kvöldum eða tveimur morgnum heim á Hvolsvöll. Mér þykir best að leggja af stað jafnvel klukkan þrjú til fjögur að morgni og er þá á ferðinni fram undir átta. Þá er ég líka að mestu laus við bílaumferðina á þjóðvegi 1.

Hlaupa allt að 3500 km á sumri

Venjulegt sumar hjá mér á síðustu árum hefur verið um 1500 kílómetrar, þetta eru því talsverð hlaup ef hrossin eru með mér allan tímann. Sumarið 2018 reið ég 3500 kílómetra þegar allt var talið og 2023 voru þetta um 2000 kílómetrar. Hrossin fá náttúrulegu þjálfun með þessu móti. Það kemur varla fyrir að hross heltist hjá mér í ferð, nema þá sjaldan ef verða einhver slys, sem getur alltaf gerst.

Hvíta prikið

Hvíta  prikið er bútur úr plasti, sem sjórak í Vík, og gæti verið afsagað af fiskiborði. Ég fann það á fjöru þegar ég var að temja í Vík árið 1985. Ég hef ekki þurft annað keyri síðan. Ég týndi því reyndar einu sinni þegar ég var í fjallferð með Landmönnum, uppi á Dyngjum, norðan við Löðmund. Ég varð hálfvængbrotinn. Ég taldi mig vita nokkurn veginn hvar þetta hefði gerst. Í ágúst árið eftir vorum við Sigga þarna á ferðinni og gengum úr Laufdalnum og upp á Dyngjur. Þá gengum við beint fram á prikið.

Hrossin sjá hvíta prikið mjög vel. Lengi hafði ég það þannig að ef hestur fór fram úr, reyndi ég að dangla í hann og helst vildi ég komast fram fyrir hann. Ég komst síðar að því að ef maður kemur bara aðeins við afturendann á þeim, þegar þeir ætla að strekkja fram úr, finnst þeim það ekki gott og þeir snúa til baka. Hrossin eru fljót að læra að þetta er ekki spennandi.

Þegar ég fæ nýja hópa með mér í ferðir þarf ég oft að byrja á að temja hrossin þeirra hvað þetta varðar. Ég segi við fólkið að það verði að fyrirgefa mér þó að ég dangli aðeins í þau. Þegar maður er með rekstur er mikilvægt að hrossin haldi sig fyrir aftan fólkið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Ný rannsókn bendir til heilsufarsáhættu af húðflúrum – Blekið gerir ónæmiskerfinu engan greiða

Ný rannsókn bendir til heilsufarsáhættu af húðflúrum – Blekið gerir ónæmiskerfinu engan greiða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ánægð með að bróðir hennar sé líffræðilegur faðir sonarins

Ánægð með að bróðir hennar sé líffræðilegur faðir sonarins
Fókus
Fyrir 3 dögum

Líkaminn setti Önnu í skammarkrók – „Svo slæmt að ég komst ekki fram úr rúminu“

Líkaminn setti Önnu í skammarkrók – „Svo slæmt að ég komst ekki fram úr rúminu“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ísfólkið hefur oft verið talað niður og kallaðar „húsmæðraklám““

„Ísfólkið hefur oft verið talað niður og kallaðar „húsmæðraklám““
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kommentakerfi Jerusalem Post logar eftir Eurovision-ákvörðun Íslendinga

Kommentakerfi Jerusalem Post logar eftir Eurovision-ákvörðun Íslendinga
Fókus
Fyrir 5 dögum

Dagbjört deilir áhrifaríku ráði fyrir jólin en eflaust flestir ekki tilbúnir að taka því

Dagbjört deilir áhrifaríku ráði fyrir jólin en eflaust flestir ekki tilbúnir að taka því
Fókus
Fyrir 6 dögum

Einstaklega falleg íbúð til sölu á Hverfisgötu

Einstaklega falleg íbúð til sölu á Hverfisgötu
Fókus
Fyrir 6 dögum

Leikarinn hefur misst yfir 75 kíló – Þetta borðar hann til að viðhalda þyngdartapinu

Leikarinn hefur misst yfir 75 kíló – Þetta borðar hann til að viðhalda þyngdartapinu