

Leikarinn Charlie Sheen er sagður eiga kærasta. Frá þessu greinir slúðurblaðamaðurinn Rob Shuter á Substack-síðu sinni. Hefur Shuter það eftir heimildum sínum að Charlie Sheen sé á föstu með yngri karlmanni og sé að gera sitt besta til að halda sambandinu utan sviðsljóssins.
Kærastinn hefur ekki verið nafngreindur en tekið er fram að hann tengist ekki skemmtanabransanum með nokkrum hætti. Hefur Shuter það eftir ónefndum vini Sheen til margra ára að leikarinn sé hamingjusamur. Sambandið hafi fært honum frið og öryggi. „Charlie ljómar. Hann er rólegri, með betri jarðtengingu og er í alvöru hamingjusamur.“
Sheen er sagður hafa kynnst nýja manninum í gegnum sameiginlega vini í sumar. Sheen heillaðist af því að kærastinn er bara venjulegur gaur, hvorki leikari né frægur heldur bara með venjulega hversdagslega vinnu.
„Þeir elda saman, horfa á gamlar myndir – þetta er krúttlegt og mjög heilbrigt.“
Heimildarmaðurinn tekur fram að leikarinn sé ekki að fela sambandið, hann sé hreinlega að vernda það frá sviðsljósinu.
Leikarinn gaf nýlega út endurminningar sínar ásamt heimildarmynd á Netflix og opnaði sig þar um ástarlíf sitt. Hann væri tvífráskilinn og hefði verið einhleypur árum saman. Hann sagðist þó vera opinn fyrir því að finna ástina aftur. Eins opnaði hann sig í fyrsta sinn um að hann hefði stundum átt í kynferðislegum samskiptum við aðra karlmenn og tók fram að það væri frelsandi að geta loksins rætt þetta opinberlega.