fbpx
Laugardagur 01.nóvember 2025
Fókus

„Svo þarf ég hérna að nefna ákveðinn fíl í bókmenntastofunni“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 1. nóvember 2025 10:00

Arndís Þórarinsdóttir. Mynd: Gunnar Freyr Steinsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arndís Þórarinsdóttir, rithöfundur og þýðandi, skrifar fyrir jafnt börn, ungmenni og fullorðna. Og í ár gefur hún út ungmennabókina Sólgos.
Arndís hefur unnið til fjölda viðurkenninga fyrir bækur sínar. Kollhnís, sem kom út árið 2022, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin, Fjöruverðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar og var tilnefnd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Árið 2020 var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki skáldverka fyrir ljóðabók sína Innræti. Ári síðar hlaut hún tilnefningu til sömu verðlauna í flokki barna- og ungmennabóka fyrir Bál tímans, sem var einnig tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Blokkin á heimsenda, sem Arndís skrifaði ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur, hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur og Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka og var einnig tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þýsk þýðing bókarinnar var tilnefnd til Þýsku barnabókaverðlaunanna (Deutschen Jugendliteraturpreis ) árið 2024 í flokki skáldverka fyrir börn. Bók þeirra stalla, Mömmuskipti, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2023 og Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar.
Árið 2025 kom út fyrsta bók Arndísar og Huldu fyrir fullorðna, gamansama glæpasagan Morð og messufall.
Arndís er með BA-próf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og MA-próf í ritlist frá Goldsmiths College, University of London, og Háskóla Íslands. Síðast en ekki síst er hún Lesandi DV þessa vikuna.

Hvaða bók/bækur ertu að lesa núna?

Ég er nýbyrjuð á Lokar augum blám eftir Margréti Höskuldsdóttur sem byrjar mjög vel! Þetta er ekki fyrsta bókin um lögguteymið í bókinni, en það truflar mig ekkert að hafa ekki lesið fyrri bókina. Svo ætla ég líka að setja Blöku eftir Rán Flygenring á þennan lista – ég er vissulega búin að lesa hana, en samt bara í fyrsta skiptið! Það er bók sem mig langar að lesa nokkrum sinnum enn áður en hún telst fulllesin. Hún er fríkuð og einlæg og fyndin og umhugsunarverð eins og allt sem kemur frá Rán.

Hvaða bók/bækur laukstu við síðast og hvernig fannst þér hún/þær?

Ég er búin að vera á kafi í jólabókaflóðinu undanfarið – og náði sérstaklega góðum spretti þegar ég skilgreindi sumarbústaðarferð í vetrarleyfinu sem lestrarleyfi. Fyrsta vil ég telja Lausaletur, eftir Þórdísi Helgadóttur. Bókin er um samstarfsfólk á prentminjasafni og smám saman teiknast upp atburðir, samfélag og persónur sem koma stöðugt á óvart. Bókin er svo dásamlega skrifuð, full af leik og sköpunarkrafti. Frumbyrjur eftir Dag Hjartarson las ég án þess að vita neitt um hana. Hún er ástarsaga sem gerist á síðustu öld í sveit, full af þögn og hlýju og náttúru. Ég var mjög hrifin. Ég las líka Sjá dagar koma eftir Einar Kárason um daginn og tók andköf eins og teiknimyndapersóna þegar ég las síðustu opnuna – svoleiðis gera fagmennirnir! Svo er ég nýlega búin með Skólastjórann eftir Ævar Þór Benediktsson sem er hrikalega fyndin og snjöll en líka stútfull af sönnum tilfinningum. Myndir Elínar Elísabetar eru líka frábærar!

Hefurðu nýlega gefist upp á að lesa einhverja bók eða hefurðu lesið einhverja bók nýlega sem stóðst ekki væntingar?

Ég reyni að hugsa ekki þannig um bækur. Þegar ég tengi ekki sérstaklega við bók þá minni ég sjálfa mig á að ég var bara ekki rétti lesandinn fyrir hana, frekar en að það sé eitthvað eðlislægt að bókinni. En vissulega þarf stundum svolítið átak til að minna mig á þessa skynsamlegu heimspekilegu afstöðu mína!

Hvar finnst þér best að lesa og er einhver tími dags betri en annar?

Lestur er lífsstíll hjá mér – ég les við allar aðstæður! Ég hlusta á bók á meðan ég elda, ég les rafbók af símaskjá á biðstofunni hjá tannlækninum, ég les í baðkarinu og ég les í rúminu. Skemmtilegast finnst mér samt lestrarkósí sem er vikuleg stund okkar fjölskyldunnar, þar sem við kveikjum á kertum, fáum okkur eitthvert gott snarl og lesum öll saman. Oftast er lestrarkósí heima í stofu hjá okkur, en við höfum átt lestrarkósí í sumarbústað, á fjarlægri strönd og í erlendum skógi. Það er svo gott að vera saman og hverfa öll hvert í sinn heim.

Manstu eftir hvaða bók var lesin fyrst fyrir þig sem barn og/eða sem þú last sjálf sem barn?

