

Margrét Kjartansdóttir sérfræðingur hjá regluvörslu Íslandsbanka lærði að lesa fimm ára gömul þegar móðurafi hennar sem var kennari kenndi henni að lesa. Síðan hefur Margrét verið óstöðvandi í lestri og les jöfnum höndum á íslensku og ensku. Hún deilir jafnan afrakstrinum með vinum sínum á Facebook ásamt stuttri umsögn um hverja bók.
Margrét segir bækur til þess fallnar að víkka sjóndeildarhring lesandans og mælir því með að lesendur ögri sér og lesi af og til bækur sem þeir eru ekki vanir að velja sér.
Margrét er lesandi DV.
Hvaða bók/bækur ertu að lesa núna?
Er þessa dagana að skipta lestrartímanum milli Dúkkuverksmiðju Júlíu Margrétar Einarsdóttur og My Cat Yugoslavia, eftir Pajtim Statovic.


Hvaða bók/bækur laukstu við síðast og hvernig fannst þér hún/þær?
Setti mér það markmið að lesa allar bækurnar sem tilnefndar voru til Bookerverðlaunna í ár áður en tilkynnt yrði um vinningshafann. Það hafðist, þó ekki mætti tæpara standa. Kláraði doðrantinn The Loneliness of Sonia and Sunny eftir Kiran Desai síðastliðinn sunnudag það er degi áður en tilkynnt var um verðlaunahafann.

Hefurðu nýlega gefist upp á að lesa einhverja bók eða hefurðu lesið einhverja bók nýlega sem stóðst ekki væntingar?
Hef hvorki gefist upp né orðið fyrir vonbrigðum nýlega en það hefur þó alveg gerst.
Hvar finnst þér best að lesa og er einhver tími dags betri en annar?
Mér finnst mjög gott að byrja daginn á að lesa aðeins, en þar sem ég á það til að gleyma mér yfir bók þá er slíkt ekki í boði nema þegar tíminn er rúmur og jafnvel þá getur þetta leitt til vandræða.
Manstu eftir hvaða bók var lesin fyrst fyrir þig sem barn og/eða sem þú last sjálf/ur sem barn?
Það var mikið lesið fyrir mig í barnæsku enda hafði ég gaman af. Ein af fyrstu æskuminningum mínum var ólundarkast sem ég þriggja ára gömul tók í fjölskylduboði vegna þess að það vildi enginn lesa fyrir mig. Það eru til myndir af mér við þetta tækifæri. Á einni þeirra stend ég á miðju stofugólfi í sparifötunum, hef sett upp skeifu og held á sögunni um prinsessuna sem átti 365 kjóla og á annarri er ég í fanginu á ömmusystur minni, sem er að lesa fyrir mig þessa sömu bók. Mögulega gerðist þetta ekki svona og ég hef búið söguna til út frá myndunum. En það er víst algjör óþarfi að láta góða sögu gjalda sannleikans. Móðurafi minn sem var kennari kenndi mér svo að lesa þegar ég var fimm ára og eftir það var ég ekki öðrum háð um lestur. Gat þá sjálf heimsótt þá Jón Odd og Jón Bjarna, Línu langsokk og Bræðurna Ljónshjarta hvenær sem mig langaði til.

Er einhver bók/bækur sem þú getur ekki beðið eftir að lesa?
Er mjög spennt fyrir Vegi allrar veraldrar eftir Sigríði Hagalín, Ósmann eftir Joachim B. Schmidt og Huldukonunni eftir Fríðu Ísberg. Auk þess bíða mín tvær bækur sem hafa þurft að víkja í lestrarröðinni fyrir öllum þessum Booker tilnefndu og ég er mjög spennt að komast í. Annars vegar er það fjölskyldusagan Buckeye eftir Patrick Ryan og hins vegar The Elements eftir John Boyne. Hef ekkert lesið eftir Patrick en bókin hefur fengið þannig umsagnir og dóma að ég er nokkuð viss um að mér líki hún. Hef lesið töluvert eftir John Boyne enda leitast ég við að finna það sem hann hefur skrifað.



Áttu þér uppáhaldsbók/bækur sem þú jafnvel lest aftur og aftur?
Gæti talið upp margar bækur sem mér þykir vænna um en aðrar og hef því heimsótt oft eða hef áform um að endurlesa. Hef til dæmis lesið Góða dátann Svejk og Stríð og Frið oftar en einu sinni og oftar en tvivar. Endurlas líka nýlega bæði She’s come undone eftir Wally Lamb og Frankenstein e. Mary Shelley, held að ég sé langt frá því að vera búin með þær.


Áttu þér uppáhalds höfund/a?
Já og nei. Þegar uppáhaldshöfundar eru taldir í tugum og ekki hægt að gera uppá milli þá er það kannski orðið svolítið mikil útvíkkun á hugtakinu að vísa til þeirra sem uppáhalds. Myndi nefnda marga um ólíka höfunda allt frá Guðrúnu Helgadóttur, Astrid Lindgren og Agöthu Christie yfir til Fyodor Dostoevsky og Leo Tolstoy. Einnig John Steinbeck, Halldór Laxness, Barböru Kingsolver, Amor Towles og fleiri.
Hvaða bók/bækur hafa haft mest áhrif á þig og hvers vegna?
Stríð og Friður og Frankenstein, en ég tel lestur þeirra mannbætandi.
Hvaða bók/bækur ættu allir að lesa (bók/bækur sem þú mælir alltaf með)?
Góðar bækur eru almennt til þess fallnar að auka sjóndeildarhring okkar, kynna okkur fyrir einhverju nýju hvort sem það eru skoðanir eða staðreyndir. Lestur ætti að auka skilning á aðstæðum og sjónarmiðum annarra, ólíkum okkar eigin. Þetta næst þó illa þegar mikil einsleitni er við val á bókum. Mæli því með því fyrir alla að velja sér öðru hverju lesefni sem er aðeins öðruvísi en það sem þeir almennt gera.