
Við virðumst lifa á tímum hnignandi bókmenningar ef litið til minnkandi bóksölu og þeirrar staðreyndar að þeim hefur fjölgað sem aldrei lesa bækur. Bókaútgáfa er þó enn blómleg og umfram allt afar fjölbreytt. Hversu lengi munum við búa við þann munað? Ein leiðin til að framlengja þessa blómatíð er að kaupa bækur, bæði til gjafa og eigin yndis. Á þetta skal minnt hér og lesendur hvattir til bókakaupa. Bók er hagstæð, nærandi og góð gjöf handa okkur sjálfum og öðrum.
Hvenær byrjar jólabókaflóðið? spurði ég sjálfan mig þegar ég dró fram þessar fjórar ólíku bækur úr bókastafla undanfarinna mánaða. Ein þeirra kom nefnilega út í júlí, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna, og önnur kom út í september. Báðar eru þó sprelllifandi í jólabókaflóðinu. Þessar fjórar bækur sem sjást á fátæklegri ljósmynd minni eiga fátt eða ekkert sameiginlegt annað en sjálfa fjölbreytnina.

Washington DC eftir Jón Óskar Sólnes dregur upp ljóslifandi myndir af höfuðborg Bandaríkjanna og veitir innsýn í flækjur stjórnmála og heimsmála. Jón Óskar, fjölmenntaður heimsborgari, sem á litríkum starfsferli sínum hefur m.a. starfað sem fréttamaður á RÚV og að margvíslegum alþjóðlegum verkefnum, þ. á m. að friðargæslu, var um árabil sendiherramaki í Washington og tók ástfóstri við borgina eins og leynir sér ekki á síðum bókar hans. Bók Jóns Óskars er fræðandi skemmtilestur. Bókin hefur vakið töluverða athygli og fengið góðar viðtökur. Áhugi almennings á heimspólitíkinni hefur sjaldan verið meiri en núna enda lifum við viðsjárverða óvissutíma. Innsýn og þekking höfundar á bandarískum stjórnmálum og heimspólitíkinni er meðal þess sem gerir bókina að góðum feng en ekki síður frásagnargleði höfundar. Ógleymanlegur kafli í bókinni er viðkynning af höfundur af sjálfum Bandaríkjaforseta, hinum umdeilda Donald Trump.
Hyldýpi eftir lögmanninn Kára Valtýsson hafa þegar verið gerð skil í ritdómi kollega míns á DV, en bókin kom út í lok sumars. „Þeysireið um myrkur mannheima“ er býsna rétt og skemmtileg lýsing á þessari kraftmiklu glæpasögu þar sem tengjast saman borgarastríð í Súdan, pólskur undirheimamaður í Reykjavík, vegalaust barn, Læknar án landamæra og síðast en ekki síst ungur lögmaður í Reykjavík. Frásögnin er hröð og spennandi, afar óhugnanleg á köflum, þar sem lýst er botnlausri mannvonsku íslamskra vígamanna. Helsti kostur verksins er fimi höfundar við að flétta saman ólík sjónarhorn og söguþræði í eina heild. Óhætt er að mæla með bókinni fyrir spennusagnaunnendur.
Útreiðartúrinn er nýjasta skáldsaga Rögnu Sigurðardóttur. Þetta er margslungið verk með Álftanes að lifandi sögusviði. Helstu söguþræðirnir – en ekki allir – sem fléttast saman eru annars vegar samtímasaga fjölskylduföðurins Sævars sem fyllist nístandi grun um að sonur hans hafi verið viðriðinn myrkraverk, og hins vegar sakamál frá ofanverðri 19. öld og varðar voveiflegan dauðdaga manns í útreiðartúr frá Álftanesi til Hafnarfjarðar. Forfaðir Sævars var grunaður um að hafa banað manninum. Margar fleiri eftirminnilegar sögur og persónur lifna við á síðum bókarinnar, til dæmis saga rannsóknarblaðamannsins Bergs sem hefur rannsakað gamla morðmálið. Einnig fléttast inn í söguna samskipti Sævars við gamlan æskuvin sem hefur beitt hann tilfinningalegu ofbeldi.
Rauður þráður í gegnum söguna eru spennuþrungin og óræð sambönd fólks og kveður þar mest að sambandi Sævar og sonar hans. Parið Guðný og Eyjólfur úr útreiðartúrnum eru líka afar eftirminnileg, umkomulausar persónur sem maður fær samúð með. Útreiðartúrinn er ríkuleg lesning sem gaman er að sökkva sér ofan í.

Andrými – kviksögur eftir Eirík Jónsson lækni er sérstæð bók. Um er að ræða rúmlega 100 örsögur í bók sem er einstaklega vel heppnaður prentgripur, því hönnun Barkar Arnarsonar og teikningar eftir Elínu Eddu Þorsteinsdóttur eru til mikillar prýði og eru nánast hluti af verkinu.
Höfundur kallar þessi örverk sín kviksögur og lýsa þær margar missérkennilegum störfum manna. Sum störfin eru kunnugleg en önnur uppdiktuð. Víða skoðar höfundur tilveruna í gegnum sjóngler vísindanna og annars staðar kemur margskonar handverk við sögu.
Heildarsýn verksins virðist mér snúast um að allt sé meira og minn samtengt og þræðir tilverunnar fléttast víða saman. Bestu sögurnar bjóða upp á mikla samsvörun efnisþátta og hnyttinn endi. Gott dæmi um slík tilþrif er sagan Konsert á blaðsíðu, sem mér finnst eiginlega lýsandi fyrir allt það besta sem Eiríkur hefur fram að færa sem höfundur. Þar segir frá tónskáldi sem er að setja saman flautukonsert, verkefni sem hann tók að sér til að standa straum af viðgerðum á húsi sínu. Reistir hafa verið stillansar við húsið og vindurinn gnauðar um stillansana og tónskáldið heyrir flaut í járnpípunum. Smám saman taka þessi hljóð að mynda flautukonsertinn sem tónskáldið er að semja.
Allar eru þessar ólíku bækur lestrarins virði en núna er nýr skammtur kominn á náttborðið og fleiri fátækleg orð um fjölbreytt jólabókaflóðið munu birtast á næstu vikum.