
Leikna þáttaröðin Felix og Klara sem sýnd er um þessar mundir á RÚV virðist almennt hafa hlotið góða dóma. Eins og mörgum lesendum er eflaust kunnugt fjalla þættirnir um eldri hjón sem standa frammi fyrir breytingum í kjölfar starfsloka og að hefja þar með lokakaflann í lífi sínu. Reynist breytingin eiginmanninum, fyrrverandi tollverðinum, Felix sérstaklega erfið en hann er þver, sannfærður um eigið ágæti og á greinilega að vera leiðinlegur enda segja sumar persónur þáttanna það beinlínis við hann. RÚV hefur nú sýnt þrjá þætti af tíu en af einhverjum ástæðum er áhorfendum hér á landi ekki boðið upp á sömu þjónustu og sjóvarpsáhorfendum í Danmörku sem geta nú séð alla 10 þættina í spilara systurmiðils RÚV þar í landi, DR. Það er því eiginlega ótímabært að birta gagnrýni um þættina í heild en í staðinn verður hér gerð sérstaklega grein fyrir þriðja þættinum og því velt upp hvort í honum hafi aðstandendur þáttanna farið langleiðina með að festa hönd á hinni íslensku þjóðarsál, sé hún yfirhöfuð til.
Íslenska nóbelsskáldið sem skólakerfi landsins keppist við að fleygja ofan í hyldýpi gleymskunnar, við skeytingarleysisblandaðan fögnuð ungu kynslóðinnar og tregafull andmæli hinna eldri, á meðan það er umvafið af írskri stórstjörnu, skrifaði í bók sína Innansveitarkronika,
„Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.“
Þótt þarna sé aðallega átt við íslenska umræðuhefð má eins heimfæra þessa lýsingu upp á almenn sjónarmið og áherslur á Íslandi. Í stað þess að einblína á stóru myndina og samhengi samfélagsins velta Íslendingar sér upp úr einstökum smáatriðum jafnvel þótt þau skipti takmörkuðu máli í hinu stóra samhengi. Eitt orð sem hægt er að nota yfir þetta er smámunasemi.
Ýmis dæmi um þessar áherslur á smáatriði í stað heildarmyndinnar skjóta reglulega upp kollinum í íslensku samfélagi. Manneskja skrifar einlæga færslu á samfélagsmiðlum um áfall sem viðkomandi var fyrir. Manneskjan fær vissulega hrós frá mörgum en aðrir standast ekki mátið og skamma hana fyrir málfar og stafsetningu.
Mikið er rætt um ýmsar tölur t.d. þegar kemur að opinberum útgjöldum án þess að þau séu nokkurn tímann sett í eitthvert samhengi. Útgjöld á einum stað geta nefnilega í sumum tilfellum ýtt undir tekjumyndun annars staðar en það samhengi virðist ekki passa í excel-skjölin sem svo margir virðast miða við.
Íslensk stjórnmál hafa einnig í gegnum tíðina einkennst af umræðum um einstök smáatriði án þess að setja þau í heildarsamhengi. Þar má t.d. nefna að í stað þess að sameinast um að greina til hlítar samhengið á bak við stöðu íslenskunnar kjósa margir fremur að rífast um hversu hræðilegt það sé að unglingar vilji ekki eða séu hreinlega ófærir um að lesa bækur nóbelsskáldsins.
Þegar rýnt er í þriðja þátt af Felix og Klöru er ekki laust við að þetta orð smámunasemi komi upp í hugann. Ýmsar persónur í þættinum eru afar uppteknar af smáatriðum, ekki eingöngu Felix.
Felix og Klara sýna því til að mynda hvorugt áhuga að sonur þeirra er orðinn heimsþekktur listamaður og verk hans sem er til sýnis á Manhattan-eyju í New York virðist vera of stórt og ýta undir of stórar spurningar fyrir þau. Felix vill frekar ræða við soninn varahlut í klósettið á fyrrum heimili hjónanna sem sonurinn var beðinn um að útvega. Klöru líst ekkert á verkið stóra og vill miklu frekar ræða hvort sonurinn geti ekki búið til lítin mun sem hún geti gefið nágrannakonu sinni í afmælisgjöf.
Í þættinum er Felix einnig afar upptekinn af því að keyrt hafi verið á kassa af tímaritinu Tollvörðurinn sem hann geymir á bílastæði hjónanna í bílageymslu hússins sem þau búa í. Þetta gerir hann í stað þess að finna lausn á því til framtíðar hvar hægt sé að koma tímaritinu fyrir. Það má hins vegar ekki gleyma því að Felix er stoltur af tímaritinu, sem hann átti þátt í að halda úti, og það skiptir hann máli. Fyrir Klöru og vinkonum hennar er tímaritið hins vegar drasl en þær eru uppteknar af því að fá að spila í friði. Annað dæmi um að einblínt sé á smáatriði fremur en samhengi hlutanna.
Fleiri dæmi um smámunasemi nætti tína til úr þessum þriðja þætti en segja má að í honum hafi kristallast þessi eiginleiki í þjóðarsálinni, smámunasemin. Þar af leiðandi er ekki laust við að maður spyrji sig hefur þáttaröð einhvern tímann verið jafn íslensk og þetta?
Í ljósi þessa er ekki annað hægt að en hrósa aðstandendum þáttanna fyrir að hafa náð þessum hæðum strax í þriðja þætti af tíu.
Þættirnir eru þó ekki gallalausir en í þeim, mest megnis öðrum þætti þó, eru staðreyndavillur. Felix reynir að koma tímaritinu fyrir á Þjóðskjalasafninu en ekki Landsbókasafinu sem hefur það hlutverk að taka við prentuðu efni, þar á meðal tímaritum. Þegar fyrrnefnda safnið neitar að taka við tímaritinu endar það á bílastæðinu með fyrrgreindum afleiðingum. Einnig er í öðrum þætti fullyrt að Björn Bjarnason hafi verið dómsmálaráðherra árið 1995 sem er ekki rétt.
Hér er hins vegar um skáldskap að ræða sem vissulega er eins og almennt er raunin um skáldverk innblásinn af veruleikanum en á maður að gera þær kröfur til skáldskapar að hann fari rétt með staðreyndir úr veruleikanum? Er undirritaður þá ekki að gera nákvæmlega það sem hann er að gagnrýna aðra fyrir? Er þetta ekki enn eitt dæmið um smámunasemi Íslendinga sem tekst svo vel að fanga í þessu góðum þáttum, Felix og Klara.