
Linda Sæberg hefur undanfarin ár gengið í gegnum dimma dali en með aðdáunarverðum hætti tekist að finna ljósið. Hún er gestur vikunnar í Fókus, viðtalsþætti DV, þar sem hún opnar sig um baráttuna við brjóstakrabbamein, áfallasögu sem mótaði líf hennar í tvo áratugi og þá djúpu umbreytingu sem hún gekk í gegnum þegar hún fann styrk í andlegum málum og spiritúalisma. Í dag talar hún opinskátt um óttann, vonina, bataferlið og nýtt líf – sem leiddi hana að ástinni, fjölskyldu og draumaheimili sem hún segir að alheimurinn hafi fært henni þegar hún var loksins tilbúin.
Hlustaðu á þáttinn á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Textabrot úr þættinum má lesa hér að neðan þar sem hún talar um krabbameinsgreininguna þegar hún var 36 ára. Það var þremur dögum fyrir jól og heima voru tvö börn sem biðu hennar.
Linda greindist með brjóstakrabbamein 36 ára gömul í lok árs 2018, en það er ekki byrjað að skima fyrr en þegar konur verða fertugar.
„Ég fann litla perlu svona utan á brjóstinu á mér. Ég var eitthvað að teygja hendina upp í loftið og var eitthvað að fikta í brjóstinu á mér og fann þá bara svona perlu á stærð við nöglina á litla putta,“ segir Linda.
Hún segir að hennar fyrsta hugsun hafi ekki verið krabbamein. „Ég var ekki viss. Fyrst og fremst var ég ekki viss hvort þetta hefði verið þarna áður eða hvort þetta ætti að vera þarna. Ég átti eins og hálfs árs gamalt barn á þessum tíma og ég var að pæla hvort þetta væri einhver blaðra eða eitthvað,“ segir hún.
Linda þurfti að hafa mikið fyrir því að koma ferlinu af stað en um leið og boltinn byrjaði að rúlla þá gerðist það hratt.
„Á einhverjum tveimur vikum var ég búin að fara í allar rannsóknir og það kom í ljós að þetta væri þríneikvætt brjóstakrabbamein,“ segir hún.
Áður en hún fékk greininguna gat hún hvorki sofið né borðað. Fólk reyndi að hughreysta hana um að þetta væri örugglega bara stíflaður fitukirtill en hún vissi að þetta væri eitthvað meira, hún fann það á sér. „Ég vissi að þetta væri eitthvað annað,“ segir hún.

Linda fékk greininguna þremur dögum fyrir jól. Á þeim tíma átti hún tvö börn, tólf ára dóttur og eins og hálfs árs son.
„Ég fór beint heim eftir að hafa fengið þessar niðurstöður og hringdi í foreldra mína og systur mína. Ég sagði líka dóttur minni frá. Sem betur fer var það planað að foreldar mínir væru að koma til mín þessi jól.“ Á þessum tíma bjó Linda úti á landi.
Linda segist lítið sem ekkert muna eftir jólunum og að þetta hafi haft áhrif á alla fjölskylduna. Enginn er undirbúinn fyrir svona fréttir og þau hafi farið á eins konar sjálfsstýringu og gert ýmsa skrýtna hluti sem þau áttuðu sig ekki á fyrr en eftir á.
„Til dæmis hringdi ég í mömmu mína til að segja henni frá þessu, og hún fór úr vinnunni og kom við í búð og keypti tíu frosna hamborgara og fór svo heim. Hún var ekki á leiðinni út í búð og var ekkert að fara að elda hamborgara, hún hefur ekki hugmynd um hvað þetta var. Hún fattaði þetta ekki fyrr en seinna, eftir jólin, bara hvaða hamborgarar eru þetta?“
Linda man lítið eftir jólunum þetta árið, en hún man hvað hún var hrædd. „Ég man eftir að hafa setið á aðfangadag og litið í kringum mig og hugsað: Eru þetta síðustu jólin mín?“

Linda komst næst til læknis 27. desember. „Og það gerðist allt ótrúlega hratt,“ segir hún.
Þann 20. janúar 2019 gekkst Linda undir aðgerð þar sem meinvarpið var fjarlægt. Í febrúar byrjaði hún í lyfjameðferð, hún fór í sex samtals og síðan fimmtán geislameðferðir. Hún lauk ferlinu þann 2. september. Hún segir að þó þessi tími sé móðukenndir þá séu þessar dagsetningar stimplaðar í hausinn á henni.
Þrátt fyrir að meðferð lauk haustið 2019 þá andaði Linda ekki léttar fyrr en nokkrum árum seinna. „Því þríneikvætt krabbamein virkar þannig að ef það tekur sig upp aftur, þannig að maður fái meinvörp, þá gerist það á svona einu til þremur árum eftir að maður fær greiningu, því þetta er mjög skaðræðiskrabbamein, og ef þetta tekur sig upp aftur þá eru líkurnar um að ná að sigra þetta mjög litlar.“
Eftirmeðferðin er engin og var því mjög erfitt, eftir að hafa verið stanslaust undir læknishöndum í átta mánuði, að ganga út úr síðasta tímanum í september og halda í vonina um að krabbameinið myndi ekki snúa aftur.
„Þá byrjaði í rauninni rússíbaninn minn. Það tók mig meira en klukkutíma að komast út af spítalanum eftir síðustu geislameðferðina. Ég sat bara á einhverjum stól, því ég vissi að þegar ég kæmi út þá væri ekki meira,“ segir hún.
„Ég átti tíma hjá lækni eftir þrjá mánuði og hann hafði sagt við mig: „Já, nú verður þú bara að treysta.“ Og það var vandamál fyrir mig, ég átti þá að treysta líkamanum sem hafði brugðist mér og ég horfði bara á hann og sagði: „Ég skil ekki, ég skil ekkert hvernig ég á að gera það.““
Á meðan meðferð stóð einbeitti Linda sér að því að komast í gegnum þetta. Eftir að hann lauk þá helltist allt yfir hana. „Þá fyrst fékk ég svona: „Bíddu, hvað gerðist? Fékk ég krabbamein?“
„Þá tók við frjálst fall þar sem ég fékk allt þetta í andlitið. Þá fór ég að þurfa að vinna í þessu öllu, vinna í mér og læra að treysta, og hlúa mér eftir allt þetta. Þegar ég var búin með þrjú árin sagði læknirinn við mig: „Þú mátt svona byrja að fagna, ef þú myndir drekka myndi ég segja að þú mættir byrja að losa tappann úr flöskunni en við bíðum samt í tvö ár í viðbót.“
Svo þegar ég var búin með fimm ár í eftirliti, þá sagði hann: „Nú máttu fagna, nú ertu búin.““
Hún ræðir þetta nánar í þættinum. Hún ræðir einnig um hvernig hún byrjaði að iðka spiritúalisma og hvernig það hjálpaði henni að vinna úr þessu og gömlum áföllum. Linda opnar sig einnig um ástina sem bankaði upp á fyrir tæpum þremur árum og allt það sem lífið hefur fært henni, gleðina, sorgina og allt þar á milli. Hlustaðu hér á þáttinn.
Fylgdu Lindu á Instagram.