Það var mjög mikið lesið fyrir mig þegar ég var lítil og margar myndabækur man ég mjög vel. Lata stelpan og Níski haninn voru mikið lesnar. Selur kemur í heimsókn vekur líka hlýjar minningar! Svo eru sumar lestrarminningar kannski meira um upplifunina en um bókina sjálfa – sennilega var síðasta bókin sem var lesin upphátt fyrir mig Brúðan hans Borgþórs eftir Jónas Jónasson með myndum eftir Sigrúnu Eldjárn, sem mamma og pabbi lásu fyrir okkur systurnar í fríi. Ég man ekki svo glöggt eftir bókinni, en ég man eftir lestrinum.

Er einhver bók/bækur sem þú getur ekki beðið eftir að lesa?

Ég er rosalega spennt að lesa Fröken Dúllu eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur – sú kona hefur ekki valdið mér vonbrigðum enn – eftir að ég las heilan doðrant um Farsóttarhúsið í Reykjavík og vildi meira þegar ég var búin kaupi ég allt sem Kristín Svava selur. Ég er líka spennt að lesa Huldukonuna eftir Fríðu Ísberg og Veg allrar veraldar eftir Sigríði Hagalín.

Svo þarf ég hérna að nefna ákveðinn fíl í bókmenntastofunni, sem er að aðeins sex eiginlegar ungmennabækur koma út í ár, frumsamdar á íslensku. Það er sláandi staðreynd þegar við erum stöðugt að tala um læsi og tungumál. Ég skrifa eina, en hinar fimm eru Álfareiðin eftir Gunnar Theodór Eggertsson, Dýr móðurinnar eftir Fanneyju Hrund Hilmarsdóttur, Silfurberg eftir Sesselíu Ólafs, Silfurgengið eftir Brynhildi Þórarinsdóttur og SkuldaDagur eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og Sigmund Breiðfjörð.

Ég er mjög spennt að lesa þær allar og vona að það geri sem flestir aðrir líka.

Áttu þér uppáhaldsbók/bækur sem þú jafnvel lest aftur og aftur?

Ég leita oft aftur í bækur Tove Jansson – bæði þær um Múmínálfana og bækur hennar fyrir fullorðna. Sama gildir um Astrid Lindgren – og þá frekar bækurnar sem eru svolítið angurværar en þær sem bjóða upp á hasar. Ég tengdi alltaf meira við Bróður minn Ljónshjarta en Línu.

Áttu þér uppáhalds höfund/a?

Það er klisja að nefna Guðrúnu Helgadóttur, en hún hafði bara svo gríðarlega mikil áhrif, af því að hún var svo mögnuð. Hún hafði svo gott vald á tungumálinu og því sem er margrætt og flókið í tilverunni – auk þess sem hún skildi svo vel hvað það var að vera barn.

Hvaða bók/bækur hafa haft mest áhrif á þig og hvers vegna?

Sumir textar eru svo mikill hluti af mér að ég veit varla hvar ég byrja og þeir enda. Stundum dett ég um þá löngu síðar og var þá búin að gleyma því að þeir væru til og það er svolítið eins og að mæta sjálfum sér á götu.

Ætli ég nefni samt ekki sérstaklega Glæp og refsingu eftir Dostojevskí, en þaðan eignaðist ég gælunafn sem fylgir mér enn.

Hvaða bók/bækur ættu allir að lesa (bók/bækur sem þú mælir alltaf með)?

Ég held ekki að það sé nein bók sem allir ættu að lesa – það sem er skemmtilegt við líf sem lesandi er hin stöðuga leit að því sem hreyfir við okkur og það er alls ekki alltaf það sama og hrífur næsta mann!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Franska forsetafrúin í öngum sínum yfir samsæriskenningu – „Hún getur ekki leitt þennan hrylling hjá sér“

Franska forsetafrúin í öngum sínum yfir samsæriskenningu – „Hún getur ekki leitt þennan hrylling hjá sér“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Afhjúpar ástæðuna fyrir því að vináttunni lauk: „Ég hef nú þegar sagt of mikið“

Afhjúpar ástæðuna fyrir því að vináttunni lauk: „Ég hef nú þegar sagt of mikið“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Augu Kristínar opnuðust á föstudaginn: Sorgmædd þegar hún leit út um gluggann og sá hver kom út úr stigaganginum

Augu Kristínar opnuðust á föstudaginn: Sorgmædd þegar hún leit út um gluggann og sá hver kom út úr stigaganginum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þórdís Dröfn hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2025

Þórdís Dröfn hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2025
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ásdís Rán stolt af tengdasyninum

Ásdís Rán stolt af tengdasyninum
Fókus
Fyrir 5 dögum

Gerður missti son sinn: „Ég talaði við hann á föstudeginum og þá var hann búinn að segja öllum hversu illa honum liði“

Gerður missti son sinn: „Ég talaði við hann á föstudeginum og þá var hann búinn að segja öllum hversu illa honum liði“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hrekkjavökudrottningin tísar búninginn í ár – Nær hún að toppa fyrri búninga? Sjáðu myndirnar

Hrekkjavökudrottningin tísar búninginn í ár – Nær hún að toppa fyrri búninga? Sjáðu myndirnar