

Hinn umdeildi Andrés Bretaprins og fyrrverandi eiginkona hans, Sarah Ferguson, ákváðu fyrir löngu að búa saman þrátt fyrir skilnaðinn. Mörgum þótti þetta benda til þess að enn væri sterk taug á milli þeirra. Nú segir konunglegur sérfræðingur í samtali við Daily Mail að ástæðan fyrir þessu sé einföld, þau séu bæði ótrúlega gráðug.
„Það er arðbært fyrir þau bæði að vera saman,“ segir sérfræðingurinn Richard Fitzwilliam. Þetta hafi verið samkomulag sem var báðum í hag og gerði þeim kleift að lifa íburðarmeira lífi en ella. Þau skildu árið 1996 eftir 10 ára hjónaband. Ferguson, gjarnan kölluð Fergie, montaði sig af því við Financial Times árið 2021 að þau væru hamingjusamasta fráskilda parið í heiminum.
„Ég er svo heppin að fá að vera gestur í Royal Lodge,“ sagði Fergie og tók fram að þessar konunglegu vistverur væru risastórar svo hún hefði sinn hluta út af fyrir sig og prinsinn hefði að sama bragði sinn hluta.
Fitzwilliam segir að þau hafi spilað hlutverk hamingjusama fyrrverandi parsins vel síðustu áratugi en raunin sé að þau séu bara of gráðug til að fara alfarið í sundur. Nú hefur komið á daginn að samkvæmt leigusamningi þarf prinsinn aðeins að greiða smá klink fyrir dvölina í Royal Lodge en það hefur vakið gífurlega reiði í ljósi tengsla prinsins við níðinginn Jeffrey Epstein. Prinsinn og Fergie hafi því loksins ákveðið að yfirgefa Royal Lodge.
„Nú er fokið í öll skjól og þau vilja búa hvort í sínu lagi,“ segir Fitzwilliam og bætir við að samkomulag þeirra hafi klárlega verið gert bara svo þau gætu hagnýtt sér þann gróða sem Andrés prins fékk frá krónunni fyrir að gegna konunglegum skyldum.
Að sögn Daily Mail hefur prinsinn nú óskað eftir því að fá að flytja í Frogmore Cottage, en þar var Harry Bretaprins búsettur með eiginkonu sinni, Meghan, áður en þau flúðu til Bandaríkjanna. Andrés hefur einnig óskað eftir því að Fergie fái afnot af Adelaide Cottage sem er hús í Windsor garðinum í Berskshire og var byggt árið 1831 fyrir drottninguna Adelaide. Undanfarin ár hefur krónsprins Bretlands, Vilhjálmur, verið búsettur í Adelaide með eiginkonu sinni og börnum en nú munu þau bráðlega færa sig í stærra hús, Forest Lodge þar sem þau ætla að búa jafnvel eftir að Vilhjálmur verður konungur.