

Fullyrt er að Vilhjálmur krónprins Bretlands hafi hótað föðurbróður sínum Andrési prins og fyrrum konu hans Söru Ferguson að dætur þeirra, prinsessurnar Beatrice og Eugenie, yrðu sviptar konunglegum titlum sínum ef hjónin fyrrverandi myndu ekki flytja út af heimili sínu stórhýsinu The Royal Lodge, sem er í nágrenni Windsor-kastala. Hann er einnig sagður hafa hótað prinsessunum sjálfum þessu.
Vel þekkt er að Vilhjálmi þykir ekki mikið til föðurbróður síns koma og hefur samband þeirra verið afar slæmt eftir afhjúpanir um tengsl Andrésar við einn frægasta kynferðisbrotamann heims, Jeffrey Epstein, og sjálfur hefur prinsinn verið sakaður um kynferðisbrot. Er Vilhjálmur sagður hafa þrýst mjög á föður sinn Karl konung að vera harðari í garð Andrésar og er það talið hafa átt mikinn þátt í að konungurinn hafi þrýst á bróður sinn að afsala sér konunglegum titlum.
Andrés og Sara sem hafa búið saman þrátt fyrir að vera skilin hafa loksins samþykkt að flytja út úr The Royal Lodge en fram kemur í umfjöllun The Daily Mail að Emily Maitliss, fyrrum fréttakona hjá BBC, sem tók frægt viðtal við Andrés árið 2019 þar sem hann kom vægast sagt illa út, hafi haldið því fram að þetta hafi þau loks samþykkt eftir að Vilhjálmur hótaði að svipta dætur þeirra titlunum. Þau höfðu búið í húsinu síðan 2008.
Vinir Söru hafa tjáð Daily Mail að hún sé mjög ráðvillt vegna ástandsins og telji að hún og Andrés eigi hvergi skjól en fjallað hefur verið í fjölmiðlum um tengsl hennar við Jeffrey Epstein.
Bent hefur verið á að konungurinn beri enga ábyrgð gagnvart henni sem fyrrverandi konu Andrésar prins. Hún hafi í raun verið eins og leigjandi á heimili fyrrverandi eiginmanns síns síðustu 20 árin.
Emily Maitliss segist hafa heyrt af því að Vilhjálmur hafi sagt við Beatrice og Eugenie að þær yrðu að fá foreldra sína til að flytja út annars yrði að endurskoða hvort þær tvær ættu áfram að bera konunglega titla. Hún segir að Karl konungur hafi í síðustu viku ætlað sér að koma í The Royal Lodge og láta bróður sinn heyra það en hætt við eftir að fjölmiðlar fengu ábendingu um að það stæði til.
Munu Sara og Andrés hafa farið fram á að þau fái í staðinn að búa í sitt hvoru konunglegu húsnæðinu en umrædd hús eru minni en The Royal Lodge. Þau neita því þó að hafa krafist þess ef þau eigi að samþykkja að flytja út. Þessi vistaskipti hafi verið til umræðu í nokkurn tíma. Starfslið konungsins tekur þó ekki undir það.
Konungurinn er sagður vilja halda áfram að gera vel við fyrrum mágkonu sína einna helst svo hún freistist ekki til að gefa út bók þar sem hún láti allt flakka en Sara Ferguson hefur glímt við vanheilsu á undanförnu árum. Fullyrt er að henni líði afar illa yfir ástandinu og ekki síst opinberunum á tengslum hennar við Jeffrey Epstein en hann veitti henni meðal annars fjárhagsaðstoð á meðan hann lifði. Heimildarmenn Daily Mail segja að Sara hafi í raun átta fára annarra kosta völ en að fylgja fyrrum manni sínum og fái hún ekki nýtt konuglegt heimili sé enginn annar staður sem hún geti farið á.