fbpx
Laugardagur 04.október 2025
Fókus

„Sólin var vitni hafði mikil áhrif því hún opnaði fyrir mér heim glæpasögunnar“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 4. október 2025 11:00

Ragnar Jónasson. Mynd: Bill Waters.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Jónasson lögfræðingur hóf glæpasöguferilinn sautján ára gamall með því að þýða bækur bresku glæpadrottningarinnar Agöthu Christie, alls fjórtán talsins, áður en hann sneri sér að því að skrifa eigin bækur.

Fyrsta bók hans, Fölsk nóta, kom út árið 2009, og alls eru bækurnar orðnar fimmtán. Sú sextánda kemur út þriðjudaginn 7. október, Emilía. Þar breytir Ragnar um stíl, en um er að ræða draugasögu, nóvellu, um unga konu sem flytur með fjölskyldu sinni í gamalt timburhús i miðbæ Reykjavíkur. Ekki líður á löngu þar til hún uppgötvar að þau eru ekki ein á nýja heimilinu. 

Bækur Ragnars hafa verið gefnar út á 27 tungumálum í 40 löndum. Mistur var valin glæpasaga ársins í Bretlandi árið 2020.  Sjónvarpsþáttaröðin Dimma kom út árið 2024 eftir samnefndri bók. Undirbúningur er hafinn að þáttum um Ara Þór, sem er aðalpersóna Snjóblindu og fleiri bóka, sem og kvikmynd eftir bókinni Úti. 

Ragnar er einn þeirra sem standa að baki bókmenntahátíðinni Iceland Noir, sem fer fram í tólfta sinn í nóvember í Reykjavík. Hann er varaformaður Rithöfundasambands Íslands og situr í stjórn Sinfoníuhljómsveitar Íslands. Ragnar starfar sem lögfræðingur á fjárfestingasviði Arion banka og hefur hann kennt höfundarétt við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Ragnar á tvær dætur.

Ragnar er lesandi DV.

Hvaða bók/bækur ertu að lesa núna?

Ég er alltaf með ótal margar bækur á náttborðinu og allt í kringum mig. Núna er ég til dæmis að lesa nýju bókina eftir Dan Brown, en við höfum ferðast nokkuð saman um Ísland og ég er alltaf að bíða eftir að hann skrifi landið okkar inn í bækurnar, en enn sem komið er gerist þessi nýja eingöngu í Prag. Svo er ég að lesa A Long Winter, nýju bókina eftir Colm Tóibín, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, en hann kemur til okkar á Iceland Noir hátíðina í nóvember. Ég get einnig nefnt The Murder Game eftir John Curran, sem fjallar um gullöld glæpasagnanna, og Listen In: How Radio Changed the Home, eftir Beaty Rubens, sem fjallar um gullöld útvarpsins, The Artist eftir Lucy Steeds, sem sló í gegn í Bretlandi í sumar, og Intimacies eftir Katie Kitamura.

Hvaða bók/bækur laukstu við síðast og hvernig fannst þér hún/þær?

A Murder in Paris eftir Matthew Blake, The Casino Murder Case, eftir S.S. Van Dine, The Thin Man, eftir Dashiell Hammett og Spring eftir Michael Morpurgo. Ánægður með þær allar.

Hefurðu nýlega gefist upp á að lesa einhverja bók eða hefurðu lesið einhverja bók nýlega sem stóðst ekki væntingar?

Ég hugsa að ég gefist upp á flestum bókum sem ég byrja á, því ég kaupi mun fleiri bækur en ég næ að lesa, og er alltaf fljótur að byrja á einhverri nýrri og gleymi þá síðustu bók, því miður.

Hvar finnst þér best að lesa og er einhver tími dags betri en annar?

Í góðu veðri úti í sólinni, eða inni á veturna þegar úti er kalt og dimmt – en þá helst á kvöldin. Og auðvitað les ég mjög mikið um jólin eins og flestir.

Manstu eftir hvaða bók var lesin fyrst fyrir þig sem barn og/eða sem þú last sjálfur sem barn?

Ég man eftir því að mamma las fyrir mig bækurnar um Tuma og Emmu, og mér er sagt að hún hafi lesið þær svo oft að ég hafi lært þær utan að þriggja ára gamall.

 

Er einhver bók/bækur sem þú getur ekki beðið eftir að lesa?

Já, það eru alltaf einhverjar sem ég veit að eru væntanlegar og er spenntur fyrir, til dæmis er Anthony Horowitz að klára nýja glæpasögu, og bækurnar hans les ég helst áður en þær koma út. Svo er von á nýrri bók á ensku eftir Joel Dicker, sem er svissneskur höfundur sem ég hef mjög gaman af.

Áttu þér uppáhaldsbók/bækur sem þú jafnvel lest aftur og aftur?

Ætli það séu ekki bækur Agöthu Christie, en hana er ég búinn að vera að lesa (og, um tíma, þýða á íslensku) frá unglingsaldri. Nýlega eignaðist ég frumútgáfu af einni af hennar bestu bókum, Murder in Mesopotamia, svo ég les hana næst aftur.

Áttu þér uppáhalds höfund/a?

Mjög marga, og flesta þeirra hef ég nefnt hér fyrir ofan – Agatha Christie, Anthony Horowitz, Yrsa vinkona mín Sigurðardóttir, Sally Rooney, P.D. James, S.S. Van Dine, Colm Tóibín, Ólafur Jóhann og Auður Ava.

Hvaða bók/bækur hafa haft mest áhrif á þig og hvers vegna?

Fyrsta Agöthu Christie bókin sem ég las, Sólin var vitni (Evil Under the Sun), hafði mikil áhrif því hún opnaði fyrir mér heim glæpasögunnar, sérstaklega þá bóka frá gullöld glæpasagnanna, og leiddi í raun til þess að ég fór sjálfur að skrifa. Þá man ég eftir því að hafa lesið Sniglaveisluna eftir Ólaf Jóhann á unglingsárunum, og sú bók kveikti líka hjá mér áhuga á að skrifa skáldsögur.

Hvaða bók/bækur ættu allir að lesa (bók/bækur sem þú mælir alltaf með)?

The Great Gatsby eftir F. Scott Fitzgerald, Afleggjarinn eftir Auði Övu, Rúmmálsreikningur eftir Solvej Balle, og Four Quartets eftir T.S. Eliot.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Guðrún: „Læknarnir voru búnir að greina mig með ímyndunarveiki“

Guðrún: „Læknarnir voru búnir að greina mig með ímyndunarveiki“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þetta á sér ekki bara stað í ástarsamböndum – Yfirmaður þinn getur gerst sekur um þetta

Þetta á sér ekki bara stað í ástarsamböndum – Yfirmaður þinn getur gerst sekur um þetta
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hafa áhyggjur af andlegri líðan grínista eftir að hann klúðraði uppistandi sem átti að sýna á Netflix

Hafa áhyggjur af andlegri líðan grínista eftir að hann klúðraði uppistandi sem átti að sýna á Netflix
Fókus
Fyrir 4 dögum

J.K. Rowling slær á útrétta sáttarhönd Harry Potter-stjörnu

J.K. Rowling slær á útrétta sáttarhönd Harry Potter-stjörnu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hefur smakkað sama réttinn um allan heim – Segir hann bestan á Íslandi

Hefur smakkað sama réttinn um allan heim – Segir hann bestan á Íslandi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Konur skóla einhleypan íslenskan karlmann til – Þetta fær þær til að svæpa strax til vinstri

Konur skóla einhleypan íslenskan karlmann til – Þetta fær þær til að svæpa strax til vinstri