

Þegar Magnea Ísaksdóttir, blaðamaður Kroníkunnar, heimsækir höfuðvígi umdeilds ásatrúarsafnaðar undir Tindfjallajökli flækist hún í háleitar fyrirætlanir allsherjargoðans, Óðins Jónssonar. Óðinn trúir því að söfnuðurinn sæti ofsóknum yfirvalda og að kominn sé tími til að spyrna við fótum. Áður en Magnea veit af er hún í auga storms sem eirir engu.
Óðinn og fylgjendur hans eru reiðubúnir að berjast fyrir frelsi sínu. Reiðubúnir að láta sverfa til stáls.
Ragnarök undir jökli er saga um dramb og firringu, vanmátt, von og miskunnarleysi örlaganna.
Ragnarök undir jökli er sjálfstætt framhald af Stóra bróður (2022) og önnur bókin í Kroníkuseríunni.

Skúli Sigurðsson mætti með hvelli inn á glæpasögusviðið árið 2022 með frumraun sinni Stóra bróður. Bókin hlaut Blóðdropann, Íslensku glæpasagnaverðlaunin og önnur bók Skúla ári síðar, Maðurinn frá São Paulo, var tilnefnd til þeirra.
Ragnarrök undir jökli er fjórða bók Skúla og eins og áður sagði sjálfstætt framhald af Stóra bróður. Engin þörf er á að vera búinn að lesa Stóra bróður, bókin stendur alveg sjálfstæð.
Blaðamaðurinn Magnea skilur eiginmann og tvo barnunga syni eftir til að fara í heimsókn að Tindfjallajökli þar sem ásatrúarsöfnuður hefur komið sér upp höfuðstöðvum. Þangað hefur henni verið boðið til að taka viðtal við allsherjargoðann Óðinn Jónsson. Þegar Magnea kemur á staðinn hittir hún fyrir annan blaðamann frá samkeppnisaðila og komast þau fljótt að raun um að þó viðtal sé vissulega í boði þá er þeim frekar ætlað að vera málpípa allsherjargoðans um varhugaverðar fyrirætlanir hans. Skúli veltir hér upp áleitnum spurningum um hlutleysi blaðamanna og siðferði, hvenær er atvik fréttnæmt og hvenær ekki. Til að brjóta upp frásögnina eru síðan birtar samtímafréttir af ástandinu innan og utan búða ásatrúarsafnaðarins, skrifaðar af Magneu og hinum blaðamanninum, en einnig fréttir annarra miðla. Skúli hefur hér reynslu af starfi blaðamannsins enda starfaði hann sem slíkur á Morgunblaðinu meðfram lögfræðinámi.
Allsherjargoðinn Óðinn hefur háleitar hugmyndir um framtíð safnarins og hyggst koma þeim í gegn hvað sem kostar, mannslíf eru þar sjálfsagður fórnarkostnaður. Líkt og fleiri foringjar í sögunni þá hefur hann söfnuð undir sér þar sem meðlimir fylgja honum í blindni og efast aldrei um hvort hegðun þeirra sé rétt eða röng. Fljótlega verður ástandið undir jökli yfirþyrmandi fyrir Magneu og aðra sem þar dvelja viljugir sem nauðugir og ljóst að ekki komast allir heilir frá á líkama eða sál.
Bókin er ekki hefðbundin glæpasaga þar sem morð er framið, eitt eða fleiri, og lesturinn fer í að komast að hver gerandinn er. Þó vissulega sé framið morð í upphafi bókarinnar þá er það alls ekki þungamiðja hennar, heldur fremur siðferði mannanna eða frekar siðleysi þeirra. Hversu langt er einstaklingur tilbúinn að ganga til að fá sínu framgengt, hversu langt er einstaklingur tilbúinn að ganga til að skrifa frétt starfsferils síns, hversu langt er einstaklingur tilbúinn að ganga til að vernda sig og sína. Og þegar upp er staðið hvers eiga þeir saklausu að gjalda og samfélagið allt. Ofbeldið eykst í bókinni um leið og sögunni vindur fram. Börn og illt atlæti þeirra í æsku og hvaða áhrifum það litar líf þeirra og fullorðinsár er einn af þráðum bókarinnar, málaflokkur sem er síendurtekinn í samfélaginu við lítinn hljómgrunn og fjárútlát hins opinbera.
Skúli sýnir hér nýja hlið á sér við spennusöguskrifin og Ragnarök undir jökli er áleitin spennusaga um siðferði og samkennd mannsins og algeran skort margra á þeim sjálfsögðu gildum.