

Elísabet Thoroddsen rithöfundur og kvikmyndagerðarkona gaf út sína fyrstu bók Allt er svart í myrkrinu árið 2022, sem er spennusaga fyrir börn og unglinga. Bókin fékk tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar. Bækurnar Á eftir dimmum skýjum og Undir sjöunda þili fylgdu í kjölfarið og í ár kom bókin Rugluskógur út, myndlýst ævintýrasaga fyrir börn.
Elísabet er í hljómsveitunum Mamma þín (ekki Mammaðín) og Ukulellur en hún hefur skrifað fjölmarga lagatexta fyrir báðar sveitirnar. Um þessar mundir er hljómsveitin Ukulellur að undirbúa sig fyrir næsta viðburð, en þær verða með opna æfingu með jólalegu ívafi þann 13. desember í Ægi 220. Þar ætla þær að spila nokkur lög um hinseginleikann, lesbískar ástir, breytingaskeiðið, jólin og allt þar á milli.
Elísabet er lesandi DV.
Ég er yfirleitt með margar bækur í takinu hverju sinni. Akkúrat núna er ég að lesa Lausaletur eftir Þórdísi Helgadóttur, hún lofar góðu og svo er ég með bókina Eins og gengur eftir Theodóru Thoroddsen á náttborðinu. Mig hefur langað í hana lengi og rakst á hana fyrir tilviljun í fornbókabúð á Akureyri um daginn. Þetta eru smásögur sem ég spara af því að ég tími ekki að klára bókina strax, les bara eina og eina sögu og smjatta aðeins á þeim. Aðrar bækur á náttborðinu eru Draugamandarínur eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur og Veðurfregnir og jarðarfarir eftir Maó Alheimsdóttur.

Síðasta bók sem ég kláraði er Sólgos eftir Arndísi Þórarinsdóttur og ég er yfir mig hrifin. Það er svo fallegt hvernig Arndís skrifar um veruleika unglings í ómögulegum aðstæðum á hversdagslegan hátt. Þessi bók er djúp, hræðileg og ofboðslega falleg.

Ekki sem ég man eftir en ég er oftast með margar bækur í gangi í einu og sumar bara fjara út og gleymast ef áhuginn er ekki nógu mikill. Það er reyndar ein bók sem ég er hálfnuð með og ætlaði fyrst ekki að nenna að lesa. Það er bókin Tímaráðuneytið eftir Kaliane Bradley. Akkúrat þegar ég var um það bil hálfnuð, orðin dálítið spennt og dottin inn í söguþráðinn var töskunni minni stolið, með bókinni í. Ég viðurkenni að ég er ennþá smá pirruð yfir að hafa ekki fengið að klára bókina áður en þjófurinn fékk hana.

Mér finnst gott að hlusta á hljóðbók þegar ég þarf að gera eitthvað leiðinlegt eins og að þrífa eða brjóta saman þvott, en mér finnst langbest að lesa þegar ég gef mér tíma til að leggjast í sófann og fletta blaðsíðum, þá skiptir engu máli hvað klukkan er.
Ég á minningu af mömmu að lesa Tótu Tætubusku fyrir mig og man að hrynjandinn og rímið höfðu áhrif á mig. Hún las líka Palli var einn í heiminum sem ég lifði mig mjög inn í. Ég öfundaði Palla af því að fá að valsa aleinn um bæinn og borða allt nammið og ganga á grasinu þrátt fyrir að það væri stranglega bannað. Svo á ég óljósa minningu af bók sem ég held að hafi fjallað um tígrisdýr og póstþjónustu. Ég man ekki alveg söguþráðinn en þessi bók kveikti hjá mér draum um að fara til Panama. Ég á það enn eftir og veit ekkert hvað ég ætla að gera þar.

Það eru svo margar bækur sem ég hlakka til að lesa og finnst erfitt að finna tíma fyrir þær allar, sérstaklega núna þegar jólabókaflóðið er í hámarki. Ég er mjög spennt að lesa Sjáanda eftir Ester Hilmarsdóttur og Þú sem ert á jörðu eftir Nínu Ólafsdóttur. Svo er Silfurgengið eftir Brynhildi Þórarinsdóttur næst á dagskrá, mér skilst að hún sé mjög góð.

Það er ekki oft sem ég les bækur aftur, aðallega vegna þess að leslistinn er svo langur og mér finnst ég ekki hafa nægan tíma til að komast yfir það sem mig langar að lesa. En það er hefð hjá mér (eins og mörgum öðrum) að lesa Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson í aðventunni þannig að ég hef lesið hana nokkuð oft. Svo leita ég dálítið í þjóðsögurnar í skammdeginu og get alltaf fundið eitthvað nýtt í þeim. Annars eru uppáhalds bækur mjög breytilegt hugtak hjá mér, sérstaklega af því að ég er svo fljót að gleyma. Uppáhalds er bara æðið sem ég er með í dag og eitthvað allt annað á morgun.

Ég á marga uppáhalds höfunda og það breytist dag frá degi, en ég verð alltaf spennt þegar Júlía Margrét gefur út bók. Það er eitthvað í hennar skrifum sem talar til mín, eitthvað extra sem ég er mjög hrifin af. Svo veit ég fátt betra en þegar Kristín Ómarsdóttir les upp ljóðin sín, þau eru í sérstöku uppáhaldi. Bergrún Íris Sævarsdóttir er líka í miklu uppáhaldi hjá mér en það er alltaf eitthvað nýtt og spennandi að lesa frá henni. Ég skil ekki hvernig hún fer að með allar þessar bækur á hverju einasta ári!
Ég las Stone Butch Blues eftir Leslie Feinberg á árinu. Bókin fjallar um butch lesbíu í New York á seinni hluta 20. aldar og þeirri útskúfun og ofbeldi sem hún varð fyrir í tengslum við sína kynhneigð og kyntjáningu. Bókin byggir á raunverulegum atburðum og hvernig það var að passa ekki inn í kynjatvíhyggjuna sem ríkti þá (reyndar ríkir hún enn og það virðist því miður alveg ómögulegt að losna undan henni). Bókin er þung og það er mikil grimmd í henni, en líka ákveðin heilun og von. Þessi bók hafði djúpstæð áhrif á mig og ég hugsa reglulega um hana.

Stone Butch Blues! Svo myndi ég alltaf mæla með því að lesa það sem vekur áhuga, hvort sem það eru krimmar, ljóð, Andrésblöð eða eitthvað allt annað. Mér finnst reyndar almennt að fullorðið fólk ætti að lesa fleiri barna- og unglingabækur, það er oft einhver leikur í þeim sem á það til að gleymast í daglegu amstri og líka dýpt. Ég myndi til dæmis mæla með Langelstur bókunum eftir Bergrúnu Írisi, þær eru í miklu uppáhaldi hjá mér og núna er Sólgos eftir Arndísi komin í uppáhalds-hilluna.
