Pistlar Ragnhildur Þórðardóttir sálfræðings, betur þekkt sem Ragga nagli, sem skrifaðir eru á mannamáli njóta mikilla vinsælda á Facebook-síðu hennar. Í þeim nýjasta segist Ragga ekki geta hugsað sér að fylgja reglunni að borða ekkert eftir klukkan 19, segir hún um ljóta reglu að ræða.
„Naglann kennir til í hjartanu að heyra um þá sem aðhyllast „borða ekkert eftir kl. 19“.
Það er ljót regla sem tröllreið lýðnum á áttunda áratugnum innan um SódaStrím og bumbubana, og því miður er þessi bábilja prédikuð ennþá í lífsstílsráðleggingum.
Ef Naglinn fengi ekkert í mallakút fyrir svefninn kæmi ekki blundur á brá af sturluðu hungri og það sem verra er, kjötsöfnunin myndi fljótlega hverfa í hyldýpi niðurbrots og katabólisma í föstu næturinnar.
Segir Ragga að það fyrsta sem hún geri með sínum viðskiptavinum sé að skoða fyrstu máltíð dagsins og síðustu máltið dagsins. Mikilvægt sé að byrja daginn á góðri næringu, og ekki síður mikilvægt að loka deginum á gómsætu lítilræði í kvöldsnæðing.
„Oft kemur það í veg fyrir lélegan svefn vegna hungurs. En ekki síður kemur það í veg fyrir að detta á bólakaf ofan í Nóakroppspokann, þegar nartþörfin ætlar holdið lifandi að éta. En oft er nartþörfin einfaldlega líkaminn að kalla á næringu.
Kvöldstund Naglans felst nefnilega í slafri í smettið af prótíngjafa og fitu. Prótín til að fóðra músklana yfir lengsta föstuástand dagsins, og fitan hægir á upptöku svo prótínið títrast hægt og hljótt eins og Valgeir í Júróvisjón.
Unaðssæla hríslast um skrokkinn og hann fer himinsæll og saddur í bólið, og lúllingurinn verður eins og hjá hvítvoðungi í mjólkurvímu.“