fbpx
Sunnudagur 16.nóvember 2025
Fókus

Úlfar gerir upp málverkafölsunarmálið – „Þetta var bara fár“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 16. nóvember 2025 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úlfar Þormóðsson, rithöfundur og stofnandi Gallerís Borgar, hefur sent frá sér bókina Örblíða, sem hefur undirtitilinn Beðið eftir sjálfum sér, en verkið, sem er margslungið og nokkuð erfitt skilgreiningar, fjallar meðal annars um ásakanir á hendur Úlfari um að hafa vísvitandi selt fölsuð málverk í massavís á blómatíma gallerísins.

Úlfar tekur fyrir þessar ásakanir og lýsir upplifun sinni af þeim eftir að þær gengu í endurnýjun lífdaga í fyrra með umfjöllun í þættinum „Þetta helst“ á RÚV og með yfirlitssýningu á meintum fölsuðum málverkum í Listasafni Íslands.

Stóra málverkafölsunarmálið er flókið og þrátt fyrir yfirskrift þessarar stuttu greinar er ekki ætlunin að gera það upp hér heldur skal vísað til bókar Úlfars og annarrar umfjöllunar um málið, sem hefur verið umfangsmikil í gegnum tíðina. Til dæmis hefur forvörðurinn Ólafur Ingi Jónsson metið að um 900 fölsuð málverk séu í eigu landsmanna og flest hafi þau verið seld á Gallerí Borg. Þessu hafnar Úlfar með öllu.

Varnarrit fyrir málverkaeigendur

DV spurði Úlfar hvort Örblíða væri varnarrit hans.

„Hún er varnarrit fyrir þá sem eiga málverk heima hjá sér því Listasafnið og vitringarnir eru búin að vekja upp tortryggni hjá fólki. Einhver vitringurinn talar um að horfa í augun á þessu fólki þegar því er sagt að þetta gæti verið fölsuð mynd. Þannig að bókin er hugsuð meðal annars til þess að reka til baka fullyrðingar þeirra um að ég hafi staðið í því að selja fölsuð málverk og að falsa málverk. Og til þess að þjóðin hætti að tortyggja eigur sínar í listaverkum.“

„Síðan er þetta miklu meira, þetta er líka skáldsaga, ævintýri, persónulegir þættir.“

Segir Úlfar að ónefndur yfirlesari hans hafi sagt að hér væri á ferðinni nýr frásagnarmáti á Íslandi. „Sem það er, en ég stend ekki að því, ég skrifaði þetta bara eins og það kom til mín.“

Aðspurður hvernig skilgreina beri þennan frásagnarmáta segir Úlfar: „Hann er óskilgreindur því hann er nýr. Þetta er blanda af sannsögum, ævintýrum og frásögnum. Þetta eru sögur úr nútímanum en þetta er líka lýsing á því hvað gerist hjá manninum sem er alltaf að bíða.“

Bið sögumanns felst í því að fá úr ýmsu skorið varðandi þær ávirðingar sem bornar eru á hann í fjölmiðlum, bíða þess að málið verði til lykta leitt, en hefur líka dýpri og óræðari merkingu sem varðar almennt hlutskipti mannsins, eða þannig upplifir blaðamaður verkið.

Segir öfund hafa ráðið för

Sp: Eru fullyrðingar sem hafa verið uppi um fjölda falsaðra málverka í umferð ýktar?

„Jájájá, þetta var bara fár. Menn mega heldur ekki gleyma því, á hverju hefst svona fár? Það er öfundin. Þessi vitleysingur, Úlfar Þormóðsson, dæmdur guðlastari, sem ekkert kann í myndlist, hann stofnar gallerí og hann rekur það og gerir að stærsta galleríi landsins, með útibúum. Hinir sem gera þetta sama, Knútur Bruun og hinir, það fer alltaf á hausinn. Af hverju er það? Þá vaknar öfundin.“

Sp: Gætir þú fyrir slysni hafa selt eitthvað af fölsuðum málverkum?

„Ég gerði allt sem ég gat til að forðast það. Ég var með Björn Th. Björnsson, virtasta listfræðing þjóðarinnar, Hring Jóhannesson listmálara, og ef einhver vafi lék á eftir hvern einhver mynd var þá kallaði ég þá alltaf til. Ein af ástæðunum fyrir því að galleríið gekk var sú að allir starfandi myndlistarmenn, sem einhver veigur var í, þeir komu í galleríið einu sinni, tvisvar í viku. Þeir sýndu í galleríinu, þeir báðu galleríið um að selja fyrir sig. Þeir sáu líka ef einhver vafi var um það að mynd væri eftir þann sem hún var eignuð, þá var hún bara geymd þangað til það fékkst eitthvað út úr því, ef ekkert fékkst út úr því og sá sem átti hana vissi ekkert um hana, þá var hún kannski sett á uppboð og sögð annaðhvort ómerkt eða talin vera eftir tiltekinn listamann.“

Góð viðbrögð

Bókin er nýkomin út en Úlfar hefur þegar fengið glymjandi fín viðbrögð við henni. „Ég er byrjaður að fá alveg ótrúleg viðbrögð, bæði á götum úti og líka í síma. Allt á sama veg, ég hef bara fengið mjög góða undirtektir.“

Það er Ugla útgáfa sem gefur verkið út. Sjá nánar hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnarök undir jökli – Áleitin spennusaga um siðferði og samkennd og skort á þeim gildum

Ragnarök undir jökli – Áleitin spennusaga um siðferði og samkennd og skort á þeim gildum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Áður óséð myndband setur allt í uppnám í máli Blake Lively gegn leikstjóranum Justin Baldoni

Áður óséð myndband setur allt í uppnám í máli Blake Lively gegn leikstjóranum Justin Baldoni
Fókus
Fyrir 5 dögum

Afhjúpar hvernig henni tókst að léttast um 13,6 kíló á tæpum tveimur mánuðum

Afhjúpar hvernig henni tókst að léttast um 13,6 kíló á tæpum tveimur mánuðum
Fókus
Fyrir 5 dögum

Brjáluð breyting á klámdrottningunni – Sjáðu myndbandið

Brjáluð breyting á klámdrottningunni – Sjáðu myndbandið